Mælir ekki með að drekka Herbalife-te í prófum

Ása kann að meta gott kaffi og falleg blóm á …
Ása kann að meta gott kaffi og falleg blóm á vinnustaðnum. mbl.is/Saga Sig

Ása Ottesen, markaðsstjóri Tes & kaffis, segir starfið sitt allt í senn fjölbreytt og skemmtilegt, en einnig krefjandi. Hún sér um markaðsmál fyrir kaffihús fyrirtækisins, fyrir kaffið sem selt er á matvörumarkaði og einnig til fyrirtækja. Hún er með BA-próf í félagsfræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Hún segir að besta ráðið sem hún hefur fengið í lífinu sé að skoða inn á við þegar fólk byrjar að fara yfir mörkin hennar. Að versta ráðið sé að drekka Herbalife-te í prófum. 

Ertu í draumastöðunni?

„Ég datt í lukkupottinn þegar ég hóf störf hjá Te & kaffi. Þarna vinnur dásamlegt fólk og allt sem viðkemur kaffiheiminum er gríðarlega spennandi. Ég er svo sannarlega í draumastöðu.“ 

Ertu mikið fyrir kaffi sjálf?

„Dagur án kaffis er ekki til í mínum bókum. Það er fátt sem toppar fyrsta bollann á morgnana.“

Hvað gera kaffinördar á hverjum degi?

„Ótrúlegt en satt þá er ég ekki kaffinörd, það er mikið gert grín að mér á vinnustaðnum þar sem ég fæ mér uppáhellt kaffi með g-mjólk. Kaffinörd byrjar daginn á ljósristuðu kaffi, hellt upp á í hægri uppáhellingu eins og Chemex til dæmis og fær sér alls ekki mjólk í kaffið.“ 

Hvað er kaldbruggun?

„Kaldbruggun, eða Cold Brew, er aðferð til þess að búa til kaffi þar sem malaðar kaffibaunir eru látnar liggja í köldu vatni í lengri tíma, yfirleitt í 12–24 klukkustundir. Lögurinn er síðan síaður og eftir stendur afar bragðmikil og öflug kaffiblanda, silkimjúk en þó rótsterk. Eftir það er kaffið meðhöndlað eftir vilja hvers og eins, ýmist hitað eða ekki, blandað með vatni og/eða mjólk og bragðbætt á hvern þann hátt sem neytandinn kýs. Að margra mati er þetta hin eina og sanna aðferð til þess að búa til hinn fullkomna kaffibolla.“

Getur þú mælt með nokkrum vörum sem þú kannt að meta tengt kaffi?

„Ég mæli með pressukönnu eða french press, Chemex-könnu fyrir þá sem vilja tært og gott kaffi, ferðamáli fyrir umhverfið og svo er algjör draumur að eiga góða kvörn heima og mala kaffibaunirnar.“ 

Gerir þú áramótaheit eða lifir þú meira í flæðinu?

„Ég er alltaf með einhver markmið í huganum þó að ég segi ekki endilega frá þeim. Mér finnst gaman að prófa nýja hluti og þetta árið er markmiðið að stunda köldu pottana og sjósund.“

Hver er hjúskaparstaða og áttu börn?

„Ég er í sambúð og saman eigum við tvær dætur, Yrsu sem er 3 ára og Grímu sem varð 2 ára núna í janúar.“ 

Sérðu fyrir þér einhverjar sviptingar á markaðnum á þessu ári?

„Kaffibransinn er frekar stöðugur en Íslendingar gera miklar kröfur um gæði og ferskleika. Við stöndum vel að vígi þar og vorum nú valin þriðja árið í röð uppáhaldskaffi Íslendinga.“

Eruð þið einungis á heimamarkaði eða að markaðssetja erlendis líka?

„Við seljum einungis hér heima.“ 

Hver eru áhugamálin þín?

„Ég veit fátt skemmtilegra en að vera úti í náttúrunni, fara í gönguferðir við sjóinn og anda að mér fersku lofti. Hlusta á nýja tónlist, skoða tísku, markaðsmál og andleg málefni eins og kakóhugleiðslur, svett og ilmkjarnaolíur.“ 

Hvaða bók lastu síðast?

„Ég skammast mín nú fyrir að segja það en ætli það hafi ekki verið DNA eftir Yrsu Sigurðardóttur.“

Hvað gerir þú fyrir sjálfa þig daglega?

„Því miður hefur ekki verið mikill tími fyrir sjálfa mig eftir að ég eignaðist tvö börn með stuttu millibili en minn tími er á kvöldin þegar þær eru sofnaðar, þá fæ ég smá „me time“ og tek langa sturtu og hlusta á skemmtileg hlaðvörp.“ 

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Ef að fíflunum fjölgar í kringum þig þá er það eitthvað hjá manni sjálfum sem þarf að skoða.“ 

En það versta?

„Að drekka Herbalife-te í prófum, það var mjög slæmt ráð því ég titraði og skalf og gat ekkert lært og sleppti að fara í prófið.“ 

Aðhyllist þú ákveðna uppeldisstefnu?

„Ekki beint en mér finnst mjög gaman að fræðast og lesa mér til um allt í RIE. Ég fór á eitt af fyrstu námskeiðunum sem var haldið og var alveg heilluð. Nota margt úr þeirri stefnu þó svo að ég fylgi henni ekki alveg 100%.“

Ef þú ættir alla þá peninga sem þú þarft í lífinu, hvað værir þú þá að gera?

„Kannski væri ég með mitt eigið markaðsfyrirtæki, byggi á Bali og kæmi til Íslands 2-3 sinnum á ári.“  

Áttu gott ráð að spara?

„Ég kann ekki að spara, enda er lífið núna ekki satt?“  

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn heima?

„Rúmið mitt, fátt betra en að liggja þar og láta þreytuna líða úr sér.“

Hvað er í þínum huga hollt og gott vinnuumhverfi?

„Þar sem ríkir kærleikur, húmor og afslappað umhverfi með smávegis af blómum og auðvitað gott kaffi.“

mbl.is