Vilja fá fólk til að þefa

Sonja Bent og Elín Þorgeirsdóttir eru konurnar á bak við …
Sonja Bent og Elín Þorgeirsdóttir eru konurnar á bak við Nordic angan. ljósmynd/Sigtryggur Ari Jóhannsson

Frumkvöðlarnir Elín Hrund Þorgeirsdóttir og Sonja Bent Þórisdóttir leggja nú lokahönd á sýningu Nordic angan sem nefnist Ilmbanki íslenskra jurta. Eftir marga ára vinnu eru Elín og Sonja komnar með góðan gagnagrunn og vilja leyfa fólki að upplifa lykt af íslenskum jurtum á sýningunni. Að mati þeirra Elínar og Sonju hefur lyktarskynið ekki fengið mikla athygli hér á landi en þær vonast til að bæta úr því.

„Rannsóknarverkefnið Ilmbanki íslenskra jurta hófst fyrir um þremur árum þegar við settum upp lifandi vinnustofu í Hönnunarsafni Íslands en þar ætluðum við að rannsaka eimingu íslenskra jurta til að ná úr þeim ilmkjarnaolíum,“ segir Elín um upphafið en áður en hún kom að verkefninu hafði Sonja hafið að safna gögnum. 

„Sýninguna Ilmbanka íslenskra jurta ætlum við að setja upp í rými okkar í gamla tóvinnuhúsinu í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ. Sýningin er í raun fyrir alla sem áhuga hafa á náttúrunni, ilmi, að skoða eitthvað nýtt og áhugavert því sýningin verður sú fyrsta sinnar tegundar. Á sýningunni verður einnig Ilmsturta Nordic angan sem við frumsýndum á HönnunarMars í fyrra þar sem hún sló algerlega í gegn,“ segir Elín um sýninguna sem mun halda áfram að þróast eftir að hún verður opnuð þar sem þær Elín og Sonja eru ekki hættar að bæta í gagnagrunninn.

„Við hófum nýlega söfnun á Karolina Fund til að fjármagna uppsetninguna á sýningunni. Við höfum verið að safna ilmtegundum um langt skeið og erum klárar með hugmyndavinnuna og hönnun sýningarinnar að mestu leyti en nú er komið að uppsetningu og þar vantar okkur herslumuninn fjárhagslega til að dæmið gangi upp. Þess vegna leitum við til almennings eftir stuðningi til að verkefnið okkar geti orðið að veruleika.“

Þær Elín og Sonja eru með vinnustofu í Álafosskvosinni í …
Þær Elín og Sonja eru með vinnustofu í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ. ljósmynd/aðsend

Íslensk lykt dásamleg og mögnuð

Í upphafi þurftu þær Sonja og Elín að vinna mikla frumvinnu í því hvaða jurtir á Íslandi innihalda ilmkjarnaolíu, hvenær er best að tína og svo framvegis. „Þrátt fyrir að margar samskonar jurtir megi finna í öðrum löndum þá er bæði veðurfar og jarðvegur að einhverju leyti frábrugðinn hér og ilmurinn oft öðruvísi,“ segir Elín.

Hvernig er íslensk lykt?

„Íslensk lykt er alls konar! Hún er dásamlega viðkvæm eins og af blóðbergi og jarðbundin og mögnuð af birkitjöru og allt þar á milli. Við erum bara að vinna með náttúrlega lykt sem við náum beint úr jurtunum og með öðru lífrænu efni s.s. bóluþangi, hrossataði, rabarbara og fleiru svo að breiddin er mjög mikil og lyktin er að sama skapi misgóð að sjálfsögðu.“

Eru Íslendingar að uppgötva möguleika íslenskra ilmtegunda núna eða höfum við verið að nota íslenskan ilm í margar aldir?

„Íslendingar hafa notað jurtir í matargerð og til lækninga í margar aldir en það er ekki nein hefð fyrir eimingu íslenskra jurta til að ná úr þeim ilmkjarnaolíum. Hér á Íslandi er ekki verið að framleiða náttúrulegan ilm fyrir vörur í neinu magni. Að okkar mati hefur lyktarskynið ekki fengið mikla athygli hér á landi en við erum vonandi að bæta aðeins úr því.“ 

Elín og Sonja hvetja Íslendinga til að þefa á sýningu …
Elín og Sonja hvetja Íslendinga til að þefa á sýningu sinni. Hildur Margrétardóttir

Sjaldan náttúruleg efni í ilmvötnum

Margir tengja ilmframleiðslu við fín ilmvötn frá París. Er hægt að vinna eitthvað slíkt upp úr íslenskum jurtum? Er ekki bara moldarlykt af því sem finnst á Íslandi?

„Ilmvötn eru oftast nær ekki unnin úr náttúrulegum efnum. Þau eru nær alltaf unnin úr efnablöndum sem unnar eru á rannsóknarstofum. Það eru í raun einfaldar skýringar á því, það er bæði ódýrara og einfaldara í framkvæmd. Það eru að sjálfsögðu til náttúruleg ilmvötn á markaðnum en ekki nein íslensk sem unnin eru úr íslenskum jurtum. Íslenskar jurtir ilma margar hverjar dásamlega en aðrar framleiða skrýtna lykt og jafnvel vonda að sumra mati. Framleiðsla á ilmkjarnaolíum úr viðkvæmum jurtum er aldrei stór framleiðsla því íslenskar jurtir framleiða flestar mjög litla olíu og því verður hún mjög dýr og verðmæt. Við erum nú þegar byrjaðar að framleiða nokkrar tegundir af ilmkjarnaolíum til sölu, en þá erum við aðallega að nota olíur úr barrtrjám sem gefa olíu allt árið um kring. Við erum hinsvegar aðallega að framleiða ilmtengdar vörur s.s. verkjaolíu, líkamsolíu, íslenskt reykelsi úr birki, hársápur með íslenskum ilmkjarnaolíum og því um líkt. 

Það er mikil efnafræði í ilmbransanum.
Það er mikil efnafræði í ilmbransanum. ljósmynd/aðsend

Hvernig er að vera sjálfstætt starfandi í ilmbransa þegar heilu gámarnir af vel lyktandi vörum streyma til landsins frá útlöndum?

„Okkar sérstaða liggur í því að við erum að framleiða náttúrulega vöru úr íslensku hráefni sem er staðbundið og í sátt við náttúruna því við pössum okkur að ganga aldrei á náttúruna. Við erum t.d. með samning við Skógræktina um að nýta það sem þeir grisja af trjánum en á þann hátt erum við að nýta það sem annars myndi bara liggja á jörðinni og rotna. Samkeppnin er auðvitað hörð þar sem erlendar ilmvörur eru yfirleitt úr gerviefnum og eru oft ódýrar. Notkun á náttúrulegum ilmkjarnaolíum er í raun ekki bara ilmur heldur er einnig verið að notast við eiginleika olíunnar. En þeir eru mismunandi eftir olíum. En til að svara spurningunni þá er þetta hark eins og er. En það á við um flest nýsköpunarfyrirtæki að það tekur tíma að koma verkefninu á koppinn. Í framtíðinni vonumst við samt til að geta leyft landanum að njóta ilmtengdra upplifana og kynna ilm og undraheima þefskynsins fyrir Íslendingum.“

Íslenskar ilmkjarnaolíur mjög öflugar

Hvaða heilsufarlegan ávinning getur góður ilmur haft í för með sér?

„Við látum efnagreina allar okkar olíur í Kanada hjá fyrirtæki sem sérhæfir sig í að efnagreina ilmkjarnaolíur alls staðar að úr heiminum. Út frá því fáum við vita eiginleika olíunnar þ.e. hvort hún t.d. innihaldi bólguhemjandi efni eða verkjastillandi o.s.frv. Margir þekkja eflaust t.d. að lavender ilmkjarnaolía þykir róandi. Út frá þessum efnagreiningum höfum við komist að því að íslenskar ilmkjarnaolíur eru mjög öflugar. Ástæðuna vitum við ekki nákvæmlega en það gæti tengst því að aðstæður eru erfiðar hér, meðal annars út af veðurfari. Japanir hafa rannsakað mikið áhrif ilmkjarnaolía sem tré gefa frá sér. Skógarböð eða Shinrin-yoku (sem þýðir í raun bara að vera í návist trjáa) urðu hluti af opinberri heilsuáætlun í Japan árið 1982. Rannsóknir japanskra og kóreskra vísindamanna, m.a. í Nippon Medical School í Tókýó og Chiba University, hafa sýnt fram á að skógarböð lækka blóðþrýsting, draga úr streituhormónum, bæta ónæmiskerfið og almenna vellíðan. Ástæðuna má finna í ilmkjarnaolíum eða phytoncides sem trén framleiða og gefa frá sér til að verjast bakteríum og skordýrum. Skógarloftið virðist því ekki bara láta manni líða vel heldur í raun bæta ónæmiskerfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál