Leysti af á símanum á lögmannsstofu 11 ára

Bergþóra Halldórsdóttir leiðir svið viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu.
Bergþóra Halldórsdóttir leiðir svið viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu. mbl.is/Árni Sæberg

Bergþóra Halldórsdóttir leiðir svið viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu. Hún lærði lögfræði í bland við alþjóðasamskipti og viðskiptafræði á sínum tíma og lauk réttindum til að starfa sem lögmaður, en fann fljótt að hún átti erfitt með að fylgja mjög stífu formi og segist hafa þessa innri þörf til að hugsa hlutina upp á nýtt og hafa áhrif á umhverfi sitt. Hún hefur frá því hún man eftir sér alltaf þráð að vera fullorðin. Eignaðist börn ung að aldri og leysti af á síma á lögfræðistofu einungis ellefu ára að aldri svo dæmi séu tekin. 

„Ég er búin að vera í sambandi síðan ég var 15 ára og við eignuðumst börnin okkar tvö, Matthildi sem nú er 15 ára og Ríkharð sem nú er 10 ára, á meðan við vorum í háskólanámi. Það fylgdi því mikill sveigjanleiki að eiga börn í námi og aðstæður okkar orðnar mjög þægilegar miðað við marga vina okkar sem byrjuðu seinna á barneignum en í staðinn er maður farinn að kvíða því þegar þau flytja að heiman.“

Nú hefur þú starfað við verkefni er lúta að samkeppnisumhverfi Íslendinga um tíma. Er eitthvert starf sem þú hefur unnið sem fólki kæmi á óvart?

„Í samtölum við vini og kunningja af erlendum uppruna þá vekur jafnan mesta furðu hversu ung íslensk ungmenni eru þegar þau byrja að vinna. Ég held ég hafi ekki verið nema 10 eða 11 ára þegar ég leysti fyrst af á símanum á lögmannsstofunni hjá pabba mínum. Ég fékk síðan að reyna fyrir mér á hinum ýmsu sviðum þar til starfsferillinn hófst „fyrir alvöru“ eftir að ég lauk námi og hafði þá ekki bara prófað hin ýmsu afgreiðslu- og þjónustustörf heldur líka starfað á fasteignasölu, í fjárfestingabanka og fyrir innlendar og alþjóðlegar stofnanir.“

Að kynna Ísland út frá sjálfbærni

Bergþóra segir miklar breytingar hafa orðið á Íslandsstofu að undanförnu.

„Við erum að leita leiða til að greiða fyrir sköpun útflutningsverðmæta. Stærsta verkefni síðasta árs var vinna við nýja langtímastefnu fyrir íslenskar útflutningsgreinar en slík stefna hefur aldrei verið mörkuð áður. Stefnan var samþykkt af viðeigandi aðilum síðasta haust og felur í sér ríka áherslu á að kynna Ísland út frá sjálfbærni. Nú erum við að vinna að því að fylgja stefnunni eftir, m.a. með því að funda ásamt utanríkisráðuneytinu við hagaðila og fyrirtæki um allt land.“

Íslandsstofu er ætlað að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins. Spurð um hvort Bergþóra sé í draumstarfinu segir hún starfið vera frábært og innan áhugasviðs hennar. 

Bergþóra var ung að aldri þegar hún gekk í alls …
Bergþóra var ung að aldri þegar hún gekk í alls konar störf á lögmannsstofu föður síns. mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar kemur að starfsánægju tel ég þó fátt skipta meira máli en samstarfsfélagarnir og ég vinn með stórkostlegu fólki sem ég læri eitthvað nýtt af á hverjum degi og eru það draumaaðstæður í mínum huga. Ég er of mikill sveimhugi til að geta átt mér bara eitthvað eitt draumastarf og ég vona að ég sé fær um að finna gleði og tilgang í hverju sem ég tek mér fyrir hendur.“

Undirbúningurinn skiptir öllu máli

Nú eru fjölmörg fyrirtæki einungis á innanlandsmarkaði, hvað finnst þér mikilvægast að íslensk fyrirtæki geri ef stefnan er sett á alþjóðamarkað?

„Undirbúningur skiptir öllu máli og að fara ekki af stað nema að vera búin að ganga úr skugga um að varan eigi erindi á viðkomandi markað. Þá þurfa fyrirtæki líka að vera tilbúin til að sinna eftirspurn ef vel gengur en ef vel tekst til þá getur salan vaxið talsvert hraðar en við eigum að venjast á hinum íslenska örmarkaði. Það eru ákveðnar áskoranir sem fylgja því að flytja út vörur og þjónustu frá Íslandi og kostnaður getur verið hár. Hin aukna vitund um Ísland sem við höfum fundið fyrir síðastliðinn áratug hefur leitt til aukins áhuga á öllu því sem íslenskt er og þar af leiðandi eru líka mikil tækifæri til staðar.“

Þegar kemur að öðru en vinnu segir Bergþóra að hún eigi erfitt með að nefna eitthvað eitt. 

„Enda er mér jafn mikilvægt að gefa mér tíma til að vera heima og hafa það notalegt og að gera eitthvað fjörugt utan heimilisins. Gleði fyrir mér er að kunna að meta það sem ég er að gera hverju sinni, hvort sem það er fjölskylduspilakvöld, rösk fjallganga, hláturskast með vinkonum yfir freyðivínsglasi eða langt freyðibað.“ 

Bergþóra segir ótrúlega gaman í vinnunni og hún kunni margar góðar sögur af sér þar. 

„Af einhverjum ástæðum eru atvikin sem rifjast upp frekar vandræðaleg. Svo virðist það líka sitja eftir hvernig maður tókst á við krefjandi aðstæður og lærði að mæta mótlæti en ég held að ungar konur í framlínu stórra verkefna fái oft meira en sinn skammt af því.“

Er hrifnæm og tilfinningarík

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Að tileinka mér æðruleysi. Ég er hrifnæm og tilfinningarík og á það til að hafa sterkar skoðanir og vilja leggja mitt af mörkum. Ég á það því til að gleyma mér í hverju því sem ég tek mér fyrir hendur og stundum geng ég of nærri mér. Ég er því að vinna í því að velja betur hverju ég gef orku og veiti athygli. Að auki er ég að gefa sjálfri mér leyfi til að missa stundum einstaka bolta án þess að vera of hörð við sjálfa mig og stundum er réttast að velja að sleppa sumum þeirra.“

Bergþóra segir mikilvægt að hlusta í samtölum og mikilvægt að …
Bergþóra segir mikilvægt að hlusta í samtölum og mikilvægt að við áttum okkur á að stundum sé fólk ekki að biðja um ráð. mbl.is/Árni Sæberg

Bergþóra segir ráðin sem hún hafi fengið í gegnum tíðina misgóð.  

„Við mættum öll vera duglegri að hlusta á hvert annað og leitast við að skilja þarfir viðmælenda okkar frekar en að gera ráð fyrir að fólk deili reynsluheimi sínum til þess eins að láta segja sér fyrir verkum.“

Heimili Bergþóru er yfirfullt af bókum, í raun þannig að hún segir heimilisfólkinu sínu stundum þykja nóg um.

„Því hefur forritið Storytel verið í mikilli notkun hjá mér síðustu misseri enda finnst mér góð bók gera ræktina og heimilisstörfin að miklu ánægjulegra viðfangsefni. Síðasta bókin sem ég kláraði var Talking to Strangers eftir Malcolm Gladwell sem er ætlað að hjálpa okkur að skilja betur hvað ræður því hvernig við upplifum þá sem við þekkjum ekki. Ætla að grípa eina af bókunum sem ég fékk í jólagjöf næst og svo var ég að panta mér stafla af fallegum bókum um innanhússhönnun sem ég get ekki beðið eftir að fletta í gegnum.“

Að auka vægi atvinnuþróunar í þróunaraðstoð

Bergþóra er ekki sammála því að í lífinu sé einungis einhver einn tilgangur. 

„Ég er í öllu falli stanslaust að upplifa nýja hluti sem gefa lífi mínu tilgang. Vegferðin mín er að halda áfram að finna tilgang í því sem ég tek mér fyrir hendur og að lifa í sátt og samlyndi við sjálfa mig og aðra.“

Ef Bergþóra færi með umboð utanríkisráðherra í viku, svarar hún að þótt vika sé langur tími í stjórnmálum er það lítill tími til að setja sig inn í hlutina og framkvæma. Sér í lagi ef vanda á til verka.

„Mér finnst skipta máli að ráðherrar hafi langtímasýn í sínum málaflokki og tel ég mikilvægt upp á trúverðugleika Íslands að það sé ákveðin festa um utanríkisstefnu landsins. Reynsla mín af samstarfi við utanríkisráðuneytið hefur líka sýnt að ráðherra getur alltaf átt von á einhverju óvæntu atviki einhvers staðar úti í heimi sem yfirtekur dagskrána þá vikuna. En við hjá Íslandsstofu erum að vinna með utanríkisráðuneytinu að því að leita leiða til að virkja atvinnulíf til aukinnar þátttöku í þróunarsamstarfi og auka þannig bæði heildarstuðning við þróunarríki og vægi atvinnuþróunar í þróunaraðstoð. Mér finnst þetta ótrúlega þarft og spennandi verkefni þannig að ég myndi sjá til þess að það myndi ekki gleymast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál