Giftist kærustunni áður en Trump myndi eyðileggja allt

Rósa bjó til fyrirtæki með eiginkonu sinni þar sem þeim …
Rósa bjó til fyrirtæki með eiginkonu sinni þar sem þeim fannst skortur á innihaldsríku efni fyrir yngri kynslóðina. mbl.is

Athafna- og listakonan Rósa Guðmundsdóttir hefur búið í tæplega tvo áratugi í Bandaríkjunum, með hléum. Fyrst bjó hún á Manhattan en nú er hún í Los Angeles. Rósa er ein af þeim sem vekur athygli hvert sem hún fer. Það geislar af henni gleðin og orkan og sama hvað hún tekur sér fyrir hendur, þá fer hún alla leið. Hún var áberandi í íslensku samfélagi seint á síðustu öld, þegar hún m.a. lagði lóð sitt á vogarskálarnar er varðar skemmtun, tónlist og menningu, en ekki síður þegar kom að réttindabaráttu samkynhneigða í landinu. 

Þegar hún bjó á Íslandi samdi hún tónlist og stofnaði fyrsta almannatengslafyrirtækið í landinu svo dæmi séu tekin. Auk þess að reka skemmtistaðinn Spotlight.  

Þegar kemur að ástinni trúir Rósa að annaðhvort eigi maður að gera hlutina vel eða maður skyldi sleppa þeim. Rósa kynntist eiginkonu sinni Moonli Singha í New York borg árið 2013. 

 „Við giftum okkur í New York í desember árið 2016. Ástæðan fyrir því er sú að við vildum ekki taka áhættuna á því að Trump og hans fólk myndu reyna að taka réttindi okkar í burtu eftir að hann yrði forseti. Við munum hafa opinbera giftingu hér í Los Angeles þegar það fer að hægja aðeins á hjá okkur. Það hefur tekið mig langan tíma að vera tilbúin í langtímasamband. Ég var ekki viss um að manneskja væri til handa mér í þessum heimi sem deildi svipuðum gildum og lífsstíl og ég. Ég var óviss í raun þangað til ég hitti Moonli. Hún var nógu hugrökk að bjóða mér í kaffi. Við erum báðar edrú og lifum svipuðu lífi. Ég hef verið edrú í sextán og hálft ár og hún í rúmlega tólf ár. Við deilum sömu lífsstefnu og eigum saman fyrirtæki. Við erum gott teymi og eigum sterkt stuðningsnet í kringum okkur. Við deilum sömu lífsgildum, sem eru að vilja láta gott af okkur leiða í lífinu. Við leyfum því markmiði að flæða um lífið okkar, bæði í leik og starfi, sem veitir okkur ánægju og hamingju saman.“

Rósa ásamt eiginkonu sinni Moonli Singha. Þær kynntust í New …
Rósa ásamt eiginkonu sinni Moonli Singha. Þær kynntust í New York-borg árið 2013. mbl.is

Traust er brú fyrir ástina

Þegar kemur að því að skilgreina ástina þá er Rósa á því að ást fyrir henni þýði það að vera á sömu blaðsíðu. 

„Og að deila sömu gildum. Ef það er ekki traust til staðar, þá er engin brú fyrir neina ást að flæða. Þannig að bygging trausts í sambandi skiptir öllu máli og eins og flestir vita er traust áunnið. Það þýðir ekkert að vera með einn fótinn inn um dyrnar og hinn út. Allt eða ekkert er mín trú. 100% eða sleppa því. Þetta gildir með allt sem ég geri.“

Rósa og Moonli Singha eiga framleiðslufyrirtækið Moonheart Entertainment. Þær stofnuðu  fyrirtækið árið 2016 sem sérhæfir sig í hugverkssköpun og framleiðslu skemmti- og fræðsluefnis fyrir ungt fólk og fjölskyldur þess. Á meðal verkefna þeirra eru teiknimynd sem þær keyptu, sem gefin var út árið 1992 og dreift var af 20th Century Fox. Í dag stendur til að endurgera þá mynd með Universal Studios. Rósa vinnur með fjölmörgum þekktum fyrirtækjum hið ytra að alls konar verkefnum. Hún hefur svo sannarlega ekki sagt skilið við tónlistina, síður en svo. 

„Aðalfókus er nú á hugverk sem ég hef skapað og við eigum að fullu. Ég á enn höfundarétt að allri tónlist minni og mun nota hana eða semja ný verk fyrir hugverk mín gegnum fyrirtæki mitt. Við höfum nú þegar byrjað framleiðslu á tölvu-og snjallsímaleiksupplifun af einu hugverki mínu með samstarfsaðilum okkar IBM Watson og XR Games. IBM Watson og við erum að smíða upplifun sem hefur ekki nýtt áður Watson á þann alhliða máta sem við erum að gera, en Watson er þróaðasta gervigreind sem til er. XR Games gerði seinasta „Angry Birds“-leikinn sem kom út í fyrra. Markmiðið er að skapa persónulega upplifun fyrir ungt fólk, sem stuðlar að meiri samkennd og eflingu góðra gilda. Okkur finnst þess sérstaklega þörf í dag.“

Rósa segir að undirrót þess að þær stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma hafi verið pirringur.

„Það var svo margt sem okkur fannst vanta og við vildum sjá meira af. Allt sem við erum að gera mun á einhvern hátt skemmta, fræða og stuðla að einhvers konar vakningu.“

Er ekki hámari á sjónvarpsefni

Rósa lýsir dæmigerðum degi þannig að hún vaknar, fer með bæn, hugleiðir og reynir að rækta þakklætið innra með sér.

„Þetta geri ég áður en ég teygi mig í símann og skoða tölvupóst og skilaboð. Svo fæ ég mér morgunverð og fer yfir fréttir. Þar næst tekur vinnan við. Síðan líkamsrækt og á kvöldin fer ég oftast á 12 spora fund. Síðan enda ég vanalega daginn á tveimur sjónvarpsþáttum á Netflix, Hulu eða Amazon. Ég er ekki hámari á sjónvarpsefni og reyni að halda deginum í föstum skorðum.“

Rósa hefur sjaldan eða aldrei litið eins vel út og í dag og þakkar hún lífsstíl sínum og mataræði þá staðreynd. 

„Ég hef verið algerlega vegan í nær 15 ár. Sem þýðir að ég borða engin dýr né neinar afurðir þeirra. Ég reyni líka að kaupa ekki neitt sem framleitt er úr hræi þeirra. Mér líður betur andlega að gera það ekki.

Þetta er ein besta gjöf sem ég hef gefið mér. Konan mín varð vegan eftir að hún hitti mig og hefur aldrei liðið betur og verið heilbrigðari. Ég hef aldrei verið eins hraust og sterk eog ég er í dag. Ég verð nær aldrei veik og ef ég verð veik þá er ég snögg að jafna mig. Auðvitað stunda ég líka líkamsrækt reglulega, eða þegar ég get.“

Vil ekki leika Guð í eigin lífi

Rósa er æðrulaus þegar kemur að vegan fæði og vill alls ekki skipta sér af því sem aðrir borða. Hún segir að hún hafi ekki orðið vegan á einni nóttu. Að hún sé alls ekki að leika Guð í eigin lífi og viti lítið hvað morgundagurinn felur í skauti sér þegar kemur að mat eða einhverju öðru.

„Heilsan skiptir mig meginmáli því mér finnst gaman að vera til í dag. Það var svo sannarlega ekki alltaf raunin. Þess vegna kýs ég að vera vegan. Það er orðin mikil vakning í kringum það í dag og margir læknar sem segja þetta besta kostinn fyrir heilsu. Ég mæli með Game Changer á Netflix fyrir forvitna.“

Að búa í Los Angeles er draumi líkast fyrir Rósu. Borgin hefur allt til brunns að bera sem hún kann að meta. Hún nefnir veðrið sem dæmi um það. Skemmtanaiðnaðinn, veitingahúsin, ströndina og tækifærin svo eitthvað sé nefnt. 

„Los Angeles er yndisleg. Það er svo falleg náttúran allt í kring. Síðan hef ég ströndina og hafið, sem er í tuttugu mínútna fjarlægð frá þeim stað sem ég bý. Mig langar að nefna fjöllin, Hollywood-hæðir, stórborgarmannlíf og gjöfula menningu. Fólkið hérna er almennt vingjarnlegt, hlýlegt og í góðu skapi.

Það er risagarður beint á móti þar sem ég bý og Grófin (The Grove) sem er einn minn uppáhaldsstaður er við hliðina á heima. Grófin er klassa verslunargarður með bíóhúsi, veitingastöðum og fleira. Ég þarf ekki einu sinni að fara yfir götuna til að vera komin þangað.“

Vinkona Lionel Richie

Rósa segir hvern dag draumadag í Los Angeles að hennar mati. 

„Ég er að lifa drauma mína dag frá degi — því ég er að lifa lífinu sem ég hef alltaf viljað. Ég vakna full af tilgangi, því líf mitt snýst um að vera öðru fólki og samfélaginu sem mest að gagni, bæði persónulega og atvinnulega séð.“

Rósa er ekki alveg hætt að skemmta sér þó henni finnist kannski best að vera heima. 

„Á frídögum finnst mér gaman að fara í bíltúra eða ferðast. Í fyrra bauð vinur minn Lionel Richie mér og Moonli á tónleika sem hann var að halda í Las Vegas, en þangað hafði ég ekki farið áður. Það var mjög skemmtilegt og súrrealísk upplifun þar sem maður sér spilavíti og spilavélar strax á flugvellinum. Ég keyri stundum til Malibu-strandar til að slaka á eða fara út að borða. Svo er Santa Monica strönd næst okkur. Þar er hægt að labba 3rd Street Prominade sem er full af lífi, fjöri og verslunum. Mér finnst alltaf gaman að fara í bíó og út að borða. Þá geng ég í Grófina eða keyri á einhvern skemmtilegan stað í kring. Hollywood er alltaf fyndinn staður að fara á, þótt hann sé meira fyrir ferðamenn. Ég fer stundum þangað að borða eða í bíó. Mér finnst yndislegt að fara í nudd. Ég er með nuddkonu sem ég fer til í Studio City, sem er norður við okkur. Það er uppáhaldsslökunin mín og nauðsynlegt gegn því stressi sem getur skapast í bransanum sem ég er í. Náttúran er svo falleg hérna að ég fer stundum í göngutúr upp í Hollywood-hæðir. Útsýnið þar er stórfenglegt. 360 gráðu útsýni yfir alla borgina út á haf. Alveg magnað.“

Rósa ásamt vini sínum Lionel Richie.
Rósa ásamt vini sínum Lionel Richie. mbl.is

Þótt Rósa sé ekki gömul að aldri ber hún með sér þroska sem mörgum dugar seint ævin öll að öðlast. 

„Mitt andlega ferðalag hefur verið svo alls konar og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Mín stærsta andlega vakning er að lifa í núinu og geta beislað þá orku sem býr í núinu án þess að þurfa eitthvað hugbreytandi. Líka að vera sátt við sjálfa mig. Ég segi oft við fólk að ef þú ert fær um að dansa einn, tveir og núna þá ertu á góðum andlegum stað. Ég mæli oft hvar ég er andlega á því. Ef eiginleikinn til að dansa virðist vera langt í burtu og þungbær hugsun þá er ég eitthvað langt niðri. Ég hef líka komist að því að ef þér finnst þú hafa lært allt og þú ert eitthvað treg/ur við að læra eitthvað nýtt, þá er einmitt tími til að fara taka til hjá sér andlega. Að hafa orðið edrú 24 ára er stærsta gjöf sem ég gat gefið mér. Að hafa byrjað að drekka 13 ára, nota sterkara dóp 18 ára og komin á geðdeild inn og út um tvítugt var mikið áfall fyrir mig og fjölskylduna. En ég myndi aldrei vilja breyta neinu í fortíðinni því hún hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ekki heldur þeim kynferðisáföllum og einelti sem ég varð fyrir, því ég get hjálpað öðrum sem gengið hafa í gegnum slíkt og það færir mér djúpa hamingju.

Að temja sér þjónustulund er mjög fullnægjandi lífsstíll fyrir manneskju sem er að leita að dýpri tilgangi. Þá er ég ekki að meina að reyna að þóknast fólki hægri og vinstri. Það er annað. Heldur að finna hvað hver og einn hefur sem best fram að færa til fólks í kringum sig og fjær. Að lifa í sjálfmiðun eins og ég gerði og sérplægni var ömurlegt og færði mér litla hamingju í lífinu. Því meira sem ég kemst út úr sjálfri mér, því glaðari er ég.“

Ekki hollt að gleypa trúarrit í heilum bita

Ertu trúuð?

„Ég aðhyllist ekki neina trú, heldur andlegan sannleika. Það er svo sannarlega hægt að finna andlegan sannleika í trúarritum og það er fallegt, en það er ekki hollt að gleypa trúarrit í heilum bita. Það er mín skoðun og verður alltaf. Mér finnst líka hollt að fólk lesi sér til um mannkynssöguna og trúi á vísindi. Þá mun það sjá að svo margt snýst um hughrif og stjórnun á fólki. Ég trúi á að hafa þann tilgang að vilja betrumbæta sig daglega. Ef hver og einn hefði það einlæga markmið, þá væri þessi heimur betri. Þá er ég ekki að segja að af því við erum svo ömurleg þurfum við að vera betri. Heldur myndum við reyna að vera betri í dag en í gær. Og með tímanum verður það ekki eins yfirþyrmandi verk. Við erum ekki fullkomin og verðum aldrei. En það er gott að læra að koma betur fram við sjálfa sig jafnt sem aðra. Það fyrir marga tekur tíma. Heilsan og vonin er það mikilvægasta sem við eigum.“

Þegar kemur að því að velja sér maka, fólk sem maður umgengst eða jafnvel foreldra sína þá er Rósa með sína skoðun á því. 

„Ég trúi því að ef við höfum ekki gert upp við t.d. foreldra okkar þá tökum við það með okkur inn í önnur náin sambönd. Að gera upp fortíðina og fyrirgefa sjálfum sér og öðrum skiptir miklu máli svo hægt sé að upplifa hamingju í núinu. Hvert einasta samband í lífi okkur er tækifæri til að þroskast. Maður verður að kjósa sér það og hafa viljann til þess. Og sjá það sem gjöf en ekki byrði. Ég veit með sanni að við erum andlegar verur að upplifa mannlega vist. Þess vegna óttast ég ekki dauðann. Ég hef oft ótta við að þurfa að upplifa sársauka að missa ástvini mína, en ég veit að það er partur af lífinu að missa og kveðja fólk. En dauðann sjálfan óttast ég ekki því ég veit að það er enginn endir á neinu og þú í raun kveður ekki neinn. Ég er nánari ömmu minni núna t.d. heldur en ég var þegar hún lifði. Og það er engin ímyndun í mér. Það er af því að ég hef ræktað það samband eftir að hún fór héðan. Og hún hefur verið mjög nálægt þegar ég þurfti á einhverjum að halda og var ekki fær um að leita mér hjálpar. Ég tala við fólk að handan þegar mig langar. Sá heimur er jafn raunverulegur mér og þessi sem við sjáum. Eg hef oft heyrt sannleika um sjálfa mig sem ég hef þurft að heyra að handan. Alveg eins og frá fólki sem lifir núna. Ég er opin fyrir báðum heimum.“

Rósa ásamt nýjasta ættingja fjölskyldunnar. Barnið er sonur Védísar systur …
Rósa ásamt nýjasta ættingja fjölskyldunnar. Barnið er sonur Védísar systur Rósu. mbl.is

Erfiðast að upplifa sársauka

Hvað er það ánægjulegasta við að vera til?

„Fyrir mig persónulega er það að hafa sigrast á djöflum mínum, að áorka drauma mína, að sjá afrakstur vinnu minnar, að sjá það sem ég trúi á verða að raunveruleika. Að eyða tíma með ástvinum mínum, að læra að meðtaka og gefa ást á djúpan hátt. Að læra af mistökum mínum, að hjálpa öðru fólki og geta lagt eitthvað mikilvægt af mörkum í lífi þess. Að sjá fólk lifna við frá andlegum dauða, að hlæja þar til ég get ekki andað, heilast líkamlega, andlega og tilfinningalega. Að fá að halda á Elíönu frænku og litla nýja frænda þegar þau voru glæný, að upplifa nýja hluti – lífið sjálft, núið og það sem framtíðin hefur fram að færa.“

En það erfiðasta?

„Það erfiðasta við að vera manneskja er að upplifa sársauka í hvers kyns mynd, en það er ekki hægt að þroskast án sársauka. Við sem mannfólk sækjum í þægindi. En andleg vakning sprettur oft af sársauka af því að fara út fyrir þægindarammann eða einhverri lífsins þolraun. Þess vegna er best að þráast ekki á móti sársauka og leyfa honum bara að flæða. Faðma hann, ekki berjast.“

Hvaða tækifæri veita ástarsambönd okkur?

„Ástarsambönd gefa okkur tækifæri á að þroskast, jú – en það er mikilvægt að þurfa ekki að læra sömu lexíuna aftur og aftur. Þá ertu komin í vitfirru – að gera sama hlutinn aftur og aftur og búast við annarri útkomu. Það er oft sársauki í því að þroskast út úr slíkri hringrás, en sá þroski er algerlega þess virði. Sumt fólk er fast í þessu ferli langt eftir aldri. Sem er alger tímaeyðsla.“ 

Rósa segist vita að hún sé að gera það sem hún á að vera gera í lífinu og segir að það hafi komið til hennar án mikillar fyrirstöðu.

„Ég er að gera nákvæmlega það sem mig hefur alltaf dreymt um að gera í dag. Og það var alls ekkert planað í drasl, heldur kom það bara til. Ég vildi alltaf búa til og framleiða mitt eigið efni, og þegar ég hitti Moonli ákváðum við að stofna fyrirtæki okkar. Það ferðalag hefur verið þyrnum stráð, enda ekki fyrir alla að vera kvenkyns frumkvöðull í feðraveldinu. En ég myndi ekki vilja breyta neinu því þetta hefur verið heljarinnar skóli. Nýverið fengum við til liðs við okkur konu að nafni Malini Saba. Hún er fjárfestir og fyrsti kvenkyns billjónamæringur Sri Lanka af eigin rammleik sem trúir heitt á það sem við erum að gera og stöndum fyrir. Einnig nýverið gekk til liðs við okkur kona sem kallast Sue Fleishman, en hún er yfir alþjóðlegu fjölmiðlasviði og almannatengslum. Á undan okkur var hún hjá Amblin Entertainment sem er fyrirtæki Steven Spielberg, og þar á undan hjá Warner Bros og Universal Studios. Ég er stolt af okkur konum sem erum að koma sterkar inn í leikinn í þessari borg með fallegt markmið að efla samkennd og gildi í unga fólkinu í gegnum gæðaefni á öllum skjáum, stórum sem smáum. Það er sterkur byr undir konum í dag, þótt fyrr hefði verið.“

Rósa er að byrja það ferli að verða bandarískur ríkisborgari. 

„Ég hef verið með græna kortið síðastliðin tvö ár. En ég mun vera með tvöfaldan ríkisborgararétt, því ég er stolt af því að vera Íslendingur. Ég mun alltaf eiga rætur heima á Íslandi og elska náttúru okkar. Ég vildi að valdamenn myndu hætta að selja landið undan okkur og vera fyrirmynd fyrir því að gera náttúruna að auðlind okkar allra. Við þurfum að virða náttúruna því hún mun alltaf sigra að lokum. Eins og pabbi segir alltaf: „Kóngur vill sigla, en byr ræður.“ Það er gott fyrir okkur að temja okkur auðmýkt. Það hefur aldrei skaðað neinn.“

Rósa reynir að temja sér auðmýkt og æðruleysi daglega.
Rósa reynir að temja sér auðmýkt og æðruleysi daglega. mbl.is
mbl.is