Hefur mætt í ósamstæðum skóm í vinnuna

Ingibjörg segir besta ráðið sem henni hafi verið gefið vera …
Ingibjörg segir besta ráðið sem henni hafi verið gefið vera það að fylgja hjartanu sínu. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og stjórnarformaður Hörpu, hefur brennandi áhuga á menntamálum, atvinnulílfinu, menningu og listum. Hún segir menntun mikilvæga og leggur áherslu á að samskiptafærni verður sífellt mikilvægari og í rauninni þjálfun á öllum eiginleikum sem greina okkur frá vélmennum

Ingibjörg Ösp lýsir starfinu sínu hjá Samtökum atvinnulífsins sem einstaklega fjölbreyttu og skemmtilegu. Það sama má segja um heimilislífið. Hún er gift Magnúsi Geir Þórðarsyni og eiga þau fimm börn á aldrinum 5 - 22 ára. Hún segir aldrei dauða stund heima en fjölskylduna afar þakkláta fyrir alla meðlimi, ekki síst seint á kvöldin þegar allir eru sofnaðir. 

Menntamál þjóðarinnar eru Ingibjörgu Ösp hugleikin. Hún er á því að góð menntun sé þegar maður öðlast skilning á því hvað maður veit í raun og veru lítið. 

„Það eru svo óendanlega margar leiðir sem hægt er að fara varðandi það að öðlast þekkingu, færni eða hæfileika á ólíkum sviðum. Í mínum huga þarf að þróa menntun með þeim hætti að áhersla sé lögð á aðferðafræði og færni frekar en svör.  Við þurfum að hvetja til og þjálfa skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun, við þurfum að hafa getu til að skilgreina viðfangsefni og þekkja þau úrræði sem við höfum til að leita frekari svara og upplýsinga. Samskiptafærnin verður sífellt mikilvægari og í rauninni þjálfun á öllum eiginleikum sem greina okkur frá vélmennum.“

Ingibjörg er mikil fjölskyldukona og veit fátt skemmtilegra en að …
Ingibjörg er mikil fjölskyldukona og veit fátt skemmtilegra en að vera með börnum sínum og eiginmanni. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur mætt í ósamstæðum skóm í vinnuna

Hvað vilja fyrirtækin í landinu þegar kemur að menntamálum?

„Menntun er mikilvægasta stoð öflugs samfélags og þar eru fyrirtækin í landinu ekki undanskilin. Árangur og framtíðarhorfur þeirra velta á öflugu menntakerfi. Ég hef fundið það mjög sterkt í mínum störfum að atvinnulífið í landinu hefur æ meiri áhuga og skoðanir á menntamálum.  Forsvarsmenn fyrirtækja vilja leggja sitt af mörkum og hvetja eindregið til þess að aukin áhersla sé lögð á menntun. Þeir benda líka á að menntakerfið þurfi að vinna að því að búa nemendur undir framtíðarstörf, þ.e. efla hæfni sem er líkleg til að verða mikilvægari en áður. Við höfum séð afar miklar breytingar á hæfniskröfum á íslenskum vinnumarkaði og munum sjá enn frekari þróun í þeim efnum. Í dag þarf atvinnulífið sárlega á því að halda að meiri áhersla sé lögð á skapandi greinar og starfsmenntun samhliða því sem grunnstoðir eru efldar, lesskilningur, lestur og raungreinar.“

Ingibjörg Ösp er ein af þeim sem tekur sig ekki of hátíðlega í vinnunni og segist hún eiga ófáar sögur af sér þar. 

„Ég hef mætt með ungbarnagubb niður eftir hálfu bakinu, mætti í sitthvorum skónum, bara með einn eyrnalokk og sett brunakerfið í gang þegar ég ýtti á vitlausan takka við lyftuna. Mín fræknasta stund er þó sennilega þegar ég vann í Veganesti á Akureyri, sextán ára gömul, þá seldi ég hamborgara en kúnninn kom til baka eftir nokkrar mínútur og kvartaði yfir því að þó að ekki hefði vantað, sósuna, brauðið og grænmetið, þá hefði hamborgarann sjálfan vantað í brauðið.“

Það hefur ýmislegt gerst í vinnunni hjá Ingibjörgu sem lætur …
Það hefur ýmislegt gerst í vinnunni hjá Ingibjörgu sem lætur það ekki á sig fá og heldur ótrauð áfram. mbl.is/Árni Sæberg

Fer ekki eftir öllu sem henni er ráðlagt

Ingibjörg hefur alltaf haft óbilandi áhuga á menningu og listum. Í raun er hún á því að menning og listir skipti öllu máli. 

„Það kann að vera að okkar heimili sé ekki alveg dæmigert hvað þetta varðar enda höfum við hjónin bæði tengst menningu í gegnum störf okkar og áhugamál árum saman. Þetta er það sem heldur okkur við efnið, gerir stóru stundirnar í lífi okkar stærri, nærir okkur, kryddar hversdaginn og er okkur endalaus innblástur og hvatning til góðra verka.“  

Ingibjörg Ösp setur góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum ofar öllu öðru. 

„Að eiga þessar stundir saman, jafnt í hversdeginum og á ferðalögum. Í útivist eða við að njóta menningar er mér dýrmætt.  Ég vil gjarnan hafa stuð og stemmingu í kringum mig.“

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Að fylgja hjartanu er sennilega besta ráð sem ég hef fengið. Það ráð snýr að stóra samhenginu þótt það geti einnig reynst vel í vinnulífinu. Svo er gott að hafa smá skammt af hugrekki, skynsemi og innsæi með. Það er fullkomin uppskrift að mínu mati.“

En það versta?

„Það er sennilega þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri Menningarhússins Hofs á Akureyri. Þá var mér ráðlagt að huga vel að því að tengjast ekki um of samstarfsfólkinu og eins að gæta þess að taka ekki þátt í hvaða störfum sem væri, það hæfði ekki stjórnanda í svona starfi. Þetta þóttu mér ekki góð ráð – enda fór ég ekki eftir þeim! Það er fátt verðmætara en að tengjast samstarfsfólki sínu á hverjum tíma og skilja eins og kostur er öll verkefni og störf á vinnustaðnum.“

Ingibjörg hefur lengi haft gaman af menningu og listum. Hún …
Ingibjörg hefur lengi haft gaman af menningu og listum. Hún gegnir stöðu stjórnarformanns Hörpunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Ösp er nokkuð viss um að tilgangur lífsins sé að lifa, njóta, elska og gefa af sér.  

„En auðvitað líka að hafa markmið sem maður getur unnið að, verkefni sem þroska mann og gera mann betur í stakk búinn til að takast á við daginn í dag betur en í gær.“

Skortir ekki andlega næringu í lífinu

Hvernig nærir þú þig daglega?

„Ég vildi að ég gæti sagt að líkamleg næring mín væri til fyrirmyndar en svo er nú ekki. Það vantar ekki fögur fyrirheit en svo fara þau, því miður, gjarnan fyrir lítið í amstri dagsins og stundum kallar þreytan á úrræði sem myndu sennilega ekki skora hátt í næringarfræði-úttektum. Það góða er að þarna er umtalsvert tækifæri til að gera betur og þau mál eru í ferli hjá mér núna, eins og reyndar stundum áður á þessum árstíma. Hvað andlegu næringuna varðar, þá er staðan öllu betri – en hana fæ ég ég gegnum börnin, fjölskyldu, vini og áhugaverð verkefni á hverjum einasta degi.“

Ingibjörg Ösp segir að þegar hún hafi góðan tíma hafi hún gaman af því að lesa góðar bækur. 

„Bestu bækurnar eru í mínum huga bækur sem ýta við manni á einhvern hátt eða veita nýja sýn. Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson heillaði mig á sínum tíma og hefur lifað með mér.  Ævisaga Ásdísar Höllu þótti mér afskaplega áhugaverð og sömu sögu má segja af Becoming eftir Michelle Obama. Nú um jólin var ég mjög hrifin af Tilfinningabyltingu Auðar Jóns og Listinni að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.“

mbl.is