Alda Karen lætur mótlæti ekki stoppa sig

Alda Karen, Guada Stewart, Emily Knesevitch og Syndey Lai
Alda Karen, Guada Stewart, Emily Knesevitch og Syndey Lai Ljósmynd/Aðsend

Fyrirlesarinn og ráðgjafinn Alda Karen Hjaltalín er stödd á landinu um þessar mundir og er að setja upp Life Masterclass 3 sem fer fram í Hörpu föstudaginn 28. febrúar næstkomandi. 

Alda Karen hlaut umtalsverða gagnrýni áður en hún kom fram í Laugardalshöll í fyrra en þá beindi hún athyglinni að andlegri heilsu. Hún er þó hvergi bangin og segir sinn helsta lærdóm af umræðunni sem skapaðist í fyrra að það sé þörf fyrir að opna umræðuna enn frekar um andlega heilsu.

„Ég var svo heppinn að fá mikinn meðbyr og þrátt fyrir nokkrar óánægjuraddir að þá seldist upp í Laugardalshöll í janúar í fyrra. Ég horfi alltaf frekar á hvað fólk gerir, frekar en hvað fólk segir og þetta sýndi mér hversu mikinn stuðning ég er með í samfélaginu,“ segir Alda Karen í viðtali við Smartland.

„Fólk vill heyra hvað ég hef að segja og ég mun halda áfram að halda fyrirlestra og búa til svið fyrir fólk sem ég trúi að getur haft áhrif á heiminn allt mitt líf,“ segir Alda.

„Það geta allir haft skoðanir en það eru fáir sem virkilega gera eitthvað í hlutunum svo ég mun gera mitt besta að búa til svið þar sem við getum talað um lífið og tilveruna á einlægum nótum, haft gaman, grátið og tengst hvort öðru í gegnum samkenndina.“

Aðspurð hvort hún hafi verið hrædd að snúa aftur eftir gagnrýnina segir Alda að svo sé ekki. „ Nei, ég var ekki hrædd við að snúa aftur. Það er aðeins ótti ef þú hugsar um hvað öðru fólki finnst. Þegar þú veist að þú ert nóg verða þér allir vegir færir.“

Í þetta skiptið beinir hún sjónum sínum að því hvernig megi byggja upp draumaferilinn og hefur fengið til liðs með sér þrjár konur sem eru sérfræðingar á sínum sviði. 

Alda Karen, Guada Stewart, Emily Knesevitch og Syndey Lai
Alda Karen, Guada Stewart, Emily Knesevitch og Syndey Lai Ljósmynd/Aðsend

„Núna erum við að fara ofan í saumana á hvernig við byggjum upp farsælan starfsferil og komum okkur á framfæri. Maður er nefnilega alltaf að koma sér á framfæri hvort sem maður er að biðja um launahækkun, kynna ritgerð, fara á deit eða fylla Laugardalshöll. Ég hef eytt síðustu 4 árum í að byggja upp svið Life Masterclass svo það myndi laða að fleiri erlenda fyrirlesara til Íslands og tókst það loks í ár. Þetta er í fyrsta skipti þar sem svona margir erlendir fyrirlesarar sem eru allir gífurlega vinsælir í New York, koma saman og tala um allt frá andlegri heilsu í hvernig við getum orðið afkastameiri og byggt upp feril sem hjálpar okkur að ná öllum okkar draumum,“ segir Alda.

Ásamt Öldu munu Guada Stewart, Emily Knesevitch og Syndey Lai koma fram. Þar að auki mun Marisa Peer halda fyrirlestur í gegnum vídeó.

Stewart sem er grafískur hönnuður, sem starfar fyrir frægustu stjörnur í heimi. Hún flutti ein til New York frá Argentínu aðeins 19 ára gömul og byrjaði að byggja upp feril sem hönnuður. Hún talar um hvernig hún bjó til tengslanet frá grunni sem svo fleytti henni áfram í „neðanjarðar" senunni í New York og hún fer ofan í hvað hún sagði, hvernig hún sagði það, við hvern hún talaði og svo framvegis.

Knesevitch er Artist Repertoire hjá Atlantic Records. Hún er yngsta konan í sögu þessa sögufræga fyrirtækis, til að verða umsjónarmaður tónlistarmanna og vinnur við það að uppgötva nýja tónlistarmenn, koma þeim á mála hjá Atlantic og þaðan á toppinn. Hún var til að mynda í teyminu sem gerði Lizzo heimsfræga. Emily fer ofan í kjölinn á öllu því ferli með okkur auk þess að fjalla um hvernig Ed Sheeran, Missy Elliott, Bruno Mars og Cardi B, sem öll eru hjá Atlantic, hafa náð þeim árangri sem við þekkjum orðið vel flest.

Lai er stofnandi og framkvæmdastjóri Squad Ventures. Squad Ventures er tengslanet englafjárfesta og hefur náð $36.5 milljón dollara fjárfestingum fyrir um 20 fyrirtæki á síðustu tveimur árum. Sydney seldi fyrsta fyrirtækið sitt í netgjaldmiðlum þegar hún var aðeins 23 ára og ákvað að verða englafjárfestir sem sérhæfir sig í blockchain og fyrirtækjum í eigu ungra kvenna. Saga Sydney er einstaklega áhugverð og ég bind miklar vonir við að þetta erindi verði aðdráttarafl á margar konur í þessum bransa hérna heima.

Marisa Peer var árið 2018 var kosin besti þerapisti Bretlands í Men’s Magazine. Hún hefur átt gríðarlegri velgengi að fagna í sínu fagi og er netnámskeiðið hennar um andlega heilsu, RTT Therapy, meðal þeirra mest seldu á heimsvísu. Hún er jafnframt einn dýrasti sálfræðingur í heimi, enda sækja milljónir sálfræðinga námskeið hjá henni á hverju ári. Hún er sömuleiðis upphafskona „Þú ert nóg” byltingarinnar sem hún hefur leitt í London og New York með hreint ótrúlegum árangri.

Geturðu gefið lesendum eitt ráð um hvernig má byggja upp draumaferilinn?

„Fjárfestu í tengslanetinu þínu, maður gerir lítið einn“ segir Alda.

Frekari upplýsingar um Life Masterclass 3 má finna á vef Hörpu, en þar fer miðasalan einnig fram. 

mbl.is