„Ég hef eiginlega komið bakdyramegin inn í allt“

Jón Gnarr hefur nám við Listaháskóla Íslands í haust.
Jón Gnarr hefur nám við Listaháskóla Íslands í haust. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Gnarr hefur ákveðið að setjast aftur á skólabekk en hann fékk nýlega inngöngu í meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Langt er síðan að Jón sat á skólabekk síðast en hann er fullur tilhlökkunar að takast á við nýjar áskoranir í haust.

Það hefur lengi blundað í Jóni að fara í nám.

„Eftir að ég hætti sem borgarstjóri var ég svolítið að velta fyrir mér hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Mig langaði svo til að vinna í leikhúsinu. Mínar rætur eru sterkar í leikhúsinu sem handritshöfundur og líka sem leikari. Í framhaldi af því ákvað ég að sækja um þetta,“ segir Jón og segir námið gríðarlega spennandi.

Loksins inn um aðalinnganginn

„Ég hef eiginlega komið bakdyramegin inn í allt. Ég sjálfmenntaði mig sem leikari og svo varð ég stjórnmálamaður. Fór bakdyramegin inn í það líka. Ég gerði það líka á ákveðinn hátt sem rithöfundur. Mér finnst rosa gaman að fá fara inn um aðalinnganginn núna.“

Til þess að komast inn í Listháskólann þurfa nemendur að gangast undir strangt inntökuferli. Þar að auki eru gerðar þær forkröfur að nemendur séu með B.A.-gráðu. Jón er þó hvorki með háskólapróf né stúdentspróf. Hann fékk undanþágu frá þessum forkröfum enda býr hann yfir yfirgripsmikilli starfsreynslu og er meðal annars með starfsréttindi sem leikari.

Jón Gnarr hefur mikla reynslu af leiklist. Hér er hann …
Jón Gnarr hefur mikla reynslu af leiklist. Hér er hann í leikriti sínu Súper sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu í fyrra.

„Ég hef í gegnum tíðina verið að sækja um allskonar nám. Langað til að gera eitthvað en aldrei staðist inntökuskilyrði,“ segir Jón. Hann segir að vegna eðli námsins hafi hann getað fengið starfsreynslu sína metna sem háskólanám. Efast Jón um að starfsreynslan hafi komið í stað formlegrar skólagöngu ef hann hefði viljað læra læknisfræði.

Hefur kennt í háskóla en ekki verið nemandi

„Mér finnst það gríðarlega spennandi og skemmtileg áskorun sem ég hlakka mjög til að takast á við,“ segir Jón þegar hann er spurður hvernig það leggist í hann að setjast á skólabekk eftir svo langa fjarveru.

Jón er ekki ókunnugur háskólaumhverfinu þar sem hann kenndi við háskólann í Houston í Bandaríkjunum.  

„Ég var semsagt í tvo vetur úti í Houston og var að kenna við háskólann í Houston. Ég kenndi handritaskrif sem mér fannst gríðarlega skemmtilegt.“

Í meistaranáminu við Listaháskólann fá listamenn að þróa listsköpun sína og ætlar Jón meðal annars að leggja áherslu á leikhús fáránleikans eða absúrdisma í náminu.

„Mínar rætur liggja í absúrdleikhúsi og súrrealisma. Það er það leikhús sem ég heillaðist af sem ungur maður og hef verið að vinna með. Mig langar til að efla færni mína og kanna nýja möguleika í absúrdleikhúsi,“ segir Jón og bætir einnig við að hann vilji styrkja íslenska leikritun og handritagerð. Finnst honum höfundar á því sviði ekki standa jafnfætis rithöfundum sem skrifa bækur.

mbl.is