Enn að meðtaka vinsældirnar

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr og leikstjórinn Guðný Rós Þórhallsdóttir í tökum.
Tónlistarmaðurinn Daði Freyr og leikstjórinn Guðný Rós Þórhallsdóttir í tökum. Ljósmynd/Aðsend

Kvikmyndagerðarkonan Guðný Rós Þórhallsdóttir leikstýrði myndbandinu við lagið Think About Things með Daða og Gagnamagninu. Í byrjun vikunnar fór áhorfið yfir eina milljón og er Guðný enn að melta þessar góðu viðtökur.

„Það eru bara rúmlega tvær vikur síðan við birtum myndbandið á netinu. Þetta er eiginlega pínu óraunverulegt. Þetta er allt á netinu, maður finnur ekkert fyrir þessu nema í tölvunni. Þetta er einhvern veginn ekki alveg búið að „sinka“ inn,“ segir Guðný.

Guðný vann myndbandið með samstarfskonu sinni Birtu Rán Björgvinsdóttur en þær byrjuðu að vinna saman í Kvikmyndaskóla Íslands árið 2016 og reka nú saman framleiðslufyrirtækið Andvara. Guðný segir þær lítið hafa þekkt Daða áður en þær tóku verkefnið að sér.

„Ég var að vinna fyrir RÚV núll og hafði gert stuttan heimildarþátt um hann í Rabbbara. Það var í fyrsta skipti sem við Birta hittum hann. Umboðsmaðurinn hans þekkir Birtu og hann hafði upphaflegu samband við Birtu. Við sáum að þetta var aðeins stærri framleiðsla og þannig kom ég inn í þetta,“ segir Guðný.

„Daði kom með upphaflegu hugmyndina um að þau spiluðu í matarboði og svo myndi bætast meira við. Hann kemur til okkar með þessa hugmynd og í kjölfarið skrifa ég handritið og bæti við og við breyttum sumu. Við vorum rosalega trú upphaflegu hugmyndinni. Svo fórum við í framleiðslu. Hann fékk alla dansarana inn. Við redduðum öllum aukaleikurunum. Litli frændi minn er til dæmis litli strákurinn með hattinn. Svo er litla stelpan sem spilar á flautuna litla frænka Birtu. Þetta var pínu fjölskylduframleiðsla.“

Fasteignaperrinn í Guðnýju fann stofuna

Eitt af því sem þurfti að gera var að finna réttu tökustaðina. Litla stofan í myndbandinu er sérstaklega eftirminnileg. Guðný vill ekki gefa upp hvar stofan er en Guðný er alltaf með augun opin fyrir mögulegum tökustöðum. 

„Ég er líka algjör svona fasteignaperri. Ég held að ég muni nú ekki sjálf hafa efni á að kaupa mér mína eigin fasteign fyrr en ég er orðin svona 150 ára en ég elska að skoða fasteignir á fasteignasölum. Alltaf þegar maður er að keyra fram hjá þá er maður að kíkja inn um glugga og ekki til þess að skoða fólkið heldur hvernig heimili fólks eru.“

Guðný var upphaflega með aðra stofu í sigtinu. 

„Það var einn staður sem við vorum að hugsa um áður en við fengum þessa stofu. Við vorum á ógeðslega miklum bömber þegar það gekk ekki upp. Ég held að þetta hafi verið íbúð sem allir á Íslandi sáu. Þegar ég hringdi í fasteignasalann þá sagði hann mér að það hefðu 20 aðrir verið búnir að biðja um það sama,“ segir Guðný og telur að sú stofa hafi verið í eigu eldra fólks eða verið dánarbú. „Þetta var ógeðslega falleg íbúð sem ég sá myndbandið fyrir mér í. Ég var síðan ánægð með þessa stofu sem við fengum. Það var eiginlega betra að hún var svona lítil.“

Guðný Rós Þórhallsdóttir vinnur með samstarfskonu sinni Birtu Rán Björgvinsdóttur.
Guðný Rós Þórhallsdóttir vinnur með samstarfskonu sinni Birtu Rán Björgvinsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Mikil óvissa fylgir starfinu

Guðný lagði áherslu á leikstjórn í Kvikmyndaskólanum og framleiðir meðfram því. Hún er auglýsingaleikstjóri hjá Skot Productions. Hún segir mismikið að gera og mikla óvissu einkenna starfið. 

„Það mætti alveg vera meira að gera. Annars er þetta rosalega misjafnt. Maður veit í rauninni aldrei hvað maður gerir í næsta mánuði. Það getur verið óþægilegt en ég fúnkera ekki í níu til fimm vinnu. Nú er maður orðinn svo vanur þessari „freelance-vinnu“. Að vera kannski í fríi í tvær vikur og fara svo í hörkuverkefni í mánuð eða tvo og svo lifa á því verkefni í einhvern tíma eftir á. En eins og ég segi þá myndi maður alveg vera meira bókaður. Það er erfitt að vinna í fullu starfi sem leikstjóri. Maður er yfirleitt að gera eitthvað annað með eins og að taka að sér framleiðsluverkefni eða vinna sem aðstoðarmanneskja í stórum verkefnum,“ segir Guðný sem vinnur líka stundum á bílaleigu á kvöldin þegar minna er um að vera í kvikmyndagerðinni. 

Þegar Guðný er ekki í tökum nýtir hún meðal annars tímann til að skrifa. Hún er núna að vinna í handriti að stuttmynd. Hún segist vera hrifin af dökkum húmor og öllu skrítnu. 

Kvikmyndagerðarkonan Guðný Rós Þórhallsdóttir.
Kvikmyndagerðarkonan Guðný Rós Þórhallsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að gefast ekki upp þótt á móti blási

Guðný segir að konum fari fjölgandi í kvikmyndageiranum og sérstaklega í tæknistörfum. Nefnir hún Birtu samstarfskonu sína sem dæmi sem er tökumaður. Staða kvenna í kvikmyndageiranum hefur verið í brennidepli síðustu ár og segist Guðný vera heppin að koma inn í bransann á þessum tíma en er þó einnig þreytt á því að tala um sig sem konu í kvikmyndageiranum. 

„Ég hef fengið þessa spurningu í öllum viðtölum sem ég hef farið í. Það er alltaf spurt út í hvernig það er að vera kona. Auðvitað þarf að vekja athygli á því að það vanti fleiri konur en mann langar samt ekki í verkefni út af því að maður er kona. Maður vill fá verkefni út af því að maður er að gera góða hluti. Að það sé það sem skipti máli.“

Hún segir skipta máli að gefast ekki upp til að ná árangri. Sjálf fann hún fyrir mótlæti þegar hún var að stíga sín fyrstu skref sem unglingur. 

„Ég fékk styrk fyrir mynd sem ég ætlaði að gera þegar ég var 17 ára. Ég var komin á fullt í framleiðslu á þeirri mynd. Ég lendi í því að ég heyri fólk tala um að það hafi ekki trú á mér og ég sé veruleikafirrt. Þannig að það endaði með því að ég skilaði styrknum og lét þetta stoppa mig. Það er ekki fyrr en nokkrum árum seinna að ég ákveð að ég ætla bara samt að gera þetta. Það verður samt alveg fimm ára bil þar sem ég ætlaði bara að fara gera eitthvað annað. Ekki láta orð annarra stoppa þig,“ segir Guðný að lokum. 

mbl.is