Verkefnin ráða vinnustundunum

Hera Grímsdóttir er forseti iðn- og tæknifræðideildar HR.
Hera Grímsdóttir er forseti iðn- og tæknifræðideildar HR. mbl.is/Árni Sæberg

Hera Grímsdóttir er forseti iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík. Ólíkt mörgum í hennar stöðu er hún ekki með hefðbundinn akademískan feril að baki. Hera er verkfræðingur í grunninn en áður en hún hóf háskólanám ferðaðist hún um heiminn í tvö ár og segir þá reynslu ótrúlega góðan skóla. 

Hvernig er að vera forseti iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavíkur?

„Það er bæði skemmtilegt, fjölbreytt og krefjandi. Engir dagar eru eins og það er óhætt að segja að mér leiðist aldrei í vinnunni. Iðn- og tæknifræðideild er ný deild við Háskólann í Reykjavík, rétt rúmlega eins árs og því í mörg horn að líta. Deildin hefur verið í miklum vexti og eru nú um 450 nemendur hjá okkur.

Margt af því sem við bjóðum upp á hefur þó verið kennt til fjölda ára hér á Íslandi, eins og tæknifræði og iðnfræði en við erum einnig með styttri námslínur sem eru nýjar af nálinni og sniðnar að þörfum atvinnulífsins hverju sinni.

Ætli samnefnarinn með öllum okkar námsbrautum sé ekki sá að láta hugvit og verkvit mætast þar sem allt námið er mjög hagnýtt. Útskrifaðir nemendur eru tilbúnir að mæta kröfum atvinnulífsins hverju sinni.

Síðustu dagar hafa að sjálfsögðu verið óhefðbundnir líkt og væntanlega hjá flest öllum á Íslandi en við vinnum heiman frá okkur og öll kennsla fer í gegnum fjarnám.

Almennt er afskaplega gaman að vera forseti og að vinna í háskólaumhverfinu, ég vinn með afar skemmtilegu og hæfileikaríku fólki en einnig læri ég heilmikið af nemendum,“ segir Hera. 

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Háskólinn í Reykjavík leitaði til mín þegar þau voru í skipulagsbreytingum og könnuðu hvort ég hefði áhuga á að stýra þessari nýju deild. Það hafði lengi verið í umræðunni að lítið væri í boði fyrir iðnmenntaða einstaklinga og að leið þeirra inn í háskóla væri lokuð. Hins vegar var þetta ekki alveg rétt því það var heilmikið í boði fyrir einstaklinga með iðnmenntun sem bakgrunn en það var kannski ekki nægjanlega sýnilegt. Eitt af markmiðum með þessari nýju deild, iðn- og tæknifræðideild, var því meðal annars að gera hagnýtt tækninám á háskólastigi, sem hentar þá bæði þeim sem eru með iðnmenntun sem og stúdentspróf, sýnilegra og aðgengilegra.

Ætli flestir myndu ekki lýsa mér sem einhverri sem sér tækifæri í hlutunum. Mér finnst gaman að áskorunum, er lausnamiðuð og vil stöðugt vera að læra eitthvað nýtt. Það var einmitt þess vegna sem mér fannst ég smellpassa inn í iðn- og tæknifræðideild þar sem námið sem þar er í boði er mjög hagnýtt og nemendur eru undirbúnir til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða þeirra við komu út á vinnumarkaðinn. Eitt af markmiðunum sem við settum okkur er að byggja upp nám sem tekur mið af þörfum atvinnulífsins, með áherslu á hagnýta tækniþekkingu sem nýtist vel frá fyrsta degi í starfi. Slík þekking er dýrmæt þegar út á vinnumarkaðinn er komið.“

Hera Grímsdóttir lærði verkfræði.
Hera Grímsdóttir lærði verkfræði. mbl.is/Árni Sæberg

Hvernig hefur þinn ferill verið?

„Ég sjálf er ekki með þennan hefðbundna akademíska bakgrunn sem flestir starfsmenn háskólans hafa þar sem flestir hér eru með doktorsgráðu. Ég er með tvær mastersgráður, MSc í byggingarverkfræði með áherslu á framkvæmdastjórnun og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Þá hef ég alltaf unnið með skóla svo lengi sem ég man eftir mér, minnir að ég hafi byrjað að vinna í bíó og bakaríi um helgar strax í 8. bekk. Áður en ég valdi verkfræðina sem mína leið í lífinu ferðaðist ég í um tvö ár og ætli það hafi ekki verið einn besti skóli sem ég fór í. Þar lenti ég alls kyns ævintýrum sem tæki langan tíma að segja frá og þurfti að læra að bjarga mér.

Hinn eiginlegi starfsferill byrjaði svo árið 2002 eða 2003 þegar ég hóf störf á verkfræðistofunni Línuhönnun, sem í dag heitir EFLA, fyrst sem sumarstarfsmaður. Eftir útskrift hélt ég áfram hjá EFLU og vann hjá þeim til ársins 2011, lengst af á framkvæmdasviði. Ég ber afar hlýjan hug til EFLU og þeirra sem ég vann með þar, það má segja að þetta hafi verið uppeldisstöð mín og það sem ég var hrifnust af þar var hvað ég var hvött til að hugsa út fyrir kassann og koma með nýjar hugmyndir.

Hera Grímsdóttir.
Hera Grímsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Árið 2011 hóf ég svo störf hjá Össuri þar sem ég stýrði fjölmörgum alþjólegum BIONICS-gerviútlimaverkefnum sem og nýrri spelkuvörulínu. Ég naut mín mjög í nýsköpunarumhverfinu og lærði heilmikið af veru minni hjá Össuri enda ótrúlega margt hæfileikaríkt fólk sem þar er samankomið.

Síðla árs 2015 tók ég svo við stöðu sem sviðsstjóri yfir byggingasviði hér hjá HR og hef verið þar síðan, í dag sem forseti í iðn- og tæknifræðideild.

Ferill minn hefur því verið ansi fjölbreyttur, einkennst af ólíkum verkefnum og umhverfi sem og stöðugum nýjum áskorunum.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan mín gefur mér mjög mikið, bæði vellíðan og útrás. Ég er ein af þeim sem hef verið svo lánsöm að hafa alltaf fundist gaman í vinnunni og ég eyði miklum hluta af mínum tíma í vinnunni. Ég tel það vera mikilvægt að vinnan geti gefið manni eitthvað annað en laun til að lifa af. Ég er þannig þenkjandi að ég vil stöðugt vera að betrumbæta mig, læra eitthvað nýtt og vaxa, hvort sem það er í starfi eða sem manneskja.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig og, ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já það hefur alveg komið fyrir en ég held að besta ráðið sé að forgangsraða og skipuleggja sig. Þegar maður nær yfirsýn yfir allt það sem maður „verður að gera“ þá áttar maður sig á hvað það er sem skiptir máli og hvað ekki og nær þannig betri stjórn á lífi sínu.“

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Ætli mitt ráð væri ekki að láta af fullkomnunaráttunni, leyfa sér að njóta og vera maður sjálfur. Þó að ég hugsi frekar um mig sem einstakling á vinnumarkaði frekar en sem konu þá eru ýmsir hlutir sem eru almennt ólíkir milli kvenna og karlmanna, þannig á það líka að vera. Ekki reyna að vera eitthvað annað en þú ert, vertu ánægð með það sem þú ert góð í og nýttu þér það.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Ég á mér ekki einhverja eina fyrirmynd. Það er margt í fari margra sem ég þekki, karla og kvenna, sem ég lít upp til og vil læra af. Ef það væri einhver ein kvenfyrirmynd sem ég ætti að nefna þá væri það hún mamma mín. Hún kenndi mér snemma að vera öguð, metnaðarfull og að gefast ekki upp.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ætli ég sé nú ekki frekar gamaldags. Ég nota hina klassísku dagbók sem ég opna í upphafi dags og skrifa niður verkefni dagsins. Ef þau eru óheyrilega mörg, sem oft vill verða, þá forgangsraða ég þeim. Að auki set ég alltaf niður mikilvægast verkefni vikunnar niður á blað í dagbókinni, það eru þau verkefni sem verða að klárast í viðkomandi viku.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Nú langar mig að segja að ég vakni klukkan sex, hugleiði og fái mér morgunbúst áður en ég vek fjölskylduna. Kannski verður það þannig einn daginn en í sannleika sagt þá vakna ég með manninum mínum og stelpum, við fáum okkur morgunmat og græjum nesti og þess háttar. Þegar þær hlaupa út þá bruna ég oftast af stað í vinnuna rétt fyrir klukkan átta. Ef ég lendi á rauðu ljósi þá mæti ég með maskara en annars ekki. Suma daga byrja ég reyndar heima og finnst mér það ágætt. Þá fæ ég mér góðan kaffibolla og klára inboxið áður en ég mæti í vinnuna.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Ég mæli ekki vinnuna mína í klukkutímum og hef ekki gert það lengi. Auðvitað fer það eftir vinnustöðum og verkefnum en mér finnst orðið ansi úrelt að mæla afköst starfsmanna í klukkutímum. Ég vinn því oft á kvöldin en það er þá þegar stelpurnar eru sofnaðar. Ég tek alltaf frá tíma til að eyða með fjölskyldunni og sömuleiðis reyni ég að hreyfa mig reglulega. Þetta virkar ágætlega fyrir mig enda finnst mér gaman að vinna og verkefnin eru oftast krefjandi og skemmtileg í senn.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Mér finnst skemmtilegast að eyða tíma með fjölskyldunni minni og vinum. Þó að ég njóti þess að vera heima, hafa það hugglegt og lesa góða bók þá er ég frekar aktív. Fer á snjóbretti og skíði, göngutúra, er mikið í hestum á sumrin og elska að ferðast.“

mbl.is