Auglýst eftir kynlífstækjaprófara á Íslandi

Viltu vinna við að prófa kynlífstæki?
Viltu vinna við að prófa kynlífstæki? mbl.is/Thinkstock

Atvinnuauglýsingar eru ekki margar þessa dagana en þó einhverjar. Ein atvinnauglýsing stingur í stúf en kynlífstækjaverslunin Losti.is auglýsir eftir kynlífstækjaprófara. Ekki er krafist menntunar né starfsreynslu á sviðinu. 

Á atvinnuleitarmiðlinum Alfred.is má finna auglýsinguna frá Losta.is. Auglýst er eftir opnum og skemmtilegum einstaklingi sem er til í að prófa kynlífstæki verslunarinnar og gefa síðan hreinskilið álit á tækjunum. Kynlífstækjaprófarinn þarf að vera opinn fyrir því að prófa fjölbreyttar vörur. 

„Við leitum að starfsmanni sem er óhræddur við að greina opinskátt frá upplifun sinni af hinum ýmsu kynlífstækjum. Ekki er nauðsynlegt að hafa notað kynlífstæki áður,“ segir meðal annars í auglýsingunni. 

Starfsmaðurinn sem verður fyrir valinu þarf að búa yfir nokkrum kostum. Hann þarf að hafa áhuga á kynlífstækjum, vera með góða samskipta- og samstarfshæfni, hafa frumkvæði og drifkraft, búa yfir skipulögðum og öguðum vinnubrögðum auk þess að hafa náð 18 ára aldri. 

Ekki kemur fram í auglýsingunni hvort vinnan er full vinna. Fleira þarf að gera en prófa vörurnar þar sem rétti aðilinn þarf meðal annars að skrifa greinar og vinna markaðsefni fyrir fyrirtækið. 
Hér má sjá auglýsingu Losta.is sem birt var á Alfred.is.
Hér má sjá auglýsingu Losta.is sem birt var á Alfred.is. Skjáskot/Alfred.is
mbl.is