„Ég skil ekki neitt en er samt að skilja“

Sigga Dögg er einstaklega opin og skemmtileg kona sem segir …
Sigga Dögg er einstaklega opin og skemmtileg kona sem segir hlutina eins og þeir eru. Ljósmyndari/Saga Sig

Sigga Dögg kynfræðingur hefur vakið athygli að undanförnu fyrir einlæga frásögn af lífinu eftir skilnað. Þeir sem hafa farið í gegnum sambandsslit og ástarsorg tengja margir hverjir við það sem hún er að segja. Til að byrja með er hún ein af þeim sem ætluðu sem dæmi aldrei að skilja. Enda kemur hún úr fjölskyldu þar sem allir eru harðgiftir sjálfir. 

„Ég held að sú staðreynd að foreldrar mínir eru ennþá í hjónabandi sé ekki ástæða þess að þetta ferli er erfitt. Því jafnvel þótt einstaklingar hafi upplifað skilnað foreldra sinna held ég að ekkert undirbúi okkur fyrir skilnaðarferlið. Það er svo flókið. Ég er sem dæmi spurð hvort ég sé nýskilin! Eins og tíminn eigi að segja eitthvað til um hvar ég er stödd í ferlinu. Ég veit ekki einu sinni hvernig fólk reiknar þennan tíma út. Er maður að skilja þegar maður hugsar um skilnaðinn fyrst? Þegar maður ákveður það með makanum? Eða þegar maður tekur niður hringana? Þegar maður mætir til prestsins? Eða þegar maður segir börnunum frá? Þegar maður flytur í sundur? Er með fyrstu manneskjunni eftir skilnað? Selur húsið? Það eru svo ótal margir atburðir inni í ferlinu. Ég skil ekki neitt en er samt að skilja.“

Fannst hún vera keppnis í lífinu

Sigga Dögg á misgóða daga. 

„Ég fór í pylsupartí á laugardaginn síðasta með börnunum og skemmti mér vel. Þennan dag hugsaði ég með mér hvað við mömmur erum flottar; að standa svona vel saman og það allt. Vinkona mín grillaði úti og ég horfði á. Síðan keyrði ég heim og bar krakkana sofandi ein upp í rúmið. Eftir það átti ég æðislega kvöldstund út af fyrir mig heima. Mér fannst ég eitthvað svo ótrúlega keppnis í lífinu.

En svo rann upp mæðradagurinn og ég hafði ekki spáð neitt í því. Um morguninn heyrði ég börnin trítla inn í eldhús. Börnin mín sem eru svo einstök, dýrmæt og falleg og þá helltist yfir mig þessi sorgartilfinning. Þannig að ég grét allan mæðradaginn út af því að mér finnst ég vera að taka svo mikið frá þeim. Hvað var ég að spá? Að ætla að vera með þau viku og viku. Verja helmingi tímans með þeim?“

View this post on Instagram

Mæðradagurinn… fokk. Þetta er erfiðasti mæðradagurinn sem ég hef átt frá því að ég varð móðir. Það er djöfulegt að velja það - já velja- að vera móðir í hlutastarfi. Það verður einhver sundrung í sálinni að vera mamma aðra vikuna og ein hina vikuna. Ég skil að það sé engin önnur leið en þetta er tætandi og slítandi og tærandi. Eins og ég held að flestum mæðrum líði, þá er maður aldrei nógu góð. Aldrei akkúrat það sem þau þurfa og þeim vantar. Þannig líður mér. Þjökuð af samviskubiti yfir að vera tryllingur sem gat ekki verið glöð og haldið fjölskyldu saman. Mæður velja ekki sig framyfir fjölskylduna, þær velja það sem er best fyrir börnin. Og börnin vilja vera fjölskylda. Allir saman, engar breytingar, ekkert vesen. En ég er vesen. Svo hvar skilur það mig? Hvað er ég þá? Hver er ég þá? En ég veit í hjarta mínu að þau fá á endanum glaðari og sterkari mömmu en munu þau upplifa það þannig? Og ég veit að þetta er ekki lógík en hjartað er heldur ekki lógík. Það er bara blæðandi sár sem öskrar allskonar hluti. Ég ýti þeim frá mér svo þau verði ekki háð mér svo aðskilnaðurinn verðu þeim ekki erfiðari en hann þarf að vera, en svo held ég þeim svo þétt upp að mér að ég ætla að kæfa þau. „Mamma, komdu heim, hvenær kemurðu heim?“ Og ég hef engin svör önnur en þau ég kem þegar ég kem og fer þegar ég fer. Krakkarnir vöktu mig í morgun með morgunmat í rúmið. Þau völdu allt sem ég elska (hnetusmjörs m&m, kanilkex, hrökkbrauð með smjöri) og helltu uppá (mundu meira að segja eftir mjólkinni!) Og kveiktu á kerti. Svo komu þau öll uppí og við kúrðum og spjölluðum. Mest langaði mig að segja þúsund sinnum fyrirgefðu en í staðinn sagði ég bara takk og gróf hausnum í koddann. Þau eiga ekki að þurfa vera sterk fyrir mig en staðan virðist samt vera þannig. Litli gaurinn minn tók símann þegar krakkarnir voru farnir en hann var enn í langþráðu kúri „mamma, ertu að gráta? Mig langar að taka mynd af þér“ Svo já. Mæðradagurinn er allskonar, erfiður og fallegur, skemmtilegur og særandi, rétt eins og mæður eru.

A post shared by Sigga Dögg (@sigga_dogg_sexologist) on May 10, 2020 at 2:48am PDT

Í kringum Siggu Dögg hefur myndast mikil samstaða og samkennd. Enda er hún ótrúlega skemmtileg og opin og fólk heillast að því hver hún er í daglega lífinu. 

„Mér finnst þessi samkennd svo falleg. Ég skynja svo mikla samstöðu, frá konum og körlum, sem vilja segja mér sögu sína sem mér finnst áhugavert því ég er að reyna að skilja þetta tímabil betur. Sem dæmi finnst mér mjög erfitt að vera ein kona þessa vikuna og svo sú sama, en með aðra hlið, þá næstu. Ég veit það er mjög auðvelt að dæma fólk eftir skilnað. Sem dæmi þegar maður situr hlæjandi með stelpunum að drekka kokteil á sólríkum degi. Fólk gæti sagt: Sjá hana sitja þarna í fullu fjöri. Hún sem var að skilja. En það er ekki sannleikurinn. Stundum er fólk að finna gleðina með vinum sínum og ekki eins og það sé ekki allt annað inni í lífinu líka. Ég er umkringd svo dásamlegu fólki og er að reyna að muna að lifið er skemmtilegt. Það er fullt af gleði og ánægju. En síðan er það einnig fullt af sorg. Ég leyfi mér alveg að fara í langa göngutúra í einverunni og bara græt og græt. En ég geri það vegna þess að ég vil fara í gegnum þetta tímabil bara eins og það kemur.“

Hefur aldrei grillað mat sjálf

Sigga Dögg segir að maður setji sig í ákveðið hlutverk í samböndum og þess vegna verði maður aldrei góður í öllu, sem getur gert lífið eftir skilnað erfitt.

„Þegar maður er í hjónabandi þá er oft skýr verkskipting. Þá er maður ekki einn að gera alla hlutina sjálfur. Ég er sífellt að komast að hlutum sem ég hef aldrei gert í lífinu. Af hverju hef ég til dæmis aldrei grillað? Sonur minn kom til mín um daginn og bað mig að taka flís úr fingrinum. Það hafði ég aldrei gert áður og það fyrsta sem kom upp í hugann var að fara með barnið upp á heilsugæslu. Svo hugsaði ég með mér að ég þyrfti bara að gyrða mig í brók og taka þessa flís. Og auðvitað gat ég það! En af hverju í andskotanum hef ég aldrei grillað mat í lífinu? Af hverju setur maður sig svona í hlutverk í samböndum?“

Það er ýmislegt sem hún vill leggja áherslu á í framtíðinni. Meðal annars að styðja við umverfisvitund í ennþá meiri mæli en áður.

„Ég vil nýta hlutina vel og læra að taka ábyrgð og kenna börnunum mínum það áfram.  Þannig að þegar þau opna sem dæmi ísskápinn þarf ekki að flæða á móti þeim matur til að þau finni sér eitthvað að borða. Það er ákveðin dyggð og hæfileiki fólginn í því að kunna að matreiða úr því sem til er. Hugmyndin um smáhýsi finnst mér einnig mjög heillandi.“

Erfitt ástand er alltaf einungis tímabundið

Lífið er ekki fullkomið og Sigga Dögg vill leggja sitt á vogarskálarnar til að deila með fólki, meðal annars á samfélagsmiðlum, hvernig það er að fara í gegnum ástarsorg.

„Mér finnst ég betri í vinnu en ég var áður. Ég er einlægari og opnari og með rosalega mikinn sköpunarkraft. Ég hef ekki undan í vinnunni og hef meiri samúð fyrir ástarsorg og skilnaðarferlinu, þegar ég er að öðlast reynslu í því sjálf. Ég er líka að leyfa mér að vera í meiri nánd við fólk. Hér áður fannst mér eins og enginn hefði áhuga á því sem ég væri að segja á samfélagsmiðlum, en í dag hef ég lagt þá hugmynd til hliðar og finnst ég hafa frá alls konar hlutum að segja.

Ég er á þessu andlega ferðalagi og orðin nánari fólki hvaðan sem það kemur inn í líf mitt. Ég á auðveldara með að tengja við fólk og finn hvernig af öllum verkefnum lífsins megi draga lærdóm. Eins finnst mér gott að muna að erfitt ástand er alltaf einungis tímabundið. Allt líður hjá. Það er eitthvert ferli farið af stað í mínu lífi og ég er bara spennt að taka þátt í lífinu og leyfa því að taka mig þangað sem ég á að fara.“

mbl.is