Hvað er til ráða ef peningastaðan er slæm akkúrat núna?

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching.
Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Nú á tímum COVID-19 standa margir frammi fyrir afkomuótta. Sumir hafa fengið skilaboð um að tekjurnar muni lækka og eru jafnvel í hlutastarfi um óákveðinn tíma. Aðrir hafa þegar misst vinnuna eða lífsviðurværið, að minnsta kosti meðan á ástandinu stendur. Enn aðrir lifa í óvissunni um hvað verður. Í þessum pistli bendi ég á nokkrar hagnýtar aðferðir sem koma að notum fyrir þá sem vilja taka stjórnina á fjármálunum á þessum sérkennilegu tímum,“ segir Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Ef peningar væru manneskja

Sem sérfræðingi í fjármálahegðun finnst mér alltaf gagnlegt að byrja á hugmyndum okkar um peninga. Taktu þér stutt hlé frá lestrinum og skrifaðu niður svörin við eftirfarandi spurningum:

Ef peningar væru manneskja – hvernig liti sú manneskja út? Þætti þér þetta skemmtileg manneskja? Eða þætti þér hún leiðinleg? Mundi þig langa til að umgangast peninga ef þeir væru manneskja?

Svörin við þessum spurningum gætu verið góð vísbending um grunninn að sambandi þínu við peninga. Það segir sig sjálft að ef persónugerð ímynd þín af peningum er manneskja sem þú gætir ekki hugsað þér að umgangast, á það sama við um peninga. Þú forðast samvistir við þá, sem birtist annaðhvort í því að þú flýtir þér að eyða þeim eða þú átt eins lítið af þeim og þú mögulega getur komist af með.

Þetta kann að orka tvímælis. Sumir kunna að spyrja sig: „En hver vill ekki eiga peninga?“ Staðreyndin er þó sú að ef það er skortur á peningum í lífi þínu er undirliggjandi ástæðu þess að finna í hugmyndum þínum um peninga og í sambandi þínu við peninga.

Lausnina er mögulega að finna í að skipta um skoðun á peningum. Þú gætir til dæmis skipt út neikvæðri ímynd þinni af peningum fyrir uppáhaldsmanneskjuna þína. Besta vin eða vinkonu eða ástvin. Prófaðu að hugsa um peninga sem manneskju sem þér þykir skemmtilegt og notalegt að umgangast. Þannig byggirðu grunninn að nýjum persónugervingi peninga í lífi þínu.

Veistu hver staðan er?

En víkjum nú aftur að því ástandi sem við búum við núna. Aðstæður fólks eru mismunandi. Sumir hafa þurft að minnka við sig vinnu og launin því skert. Aðrir hafa misst vinnuna og enn aðrir búa við óvissu og afkomuótta. En óháð því hverjar aðstæður þínar eru, er staðreyndin sú að það er ekki alltaf upphæðin sem við búum til sem skiptir máli. Það er heildarmyndin.

Prófaðu nú að teikna tvo hringi aftan á blaðið sem þú notaðir til að skrifa niður svörin við spurningunum í upphafi pistilsins. Skrifaðu núverandi tekjur í annan hringinn og núverandi útgjöld í hinn hringinn. Það er samspilið milli þessara talna sem myndar samhengið utan um fjármálin þín.

Sumir gætu þurft að taka saman þessar tölur því það eru alls ekki allir sem eru með þær á takteinum. Tilgangurinn er sá að horfast í augu við hver staðan er, til að þú getir gert það sem gera þarf til að leysa málin.

Hvað er til ráða ef staðan er slæm akkúrat núna?

Byrjum á að beina sjónum að útgjöldunum. Sumt er algjörlega nauðsynlegt en annað má kannski missa sín um stundarsakir. Ef staðan er slæm er gott að byrja á að forgangsraða. Skrifaðu niður svörin við þeim af eftirfarandi spurningum sem eiga við þig og þín fjármál:

Áttu bíl? Þarftu bíl? Þarftu bílinn sem þú átt? Gætirðu komist af með ódýrari bíl? Gætirðu lækkað rekstrarkostnað heimilisins með einhverjum hætti? Gætirðu lækkað tryggingakostnað? Ertu áskrifandi að líkamsræktarkorti sem þú ætlar alltaf að nota í næstu viku en notar afar sjaldan eða jafnvel aldrei? Með öðrum orðum, gætirðu sagt einhverju upp? Hvað með símaáskrift og net? Gætirðu fengið tilboð hjá öðrum fyrirtækjum og lækkað þannig kostnaðinn? Gætirðu lækkað matarkostnaðinn?

Gerðu áætlun fyrir næstu daga. Hringdu að minnsta kosti tvö símtöl á dag eða notaðu spjallrásir fyrirtækja sem bjóða slíka þjónustu. Markmiðið er að lækka kostnað eða semja til að koma í veg fyrir aukakostnað. Það er gott að hafa í huga að þú þarft aðeins að finna tímabundnar lausnir við tímabundnum vanda.

Hver er innkoman?

Taktu þér smá tíma til að skoða innkomuna. Gætirðu gert eitthvað til að hækka innkomuna? Eða auka stöðugleikann í fjárflæðinu?

Gætirðu ráðið þig í aukavinnu við eitthvað annað en þú gerir venjulega? Er kominn tími til að stofna fyrirtækið sem þig hefur dreymt um að stofna? Eða jafnvel til að ráða þig í fasta vinnu ef það er rólegt í þínum rekstri þessa dagana?

Hvað annað gætirðu gert til að auka tekjurnar? Áttu eitthvað sem þú notar ekki og gætir komið í verð? Vertu opin/n fyrir möguleikunum.

Peningalausi dagurinn

Eitt sem ég hef mælt með er að hafa einn peningalausan dag í viku. Peningalausi dagurinn er dagur þar sem þú notar enga peninga. Þú þarft að skipuleggja þig til að geta haldið peningalausa daginn. Passa þarf að það sé nóg eldsneyti á bílnum ef þú notar bíl, þú þarft að taka með þér nesti og svo framvegis. Sumir þeirra sem ég hef sagt frá peningalausa deginum hafa einn slíkan í viku til frambúðar. Algjörlega óháð stöðunni í þjóðfélaginu eða í fjármálunum.

Æfing á borð við peningalausa daginn, er tækifæri til að bera kennsl á neyslumunstur sem gott er að setja spurningarmerki við. Hversu oft kaupirðu tilbúinn mat? Kaupirðu gjarnan kaffidrykki í götumáli? Ég er ekki að mæla gegn því að kaupa tilbúinn mat eða kaffidrykki. Síður en svo. En þessi æfing snýst um að auka meðvitund um peninganotkun.

Það er okkur öllum hollt að reikna út í hvað peningarnir fara. Ég segi stundum við börnin mín að ég vilji velja í hvað ég nota mína peninga. Ég get valið að neita mér um eitthvað í dag til að eiga meira til að nota í það sem mig langar virkilega að fjárfesta í.

Það er með sjálfsskoðun sem við verðum meðvituð um neyslumunstrið og getum í framhaldinu tekið ákvarðanir um í hvað við viljum nota peningana. Tímabilið sem við lifum núna er tilvalið til að nota í endurskoðun af þessu tagi.

mbl.is