„Ég hef aldrei fundið mig í kvennahreyfingunni“

Katrín Dóra Þorsteinsdóttir.
Katrín Dóra Þorsteinsdóttir.

Katrín Dóra Þorsteinsdóttir hefur gengið í allskonar störf í gegnum tíðina. Hún sagði upp starfi sínu í sveitinni 15 ára að aldri því henni fannst faðir sinn aðeins of mikil karlremba fyrir sinn smekk. 

Katrín Dóra eigandi Projects ráðgjafarfyrirtækis og er rekstrar- og viðskiptafræðingur með MBA frá Háskólanum í Reykjavík.

Hún hefur alltaf verið sjálfstæð og fór snemma að heiman þar sem henni þótti óþolandi að fá ekki að ganga beint í útistörfin.

Hún hefur átt nokkrar fyrirmyndir í lífínu. Óli Vagns var ein þeirra.

„Mín fyrsta fyrirmynd var sauðfjárræktarráðunauturinn Óli Vagns eins og hann er kallaður. Hann kenndi mér einnig erfðafræði í grunnskólanum. Það var mikið lagt upp úr kynbótum hjá föður mínum í sveitinni og mikið samstarf við ráðunauta. Mér þótti afar spennandi að sónarmæla fitulag og mæla bak, maga og læri og skrásetja svo allt.“

Katrín Dóra segir erfitt að svara hvaðan sjálfstæði hennar sé komið og einstakur áhugi á störfum sem eru ekki hin hefðbundnu kvennastörf.

„Ég hef oft heyrt sagt að ég sé huguð og áræðin þó að það sé langt frá því að vera mín upplifun á sjálfri mér.

Ég hef heyrt þetta þegar ég sem dæmi hef sagt upp þeim störfum sem ég hef unnið við í leit að nýjum áskorunum. Ekki síst nú síðast þegar mörgum þótt ég hreinlega „of gömul“ til að taka slíka áhættu.“

Katrín Dóra er ekki frá því að eitthvað af sjálfstæðinu megi rekja til foreldra hennar.

„Foreldrar mínir bera mikla ábyrgð á að ég hafi þróað sjálfstæðið svo sterkt með mér. Það eru alltaf sagðar sögu af barnæsku minni sem tengjast sjálfstæði og satt að segja hefur þetta svokallaða sjálfstæði eflaust oft komið mér í vandræði í lífinu.

En það hefur alltaf skiptir mig miklu máli að standa með sjálfri mér, vera sjálfstæð bæði fjárhagslega- og á annan hátt. Það er auðvelt þegar maður hefur alltaf stuðning í fjölskyldunni. Ég hef alltaf fundið að bæði foreldrar mínir og systkini hafa haft trú á því sem ég geri hverju sinni og stutt mig í ákvörðunum mínum.“

Erfitt að stofna fyrirtæki

Katrín Dóra er mikill frumkvöðull í eðli sínu og hefur stofnað nokkur fyrirtæki um ævina. Eins er hún mamma tveggja dætra og amma tveggja barna þar að auki.

Hún segir það að búa til nýtt fyrirtæki taka á.

„Við erum tveir félagar sem rekum saman ráðgjafar- og þjónustufyrirtækið PROJECTS og höfum gert frá haustinu 2018. Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni en alveg tekið á og mikið af óvissuþáttum í svona persónulegum rekstri sem ekki er stærri í sniðum.

Í dag gengur alveg frábærlega og erum við með fullt að verkefnum. Við leggjum mikla áherslu á að klæðskerasníða þjónustuna að þörfum okkar viðskiptavina. Erum mikið að fara inn í staðgengilshlutverk vegna lengri veikinda eða tímabundins álags í fyrirtæki. Að okkar mati er slík þjónusta alveg frábær leið fyrir fyrirtæki og stofnanir til að leysa tímabundið álag á starfsfólk og skiptir miklu máli í dag til að koma í veg fyrir kulnun og steitu þess starfsfólks sem eftir er til að leysa verkefnin.

Ég hef mikið verið í ráðningum, breytingastjórnun, sinnt ýmiskonar mannauðsverkefnum og fjármálastjórnun.“

Hlutverk konunnar hefur verið þér hugleikið. Ég heyrði dásamlega sögu af þér fimmtán ára. Þegar þú fórst fyrst að heiman. Hvað geturðu sagt mér um það?

„Já, enn og aftur sjálfstæðissaga. Ég var sem sagt 15 ára þegar mér þótti faðir minn aðeins of mikil karlremba til að ég hefði áhuga á því að vinna fyrir hann. Ég hafði unnið heima í sveitinni frá tíu til ellefu ára aldri. Ég sagði sem sagt upp þar sem ég var orðin þreytt á því að þurfa að berjast til að fá að fara í útiverkin. En í þá daga þurfti ég alltaf að ljúka öllum inniverkunum, mat og fleiru áður en ég fékk að fara út sem mér þótt að sjálfsögðu mun meira spennandi. Ég fór þá til kaupfélagsstjórans á Akureyri og óskaði eftir vinnu sem ég og fékk. Ég fór að vinna í kjörbúð í miðbæ Akureyrar, sem mér þótti afar skemmtileg vinna. Enda gaman að læra á vöruframboð, útstillingar og verðlagningu.“

Hvað hefur drifið þig áfram í vinnu?

„Ég hef alltaf elskað vinnuna mína og alltaf fundið einhverja áhugaverða og skemmtilega vinkla á henni.

Ég er alltaf með einhver næstu markmið, sem dæmi komst ég í hönnunarvinnuna langþráðu að lokinni iðnrekstrarfræðinni þar sem ég hafði unnið lokaverkefni fyrir flott en lítið fyrirtæki á Grenivík; TERU leðuriðju, en mér var boðin framkvæmdastjórastaða í kjölfarið.“

Katrín Dóra segir löngunina til að gera það sem hún hefur gert vera meðfædda.

„Ég er fædd rauðsokka en hef aldrei fundið mig í kvennahreyfingunni. Ég held að það sé réttur okkar að vera metin út frá eigin forsendum en ekki á forsendum þess að vera karl eða kona.“

Áttu skemmtilega sögu af þér í óhefðbundnu kvennastarfi?

„Í raun og veru á ég sorglega fáar þannig sögur. Ég hef þó oftast unnið í karllægum greinum og meira með körlum en konum. Hins vegar er það þannig í sveitinni að það eru sorglega fáar konur í minni sveit sem taka þátt í skemmtilegum verkefnum eins og að fara í göngur. Oft höfum við systurnar verið þær einu og hugsanlega einhverjar erlendar ungar stúlkur líka.“

Alltaf haft áhuga á fötum

Hvað getur þú sagt mér um áhuga þinn á hönnun?

„Hann hefur verið með mér frá unga aldri, mínir barnæskuleikir snerust meira um að búa til föt á dúkkur og börn en að leika mér í slíkum leikjum. Ég byrjaði ung að sauma mér þann fatnað sem mig langaði í og svo hélt þessi áhugi áfram að fylgja mér.“

Ertu ennþá í fataframleiðslu?

„Eigum við ekki að segja að ég taki þátt í rekstri á mjög kostnaðarsömu áhugamáli þegar kemur að rekstri fyrirtækisins WETLAND, a piece of the North. Þetta er hönnunarfyrirtæki sem hannar vörur úr mokkaskinni og er í raun óður til sauðkindarinnar sem er mín uppáhaldsskepna.“

Vonar að feðraveldið líði undir lok

Heimili Katrínar Dóru er friðsælt og fallegt. Þær starfrækja fyrirtækið ennþá úr stofunni heima hjá henni en hún er vongóð um að fyrr en seinna geti þær fært fyrirtækið á betri stað.

„Ég lýsi heimilinu mínu sem friðsælu, einföldu og fallegu. Mér þykir gaman að skreyta heima með nútímalegum munum í bland við gamla kæra hluti.“

Katrín Dóra segir að sig dreymi um meiri jöfnuð í heiminum.

„Að hið margrædda feðraveldi líði undir lok og skoðanir allra hafi sama vægi. Svo þurfum við að byggja mikið betur í kringum börn og ungt fólk þannig að allir fái tækifæri til að láta sína drauma rætast.“

Hvernig upplifir þú það að eldast?

„Pínulítið erfitt og ætli það sé ekki mest út af eigin aldursfordómum. Einnig fylgir því mikil ánægja að fylgjast með börnunum sínum vaxa úr grasi og fylgjast með barnabörnunum. Það fylgir því líka mikið frelsi að vera ekki með stórt heimili og geta ferðast hingað og þangað án nokkurs fyrirvara. “

Getur þú talað um áhugavert verkefni sem þú hefur unnið í að undanförnu?

„Ég hef til dæmis verið svo heppin að eitt af þeim verkefnunum sem ég hef verið að þjónusta er Kvikmyndaskóli Ísland, sem er að mínu mati mjög merkilegur skóli og ég tek ofan fyrir einlægum áhuga og krafti þeirra einstaklinga sem eiga skólann og hafa lagt gífulega mikið á sig til að halda honum gangandi við mjög erfið skilyrði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál