„Það er nóg sól fyrir okkur öll“

Gróa Björg Baldvinsdóttir yfirlögfræðingur er ein af lykilmanneskjum hjá Skeljungi.
Gróa Björg Baldvinsdóttir yfirlögfræðingur er ein af lykilmanneskjum hjá Skeljungi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gróa Björg Baldvinsdóttir yfirlögfræðingur er ein af lykilmanneskjum Skeljungs. Hún nýtur virðingar og vinsemdar á meðal samstarfsfólks. Hún hefur orð á sér fyrir dugnað, góða samskiptahæfileika og þykir vera fljót að setja sig inn í flókin mál. Hún er ákaflega vinnusöm og hefur alltaf þurft að hafa fyrir hlutunum. Hún segir athyglisvert að skoða hvernig margt í samfélagsgerðinni ýtir undir að við séum öll steypt í sama mótið. Sem leiðir af sér hjarðhegðun og þá staðreynd að við erum mörg að fara í sömu röðina. Sem hamli sköpunarkraftinum. 

Hún segir nóg sól fyrir okkur öll og þótt einum gangi vel þá þarf ekki annar að standa í skugganum. 

Hvers vegna valdir þú þér að fara í lögfræði?

„Ég fór tiltölulega blint í sjóinn þegar ég ákvað að hefja nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík en það sem hafði áhrif var m.a. að námið opnaði leiðir fyrir margvísleg framtíðarstörf og tengist samfélaginu á marga vegu. Jú og svo sagði systir mín að ég ætti endilega að fara í lögfræði því ég væri svo rökföst og því mjög leiðinlegt að deila við mig. Ég ákvað því í raun að hlýða systur minni.“

Hvernig lýsir þú vinnu þinni fyrir Skeljung?

„Starfið er afar fjölbreytt og áhugavert. Sem yfirlögfræðingur vinn ég þvert á félagið með fjölbreyttum hópi starfsfólks og ber ábyrgð á að við séum ávallt að hlíta kröfum sem til félagsins eru gerðar. Mikill tími fer í að stýra margvíslegum verkefnum, svo sem veita lögfræðilega ráðgjöf til stoðsviða eða stjórnar félagsins, samskipti við opinbera aðila, ýmiss samningagerð, regluvarsla og fleira. 

Auk þess er ég ritari stjórnar og fæ að starfa því náið með stjórn félagsins sem er gaman en þar erum við m.a. að endurskoða um þessar mundir og gera enn betur þegar kemur að góðum stjórnarháttum. Einnig fæ ég að taka þátt í og styðja við mikilvæg skref sem hafa verið tekin í samfélagslegri ábyrgð félagsins en þar hefur Skeljungur tekið stór skref með það að leiðarljósi að takmarka eins og unnt er neikvætt fótspor Skeljungs. Það er mikilvægt fyrir mig að starfa hjá félagi sem hefur metnað í og leggur sitt af mörkum til þess að draga úr neikvæðum áhrifum þess á umhverfið.

Þá þess sit ég í framkvæmdastjórn félagsins en síðustu mánuðir hafa vægast sagt verið krefjandi og lærdómsríkir vegna áhrif Covid-19 á starfsemi og starfsfólk félagsins. Erfitt en einnig einstakt veganesti inn í framtíðina.“

Hvað heillar þig við vinnustaðinn?

„Verkefnin, fjölbreytileikinn, áskoranirnar og fólkið sem ég fæ að starfa með. Það er skemmtileg áskorun að vinna hjá félagi sem stendur á tímamótum þegar litið er til framtíðar. Umhverfið og orkugeirinn er að breytast og við þurfum að laga okkur að breyttu landslagi. Finnst mjög spennandi og gaman að fá að taka þátt í þessari vegferð félagsins með öflugu samstarfsfólki, bæði hvað varðar að halda áfram sem við erum að gera vel og að þróa félagið til framtíðar.“

Nú hef ég heyrt að þú sért góð í samskiptum. Hvað getur þú sagt mér um það?

„Ég reyni mitt besta að vera sjálf í góðu jafnvægi og nálgast hvert viðfangsefni og fólk á jafnræðisgrundvelli. Hef reynt að sýna skilning hvaðan fólk er að koma og hvert málefnið er hverju sinni. Ég er á því að maður getur alveg verið fastur á sínu og ákveðinn en á sama tíma sýnt virðingu og vinsemd. Það er ástæða fyrir öllu, hvort sem það er almennt hvernig við komum fram eða hreinlega hvernig dagsformið er. Ég sjálf er engin undantekning en það hefur hjálpað mér mikið að hafa þetta í huga.“

Hvaðan færðu vinnueðli þitt?

„Það er blanda af uppeldinu og af þeim vinnustöðum sem ég hef unnið á og sótt reynslu til.  Ég er fædd og uppalin úti á landi; í Búðardal og byrjaði snemma að vinna. Ég hef ávallt þurft að hafa fyrir mínu, unnið mikið og oft verið í fleiri en einu starfi með skóla. Ég er þakklát fyrir að hafa alist upp út á landi og fengið að takast á við ýmis verkefni, hvort sem það var að mæta klukkan sex í Mjólkurstöðina í Búðardal og fara á færibandið, passa börn, vinna í Dalakjöri sem þá var verslunin, temja hesta eða annað. Eftir grunnskólann þurfti ég að flytja að heiman 16 ára til Reykjavíkur til að fara í frekara nám og það mótaði mann klárlega líka.“

Hver eru áhugmál þín?

„Þau eru ansi mörg. Hestamennskan trónir í fyrsta sæti, síðan koma fjallgöngur og hjólreiðar, þá helst utanvegar. Það er eitthvað svo einstakt við að vera í fallegu náttúrunni og eflaust sveitastelpan í mér sem sækir í það. En einnig hef ég mikið verið á götuhjólum, sérstaklega þau fjögur ár sem ég tók þátt í WOW Cyclothon með fyrrverandi samstarfsfélögum á Landslögum. Þannig fékk að kynnast Íslandi á alveg nýjan hátt þannig. Annars trónir ýmis önnur útivera og ferðalög ofarlega á listanum líka.“

Hversu miklu máli skiptir fyrir þig að vera með góða vinnu?

„Það er spurning hvað er góð vinna? Það skiptir mig í raun mestu máli að vera í starfi sem ég hef gaman af. Þar sem verkefnin eru skemmtileg en líka krefjandi. Svo skiptir vinnuumhverfið og fólkið sem ég vinn með miklu máli. Því það er mikilvægt að hafa gaman.“

Hver eru framtíðarplön þín?

„Þau eru aðallega í framtíðinni. Ég hef reynt að tileinka mér að vera í núinu góða en vissulega hugar maður líka að því hvert maður er að fara. Ég hef mikinn áhuga á því að láta gott af mér leiða og hafa góð áhrif, í hvaða formi ég mun gera það í framtíðinni kemur í ljós. Ég finn þó sterkt að ég lifi og hrærist vel í umhverfi þar sem ég fæ að læra, þróast og vinna með liðsheild. Halda áfram að þroskast, vaxa og læra, finnst mér bara spennandi.“

Eru málefni samfélagsins þér hugleikin?

„Algjörlega og ég held að sá áhugi minn tengist ástæðu þess að ég fór í lögfræði sem snýst m.a. um að þekkja og túlka þær leikreglur sem við sem samfélag höfum sett okkur. Lög og réttur á hverjum tíma endurspegla samfélagið og tíðarandann.“

Af því þú þykir góð að leysa flókin mál, hvaða mál myndir þú leysa fyrir þjóðina í dag ef þú gætir?

„Án þess að fara í eitthvað sérstakt mál þá vil ég þó nefna að mér finnst ansi margt í okkar samfélagi sem ýtir undir að við séum öll steypt í sama mótið. Sem leiðir af sér einhvers konar hjarðhegðun þannig að við erum mörg hver að fara í sömu röðina á sama tíma, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Kannski út af því myndast ósamstaða því eðli málsins samkvæmt getum við ekki öll verið í sama forminu. Ég er á því að ef einstaklingurinn fær meira svigrúm og nýtur frelsis til að vera hann sjálfur, þá sé hægt að virkja styrkleika hvers og eins mun betur en við gerum í dag – þannig skapast minni sóun á orku og tíma. Ég held að samþjöppun í form ýti undir stíflu hreinlega og hamli sköpunarkraftinn. Þótt leikreglur séu af hinu góða þá mega þær ekki hefta okkur eða þjappa okkur öll í sama boxið. Kannski er hreinlega kominn tími á að endurskoða einhvers konar tegund af forsjárhyggju í samfélaginu. Á móti þurfa aðilar að taka ábyrgð á sjálfum sér. En í þessu eins og svo mörgu öðru þarf að feta einhvern sanngjarnan milliveg.“

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Mundu hver þú ert og fylgdu innsæinu og æðruleysinu, breyttu því sem þú getur breytt, sættu þig svo við rest. Svo margt sem við höfum áhyggjur af verður aldrei að veruleika, tekur bara orku frá okkur.“

En það versta?

„Að ég þurfi að passa í eitthvert form og vera önnur en ég er. Sem er alveg galið því frelsið til að vera maður sjálfur er málið.“

Hvaða persónueinkenni í fólki heilla þig mest?

„Fólk sem er samkvæmt sjálfu sér, drífandi og áhugasamt fyrir lífinu, traust, hefur metnað og tekur lífinu ekki of alvarlega. Svo er fólk með létta lund og húmor heillandi.“

Hvað reynir þú að gera daglega?

„Vera þakklát fyrir það sem ég hef, taka ábyrgð á sjálfri mér og mæta til leiks með hausinn skrúfaðan og kláran í daginn. Svo það gangi nú eftir þá reyni ég að gefa mér tíma til að gera það sem veitir mér orku eins og að sinna áhugamálunum, stunda útiveru, umgangast fjölskylduna og vini, hugleiða og stundum fá mér einfaldlega góðan kaffibolla.

Það eru gríðarlega spennandi tímar fram undan og miklar breytingar í umhverfinu og orkugeiranum. Ég mun því ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af því að leiðast í því umhverfi á næstunni hjá Skeljungi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál