„Mér var kastað út í djúpu laugina“

Anna Fríða Gísladóttir kveður Domino's og siglir á önnur mið.
Anna Fríða Gísladóttir kveður Domino's og siglir á önnur mið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna Fríða Gísladóttir hefur vakið mikla athygli á síðustu misserum fyrir vinnu sína
sem markaðsstjóri Domino's á Íslandi. Hún er ákveðin og skoðanaföst en alltaf til í að gera betur. Hún er líka skemmtileg og klár í samskiptum.

Anna Fríða hefur sagt upp starfi sínu hjá Domino’s til að róa á önnur mið. „Ég get því miður ekki greint frá því hvert ég er að fara núna. En er ótrúlega stolt af því að þetta fyrirtæki hafi leitað til mín, þar sem það var á lista hjá mér yfir fyrirtæki sem mig langaði að starfa hjá í framtíðinni.“

Það er fleira að gerast hjá Önnu Fríðu. Hún er að flytja og síðan eignaðist hún barn fyrir ellefu mánuðum með unnusta sínum, Sverri Fal Björnssyni. Spurð hvers vegna hún valdi þá leið sem hún gerði tengda menntun sinni segir hún tilviljun hafa ráðið því.

„Eins og svo margt í þessu lífi var það háð tilviljun, en vinkona mín skráði sig í viðskiptafræði og ég var búsett í Danmörku á þeim tíma og ákvað að fara í námið með henni.

Áður en ég skráði mig í námið ræddi ég við námsráðgjafa, sem sagði mér að viðskiptafræðin yrði mér erfið vegna bakgrunns míns. Ég var á málabraut í Verzlunarskóla Íslands og hafði því aðeins tekið einn áfanga í stærðfræði þegar ég fór í viðskiptafræði.

En mig langaði í nýja áskorun og þrátt fyrir að námsráðgjafar og áhugasviðspróf hefðu beint mér í félagsfræði hafði ég gert upp hug minn og efasemdaraddir voru á endanum aðeins meiri hvatning fyrir mig til að standa mig vel.Í dag störfum ég og þessi vinkona mín á mismunandi sviðum innan viðskiptafræðinnar, hún í fjármálum og ég í markaðsmálum.“

Trúir að alltaf sé hægt að gera betur

Hvaðan færðu vinnueðli þitt?
„Ég hef alltaf verið vinnusöm og verið tilbúin að leggja hart að mér, ég byrjaði ung að vinna og nokkur sumur vann ég í þremur störfum. Það skiptir öllu máli að finna sér
starf sem maður hefur áhuga á og hjá fyrirtæki sem maður hefur trú á. Reynslan hefur kennt mér að það er mikilvægt að vera tilbúin að skipta um skoðun og sjá hlutina frá öðru sjónarhorni. Það hefur reynst mér vel að vera óhrædd við að heyra í öðrum innan sama geira og fá hugmyndir, ráðleggingar og leita sér þekkingar á sviðum sem gagnast geta starfinu.

Ég er ekki sérlega hrifin af setningunni „þetta hefur alltaf verið gert svona“ þegar tækifæri til að gera betur eru til staðar. Ég er alin upp af einstæðri móður sem var alltaf mjög vinnusöm og lagði áherslu á að okkur skorti ekkert. Ég fæ dugnaðinn og þrautseigjuna frá henni. Frá því að ég var unglingur hef ég verið vinnusöm og verið tilbúin að leggja hart að mér. Einnig er það hvetjandi að starfa við það sem maður hefur áhuga á, innan fyrirtækis sem maður hefur trú á og að sú trú sé endurgoldin frá öðrum stjórnendum.

Þegar maður upplifir þess konar ábyrgð snemma á starfsævinni hefur það mótandi áhrif til frambúðar. Innan markaðsmálanna hef ég einnig verið svo heppin að geta leitað til reyndari aðila sem ég lít upp til og fengið frá þeim ráðleggingar og hugmyndir sem hafa síðan eflt mig og hvatt mig áfram.“

Anna Fríða er alin upp af einstæðri móður sem lagði …
Anna Fríða er alin upp af einstæðri móður sem lagði áherslu á að þær skorti ekki neitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stökk í djúpu laugina

Hvað vakti áhuga þinn við starfið hjá Domino's?

„Ég vissi lítið um fyrirtækið á sínum tíma, annað en af reynslu minni sem viðskiptavinur, en ég komst fljótt að því að þetta væri spennandi og framsækið fyrirtæki. Ég var enn í námi við Háskóla Íslands og hafði fundið áhugasvið mitt innan markaðsfræðinnar og var spennt fyrir að taka fyrstu skref mín á atvinnumarkaðnum og verða mér úti um starfsreynslu. Fyrst um sinn vann ég hjá Domino's samhliða því að ljúka náminu auk þess að markaðsmál Domino's og Joe and the Juice voru á þeim tíma rekin samhliða og fékk ég að starfa með báðum fyrirtækjum.

Þetta var einstakt tækifæri því Domino's var rótgróið fyrirtæki en ég kom að opnun Joe and the Juice. Auk þess hafði Domino's nýverið tekið miklum breytingum í markaðssetningu og vöruþróun og hafði hlotið mikið lof fyrir. Snemma eftir útskrift hjá mér voru skipulagsbreytingar innan fyrirtækisins og fékk ég þá ábyrgð að sjá ein um markaðsmálin. Ég tók því við mjög góðu búi en mín áskorun var að viðhalda og gera enn betur. Ég var tilbúin í þá áskorun. Mér var kastað út í djúpu laugina. Ég vildi og þurfti að sanna mig.“

Hvað getur þú sagt mér um fjölskylduna þína?
„Ég er lánsöm að eiga son minn með kærasta mínum Sverri Fal. Ég komst fljótlega að því að allar klisjur um foreldrahlutverkið eru sannar. Þetta er besta starf í heimi og það er mikil kúnst að sinna því hlutverki vel ásamt starfsframa. Því fylgir að maður þarf að færa fórnir eða tvinna þessi hlutverk saman. Þegar sonur minn var þriggja mánaða var ég beðin um að flytja fyrirlestur um markaðsmál. Ég fann að ég var tilbúin til þess, enda þekkti ég viðfangsefnið mjög vel. Þar sem ég var í fæðingarorlofi lá það í augum uppi að taka soninn með, sem svaf í vagni við hliðina á mér á meðan. Þegar 10 mínútur voru eftir vaknaði drengurinn og ég kláraði fyrirlesturinn haldandi á honum. Það má alveg segja að salurinn hafi tekið vel við sér.“

Ákveðin og kann að segja nei

„Þegar kemur að starfsframa er nauðsynlegt að vita hvað maður vill og líka hvað maður vill ekki, stundum þarf að afþakka góð boð því þau eru ekki í takt við framtíðarstefnuna. Ég hef ófáum sinnum upplifað blekkingarheilkennið (e. imposter syndrome) þar sem ég hef ekki talið mig geta staðið mig vel í ákveðnum verkefnum vegna skorts á þekkingu. En þegar ég upplifi þessar tilfinningar tala ég við sjálfa mig eins og ég myndi tala við bestu vinkonu mína eða maka. „Ef þú kannt ekki eitthvað – þá lærir þú það! Af hverju ættir þú ekki að geta lært og skilið eins og næsta manneskja?“

Á síðustu árum hefur þessi tilfinning komið sjaldnar, enda er þetta hugsunarháttur sem þú tileinkar þér og þróar með þér. Ég hef alltaf staðið með sjálfri mér og fylgt innsæinu. Einn af fyrstu fundum mínum sem markaðsstjóri, þegar ég var 25 ára, var með manni sem var að reyna að selja okkur auglýsingar. Þegar ég tjáði honum að ég ætlaði að hugsa þetta aðeins sagði hann orðrétt við mig: „Viltu ekki bara biðja forstjórann um leyfi fyrir þessu, vinan?“ Ég lauk fundinum um leið og tjáði honum að við myndum ekki stunda viðskipti við hann.“

Fólk segir að þú sért flink að leysa flókin mál. Eru einhver mál í samfélaginu þér hugleikin, sem þú værir til í að leysa?

„Mér finnst liggja í augum uppi að leysa þurfi mál er varða réttindabaráttu einstaklinga af erlendum uppruna. Ég mun aldrei geta sett mig í stöðu þeirra heldur er það skylda mín og allra sem eru ekki í þessari stöðu að hlusta, læra og breyta.“

Besta ráðið sem hún hefur fengið er að vera óhrædd við að taka áhættu og gera mistök. „Þetta ráð fékk ég 25 ára frá forstjóra Domino's og hefur reynst mér afar dýrmætt.“

En það versta?
„Þótt það sé ekki ráð sem ég hef fengið finnst mér ekki góð sú óskrifaða regla að það sé ekki gott að spyrja heldur frekar þykjast vita. Ég veit ekki hvaðan þessi óskrifaða regla kemur en hún virðist vera vandamál í mörgum greinum.“

Anna Fríða segir að hún heillist af einlægu, fyndnu og sjálfsöruggu fólki. Í lokin langar hana að hvetja fyrirtæki til að veðja á ungt fólk í ábyrgðarstöður og hvetja um leið ungt fólk til að sækjast eftir slíkum stöðum og þá sér í lagi konur.

mbl.is