Lærðu að búa til geggjað hlaðvarp

Ljósmynd/Will Francis

Gott hljóð, gott innihald og markviss markaðssetning er lykillinn að árangri, segir Guðmundur Hörður Guðmundsson hlaðvarpssérfræðingur. 

Óhætt er að segja að mikil sprenging hafi orðið í vinsældum hlaðvarps á undanförnum misserum og árum. Er nú svo komið að margir taka gott hlaðvarp fram yfir það að hlusta á útvarp eða streyma uppáhaldstónlistinni. Hlaðvörpin eru af ýmsum toga; sum létt og fyndin en önnur þung og fræðileg; sum almenns eðlis og önnur aðeins fyrir þröngan hóp. Eru dæmi um hlaðvarpsþætti sem eru svo vinsælir að þeir geta keppt við heilu fjölmiðlaveldin í hlustendatölum og móta samfélagsumræðuna á heimsvísu. Einn maður með hljóðnema og tölvu getur, ef hann hefur upp á nógu gott hlaðvarp að bjóða, náð til fleira fólks en heil fjölmiðlasamsteypa með sitt eigið gervitungl og heilan her af starfsfólki.

Guðmundur Hörður Guðmundsson.
Guðmundur Hörður Guðmundsson.

Það besta er að setja hlaðvarp má í loftið með ekkert nema snjallsíma og nettengingu að vopni. Þar með er ekki sagt að vinsælt og vel heppnað hlaðvarp verði til af sjálfu sér. Þetta þekkir Guðmundur Hörður Guðmundsson betur en flestir en hann er kynningar- og vefstjóri Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og kennir síðar í mánuðinum námskeið hjá EHÍ: Hlaðvarp – Nýtt tæki í fjölmiðlun og markaðssetningu.

Skapar sýnileika og miðlar upplýsingum

„Það var Apple sem ruddi brautina með því að taka hlaðvörpin inn í iTunes og bjóða upp á snjallforrit sem einfölduðu fólki hlustun. Má segja að byltingin fari af stað með látum árið 2013 og hafa vinsældir hlaðvarps bara aukist síðan þá. Með 3G og 4G batnaði aðgengi að hlaðvarpi enn frekar og varð hægt að hlaða niður og hlusta á þætti hvar og hvenær sem er. Þá hefur snjallhátalaravæðingin hjálpað sömuleiðis enda er auðvelt að biðja hátalarann um að finna gott hlaðvarp til að streyma.“

Hlaðvarp getur þjónað alls konar tilgangi og nefnir Guðmundur að stundum noti fagmenn reglulega hlaðvarpsþætti til að auka hróður sinn og sýnileika, á meðan öðrum hefur tekist að gera hlaðvarpið tekjuskapandi og t.d. selja auglýsingapláss í þáttum sínum. „Við höfum dæmi um vel heppnað hlaðvarp fyrirtækja og stofnana, eins og t.d. hjá Landspítalanum, þar sem hlaðvarpið hefur gegnt mikilvægu hlutverki við að fræða almenning í kórónuveirufaraldrinum en hjálpar líka til við miðlun frétta og upplýsinga innan þessa stóra vinnustaðar sem spítalinn er.“

Byrji með ódýran hljóðnema

Þegar búa skal til gott hlaðvarp þarf fyrst af öllu að huga að hljómgæðunum. Guðmundur segir hægt að finna alls kyns handhæg forrit sem breyti snjallsíma í upptökuver og hægt að klippa þáttinn og lagfæra, og senda út á netið með símann einan að vopni. Vissara er að fjárfesta í hljóðnema og taka þáttinn upp á rólegum stað . „Fínn hljóðnemi fyrir byrjendur ætti að kosta um 10.000 kr. en ef viðtökurnar eru góðar má athuga á seinni stigum að kaupa dýrari og vandaðri hljóðnema og upptökutæki sem gætu kostað talsvert meira. En áður en fólk tekur það stökk er ágætt að sjá hvort hlaðvarpið nær einhverri fótfestu í einfaldri mynd og skiptir þá meira máli að bjóða upp á vandaða þætti með reglulegu millibili en að vera með hámarks hljóðgæði,“ útskýrir Guðmundur. „Þá er líka upplagt að nýta aðstöðu líkt og þá sem finna má í Bókasafni Hafnarfjarðar og hjá Borgarbókasafninu í Grófinni þar sem starfrækt er gott hljóðver sem hentar vel til þáttagerðar.“

Þegar búið er að ganga rétt frá tæknilegu hliðinni þarf að huga að efnistökunum. Guðmundur segir sumum reynast vel að taka einfaldlega frjálst spjall um daginn og veginn, með vinum sínum eða áhugaverðum gestum, á meðan aðrir byggja þætti sína á ítarlegum rannsóknum og vandaðri umfjöllun um tiltekinn efnisflokk. „Algengt er að hlaðvarpsþættir séu um 40 mínútur að lengd eða lengri en formið er alveg opið og sumir vinsælustu hlaðvarpsþáttastjórnendurnir leyfa sér stundum að spjalla í tvo til þrjá tíma eða lengur,“ segir Guðmundur. „Ef skrifa á handrit að þættinum þá verður það meiri vinna að halda hlaðvarpinu gangandi og þarf fólk að vega og meta hvað það treystir sér í.“

Vitaskuld þarf að gera hlaðvarpið aðgengilegt og til eru handhægar tæknilegar lausnir til að dreifa hlaðvarpinu sem víðast. Það er samt ekki nóg heldur þarf að vekja athygli á efninu og koma því á framfæri til réttu markhópanna. Mælir Guðmundur með að gera 2-3 þætti strax í upphafi og fara þannig af stað með trukki. „Að hafa fleiri þætti frekar en færri tilbúna í byrjun auðveldar fólki að færast ofar á vinsældalistum hlaðvarpsveitnanna, en lykilatriði er að deila tenglum á hlaðvarpið þar sem við á. Þannig má t.d. koma hlaðvarpinu á framfæri í Facebook-hópum sem tengjast því sem er til umræðu í þáttunum, en eins hefur mörgum sem eiga stóra fylgjendahópa á samfélagsmiðlum tekist ágætlega til við að láta fylgjendahópinn elta sig yfir á hlaðvarpið. Þá getur bætt útbreiðsluna að fá þekkta einstaklinga í heimsókn í þáttinn, ef það hæfir þættinum,“ segir Guðmundur. „Ekki skyldi vanmeta mikilvægi þess að markaðssetja hlaðvarpið svo það nái einhverri útbreiðslu að ráði, og þumalputtaregla að fyrst um sinn þurfi að eyða álíka miklum tíma í að koma hlaðvarpinu á framfæri og fer í að búa til sjálfa þættina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál