Geta allir náð góðum tökum á fjarnámi?

Helga Lind Hjartardóttir.
Helga Lind Hjartardóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Helgu Lindar Hjartardóttur er lykilatriði að hjálpa nemendum að sjá hvaða tilgangi námið þjónar. 

Kennsluhættir við marga skóla gjörbreyttust vegna kórónuveirufaraldursins og víða þurfti að grípa til þess ráðs að láta allt nám fara fram með fjarkennslu. Fjarnámi fylgja bæði kostir og gallar og það kallar á að jafnt kennarar sem nemendur tileinki sér vinnubrögð við hæfi.

Helga Lind Hjartardóttir, náms- og starfsfráðgjafi, segir að menntastofnunum hafi gengið misvel að innleiða fjarnám á vorönn. „Öllum var vippað inn í þetta nýja umhverfi og útkoman mismunandi eftir því. Fyrir marga var breytingin mikil viðbrigði og erfitt að færa kennsluna yfir í þetta nýja form, á meðan aðrir höfðu mikla reynslu af fjarkennslu og fjarnámi og fóru létt með breytingarnar.“

Helga reiknar ekki með að fjarnáms-bylgja vorannar muni valda því að kennsluhættir breytist með öllu, en hana grunar að það átak sem margir skólar þurftu að ráðast í muni greiða leið blandaðra kennsluhátta. „Mikilvægt er að skólar komi námsefni til skila með ólíkum aðferðum enda nemendahópurinn fjölbreyttur og hvert okkar með ólíkar þarfir þegar kemur að framsetningu námsefnisins.“

B-týpurnar kunna að meta sveigjanleikann

Einn stærsti kostur fjarnáms er að nemendum er alla jafna gefinn meiri sveigjanleiki til að stýra eigin námi og sinna því á þeim tímum dags sem hentar þeim best. „Það eitt er til mikilla bóta fyrir ákveðinn hóp að geta setið fyrirlestra þegar þau eru best stemmd fyrir það. Stundatöflur margra skóla virðast gerðar með þarfir svokallaðra „A-týpa“ í huga – þ.e. þarfir fólks sem er árrisult og orkumikið á morgnana – á meðan „B-týpurnar“ eru stundum ekki fyllilega vaknaðar og með fulla athygli í kennslustundum snemma að morgni dags,“ segir Helga. „Geti nemendur hlustað á upptökur af fyrirlestrum eftir hentugleika þá auðveldar það þeim líka að samtvinna námið við vinnu og heimilisstörf, og það eitt að þurfa ekki að gera sér sérstaka ferð frá heimili til skóla bætir tíma við sólarhringinn.“

Að því sögðu þá þrífast sumir námsmenn betur í skólastofu en fyrir framan tölvuskjá og þurfa þann aga sem fylgir því að þurfa að mæta í kennslustofu á tilteknum tíma. „Sumum hentaði mjög vel ástandið í vor, s.s. þeim nemendum sem eiga auðvelt með að skipuleggja sig og setja sér skýr markmið. Svipaða sögu er að segja um þann hóp fólks sem leið ekki vel í skólaumhverfinu af félagslegum ástæðum en gat blómstrað í fjarnáminu því að streitan sem fylgdi því að mæta í skólann var ekki að trufla,“ segir Helga, „En svo eru margir sem hafa liðið fyrir það að geta ekki notið félagslífsins í skólanum eða að hafa einhvern sem pikkar reglulega í þau svo þau haldi sig við skólabækurnar og veitir þeim hvatningu svo þau missi ekki móðinn.“

Þá eru sumir sem eiga erfitt með að standast freistingarnar sem fylgja fjarnámi, og hættir til að slá því á frest að hlýða á fyrirlestra, lesa kennslubækurnar og leysa verkefni, en nota tímann frekar til að spila tölvuleiki eða glápa á Netflix og YouTube.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjái markmiðið

Helga segir að með réttum náms- og skipulagsaðferðum geti flestir náð prýðilegum tökum á fjarnámi, en grundvallaratriði sé að nemendur hafi rétta hugarfarið. „Það þarf að hjálpa nemendunum að finna markmið í því sem þau eru að fást við, svo þau geri sér grein fyrir tilgangi þess að sinna náminu af samviskusemi. Ef nemendur sjá tilganginn með náminu þá eru þau ótrúlega fljót að velja kennslubækurnar fram yfir PlayStation,“ útskýrir hún. „Þau þurfa að átta sig á hvaða máli námið skiptir fyrir framtíð þeirra, og sjá fyrir endann á þeirri áskorun sem þau standa frammi fyrir hverju sinni,“ segir hún. „Það þarf ekki alltaf að vera búið að ákveða hvar við ætlum nákvæmlega að enda en með því að safna í sarpinn ákveðnu grunnnámi og varða þannig leiðina í rólegheitum finnur fólk sér smám saman farveg. Þetta er einmitt eitt lykilhlutverk náms- og starfsráðgjafa: að fara yfir það með okkar ráðþegum hvar áhugi og tilgangur liggur og finna leiðina með þeim verkfærum sem henta hverju sinni. Fjarnám getur því verið stórkostlegt tækifæri til að halda sínu striki í námi eða hefja nám.“

Öll þekking innan seilingar

Við lifum á gullöld upplýsinga þar sem hægt er að finna svör við nánast öllum spurningum með nokkrum músarsmellum. Netið hefur að geyma hafsjó fróðleiks og ótalmargar vefsíður með vandað kennsluefni af öllum toga, aðgengilegt annaðhvort ókeypis eða gegn vægu gjaldi. Hlýða má á fyrirlestra heimsins bestu háskólaprófessora í gegnum snjallsímann og nýta fullkomin kennsluforrit til að ná tökum á námsefninu.

En fæst okkar nýta sér sem skyldi þá þekkingarauðlind sem netið er, og mörg vitum við upp á okkur sökina: agann vantar og einhvern veginn virðist aldrei gefast tími til að ljúka við áhugavert netnámskeið eða hefja lestur á fræðandi kennsluriti.

Helga segir að með gott upplýsingalæsi að vopni geti fólk fundið allt það kennsluefni sem þarf á netinu, en vandinn sé að virkja áhugann á að læra. Ef áhuginn er nógu mikill þá tekur fólk stökkið á endanum og hefst handa við námið.

„Eitt praktískt ráð er að taka frá ákveðinn tíma í sólarhringnum, eða í vikunni, fyrir það verkefni eitt að læra eitthvað nýtt. Reglan gæti t.d. verið sú að á milli 20 og 22 á þriðjudagskvöldum verði lesið í vandaðri kennslubók eða horft á netfyrirlestur. Það þarf að skipuleggja þennan námstíma fyrir fram og svo standa við það að læra þegar þar að kemur. Ef þetta er gert í nokkur skipti – hvort heldur vikulega eða daglega – þá verður námið smám saman að rútínu. Það á við um sjálfstýrt nám rétt eins og líkamsrækt og ýmsa aðra uppbyggilega iðju að lykillinn að árangri er að búa til nýja rútínu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »