Salka Sól og Sjöfn þróa nýjar prjónauppskriftir

Salka Sól og Sjöfn Kristjánsdóttir.
Salka Sól og Sjöfn Kristjánsdóttir.

Sjöfn Kristjánsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur, er annar tveggja eigenda Stroff – Petit Knitting. Hún hefur prjónað 300 peysur sjálf og skrifað yfir hundrað uppskriftir sem þykja einfaldar og góðar að fara eftir. Hún stofnaði fyrirtækið Stroff ásamt eiginmanni sínum Grétari Karli Arasyni í mars árið 2017 og síðan þá hafa viðskiptin blómstrað.

Hún segir áhuga landsmanna á prjónaskap í raun aldrei hafa verið meiri en einmitt núna.

,,Ég byrjaði sjálf að prjóna sem barn en átti alltaf erfitt með að prjóna eftir uppskriftum. Ég var góð að prjóna en fannst uppskriftirnar erfiðar. Ég hef alltaf prjónað mikið og svo þegar ég gekk með annað barnið mitt þá fann ég ekkert sem mér leist á í blöðunum þannig að ég ákvað bara að setjast niður og prófa að skrifa niður aðeins einfaldari uppskriftir. Hugmyndin kom reyndar frá Grétari manni mínum og fannst mér hún galin í fyrstu.“

Hefur prjónað 300 peysur

Síðan þá hefur hún skrifað niður fjöldann allan af uppskriftum.

„Ég skrifaði einhverjar 130 uppskriftir og er það hluti af vörunum sem við bjóðum upp á í Stroff í dag.“

Hvernig lýsir þú muninum á þínum uppskriftum og þeim sem þú fannst á netinu eða í prjónabókum og blöðum?

,,Ég nota meira mannamál og reyni að útskýra með setningum. Ég reyni líka að segja af hverju á að gera hlutina á þessa vegu. Ég nota helst ekki skammstafanir og mínar uppskriftir eru mjög aðgengilegar öllum sem hafa áhuga á að prjóna.“

Hvað hefur þú prjónað margar peysur um ævina?

,,Ég hef örugglega prjónað í kringum 300 peysur.“

Á hvaða aldri eru viðskiptavinir ykkar?

„Það eru rosalega margar ungar stelpur að prjóna en aldurshópurinn sem verslar hjá okkur er allt frá níu ára til 96 ára. En ég finn að ástandið í dag ýtir undir að fólk finni sér áhugamál og prjónaskapur er dásamleg leið til að tengjast sjálfum sér og sitja í rólegheitunum og bara hlusta á hljóðbók sem dæmi þegar maður prjónar.

Ég er með eina sérstaklega góða byrjendauppskrift sem kostar ekkert á síðunni okkar stroff.is. Þessi uppskrift er mikið notuð fyrir þá sem vilja koma sér af stað.“

Una ný lína fyrir börn

Er eitthvað nýtt í gangi sem þú vilt deila með lesendum?

,,Já, hún Salka Sól söngkona var að byrja að vinna með okkur. Hún kemur til með að taka nokkrar vaktir í mánuði en hefur einnig verið að þróa með okkur vörulínu fyrir litlar stelpur.

Ég á tvo stráka og mig vantaði uppskriftir fyrir litlar stelpur líka. Salka er mjög frjó í hugsun og framkvæmir hlutina vel og vandlega. Svo úr varð vörulína sem heitir Una. Í vörulínunni er uppskrift að eyrnabandi, krakkapeysu, hnepptri peysu, samfellu, húfu, bleiubuxum og barnakjól. Síðan bjóðum við upp á eina fullorðinspeysu í þessari línu líka, sem er falleg í stíl við fatnað barnsins.“

Sjöfn segir að þau hjónin séu alltaf tvö í versluninni og því fagni þau aðkomu Sölku Sólar í verslunina. Því mörg handtök séu á bak við rekstur af þessu tagi.

Bæði þurfi að halda áfram að skrifa niður og þróa uppskriftir. Að finna garn, sinna bókhaldi og netversluninni svo eitthvað sé nefnt.

Æfingin skapar meistarann

Áttu ráð fyrir þá sem hefur alltaf dreymt um að prjóna en kunna það ekki?

„Já, bara að koma í verslunina og fá aðstoð. Við erum með einfaldar uppskriftir og getum leiðbeint fólki.

Það er að ýmsu að huga. Mér finnst yfirleitt reglan vera þannig að ef fólk hefur áhuga, þá getur það prjónað. Ég hef séð marga sem eru góðir að prjóna en hafa lítinn áhuga á því. Þannig að áhuginn er það sem skiptir mestu máli. Æfingin skapar svo meistarann.

Þegar þú prjónar ertu bara með þig og prjónana þína. Það fara margir klukkutímar í að prjóna, hugsa og finna út hvernig hlutirnir eiga að vera. Mér finnst það einstök stund þegar til dæmis peysa verður til. Þetta er fallegt áhugamál sem hentar ástandinu í dag ágætlega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál