Bubbi hætti að slást þegar hann fór í fangelsi

Bubbi Morthens er gestur Sölva Tryggvasonar.
Bubbi Morthens er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bubbi Morthens er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Í viðtalinu ræða Sölvi og Bubbi meðal annars um tímabilið þegar Bubbi var algjörlega stjórnlaus í djammi og fleiri hlutum, sem endaði með því að hann var settur í fangelsi.

„6. júní 1981, þá var ég tekinn í fangelsi. Þá sá ég mann sem var að girða niður um stelpu á balli hjá Utangarðsmönnum. Hann var inni í þvögunni úti í horni og auðvitað átti ég ekki að gera það sem ég gerði. Ég gargaði á strákana: „Takiði Sóló“ og svo bara óð ég í gegnum salinn og fór í manninn og meiddi hann það verulega að ég var settur í fangelsi. Ég hringdi sjálfur í lögguna, en ég var tekinn samt, af því að hann fór beina leið upp á spítala. En hann kærði ekki, líklega af því að hann var ofbeldismaður, svona skaðræði eins og ég. Þarna fattaði ég að þessi hárfína lína sem enginn virðist sjá, er gatan sem lífið og dauðinn ganga. Þarna rann upp fyrir mér að svona vildi ég ekki vera og þarna hætti ég slagsmálum.”

Bubbi segist á þessum tíma hafa verið uppfullur af ótta og eitt það sem hann gerði til að sefa óttann var að æfa eins og óður maður.

„Ég beit það snemma í mig að vera í góðu formi og hef alltaf verið duglegur í ræktinni. En hvötin var alltaf ótti. Ótti við allan andskotann, alkahólisma, ég var misnotaður og margt margt fleira. Ræktin var oft flóttaleið sem veitti mér fró og gaf mér bensín og sjálfstraust, svo var ég í neyslu, en alltaf mætti ég í ræktina og gaf aldrei eftir þar. Svo sá ég „Pumping Iron“ með Arnold Schwarzenegger og þar voru þeir að reykja gras og ég hugsaði: „Nákvæmlega!“ og fór að reykja gras fyrir æfingar og þá fékk maður svona rörsýn og var í nákvæmnisvinnu með vöðvana. Grasið virkaði einhvern vegin alltaf örvandi á mig, þannig að það virkaði fínt á þeim tíma. En síðan hafa forsendurnar breyst og núna tengi ég líkamsræktina við andlega rækt og almenna vellíðan og maður er farinn að horfa á það hvernig maður vill næra sig bæði líkamlega og andlega á sama tíma. Nú er það ekki lengur ótti, reiði og kvíði sem rekur mig áfram í gymminu, heldur vellíðan og hvað þetta gefur mér mikið.“

Bubbi er eins og flestir vita einn þekktasti tónlistarmaður Íslandssögunnar og eftir hann liggja nærri 50 hljómplötur. Í þættinum fara hann og Sölvi yfir ótrúlegan feril Bubba, nýja lífið í sveitinni, mikilvægi þess að halda sér í líkamlegu og andlegu formi, sögur af djamminu í den og margt margt fleira.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina