Varð óvinnufær og stofnaði hlaðvarp

Unnur Regína Gunnarsdóttir er manneskjan á bakvið hlaðvarpið Háski.
Unnur Regína Gunnarsdóttir er manneskjan á bakvið hlaðvarpið Háski. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Regína Gunnarsdóttir heldur úti þáttunum Háska. Í Háska fjallar hún um fólk sem hefur lent í lífsháska. Hún byrjaði að gera þættina þegar hún greindist með sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur því að hún getur ekki unnið.

Unnur er fædd og uppalin í Reykjavík og býr með eiginmanni sínum og syni í Árbæ í dag. Hún starfaði sem matráður áður en hún greindist með sjúkdóminn Ehlers Danlos.

„EDS er sjúkdómur sem hefur áhrif á bandvef sem styður húð, bein, liði, æðar, líffæri og vefi. Bandvefur þeirra sem er með EDS er gallaður og eru einkennin því allt frá lausum liðum til lífshættulegra kvilla. Mín einkenni eru daglegir verkir, ég fer úr lið, hef lélega blóðþrýstingsstjórnun, þarf að fá reglulegar vökvagjafir og vera í eftirliti hjá tauga-, meltingar- og hjartalæknum,“ segir Unnur. 

Sjúkdómurinn hefur valdið skaða á mænu hjá Unni og er hún máttminni vinstra megin í líkamanum. Hún segir það ótrúlega erfitt að greinast með sjúkdóminn svona ung, en hún er 28 ára. „Ég er með verki á hverjum degi og stundum þarf ég bara að vera að skrifa texta, sem ég geri mikið af fyrir þáttinn, til að fingur fari úr lið,“ segir Unnur.

Unnur fjallar um fólk sem hefur lent í lífsháska.
Unnur fjallar um fólk sem hefur lent í lífsháska. Ljósmynd/Aðsend

Hugmyndin að þáttunum Háska kviknaði hjá Unni þegar hún veiktist. Hún segist hafa lesið mikið af svona sögum þegar hún var barn og elskað þær. Hún hefur eytt drjúgum tíma inni á sjúkrahúsi þar sem hún las svona sögur. „Ég fann huggun í því að ef þetta fólk kæmist í gegnum að lifa af ótrúlegustu aðstæður þá kæmist ég líka í gegnum það sem ég var að glíma við,“ segir Unnur. 

Það reyndist Unni erfitt að vera mikið heima og fór hún að finna fyrir þunglyndi. „Ég vissi að ég yrði að búa mér til eitthvert verkefni. Ég ákvað því að deila óbilandi áhuga mínum á háskasögum með fleirum, ég skrifaði þátt, fór og keypti mér hljóðnema og tók upp. Svo smellti ég þættinum inn á veraldarvefinn og bjóst ekki við neinu. Ég var fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfa mig því öllum finnst okkur gott að hafa tilgang og markmið til að vinna að og þetta var mitt,“ segir Unnur.

Viðtökurnar komu henni skemmtilega á óvart og sá hún fljótt að fleiri höfðu áhuga á sögum af fólki í lífsháska. Í dag hlusta um fimm þúsund manns í hverri viku.

Það reyndist Unni erfitt að vera svona mikið heima og …
Það reyndist Unni erfitt að vera svona mikið heima og ákvað hún því að finna sér eitthvað verkefni. Ljósmynd/Aðsend

En hvað þarf að mati Unnar að vera fyrir hendi til þess að gera gott hlaðvarp?

„Áhugi, númer eitt, tvö og þrjú. Þetta er rosaleg vinna, að skrifa upp mál og taka upp. Að leita sér heimilda getur líka stundum verið flókið og tímafrekt og eyði ég miklum tíma við tölvuskjáinn. Áhugi er mikilvægur en svo er líka gott að vera með ágætis græjur og úrvalið í dag er orðið svo gott að maður þarf ekki endilega að eyða stórfé í upptökugræjur. Svo bara skiptir máli að vera maður sjálfur og leggja metnað í þetta,“ segir Unnur.

Unnur hefur fjallað um allt frá sjó- og flugslysum yfir í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz og þjóðarmorðið í Rúanda. „Ég fer um víðan völl í þáttunum og hef tekið  margt áhugavert fyrir: Fólk sem lent hefur í bjarna- og hákarlaárásum. Einstaklinga sem ég skil ekki að séu á lífi. Líkt og Roy Sullivan, sem varð fyrir eldingu sjö sinnum yfir margra ára tímabil en lifði alltaf af. Flugfreyjuna Vesnu Vulovic sem lifði af 33.000 feta fall er flugvélin sem hún var í hrapaði. Sögur um foreldra sem hafa lent í skelfilegum aðstæðum með börnin sín týnd í óbyggðum og þurft að horfast í augu við það að geta ekkert gert fyrir börnin sín, að dauðinn væri handan við hornið,“ segir Unnur. 

Hægt er að hlusta á Háska á hlaðvarpsvef mbl.is og einnig öllum helstu hlaðvarpsveitum. Hún deilir einnig ýmsum auka upplýsingum og myndum tengdum málunum sem hún fjallar um á instagramsíðunni Háski.

mbl.is