Í sóttvarnarbandalagi með þremur fjölskyldum

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að lífið sé með rólegasta móti á þessum veirutímum. Hún hefur að mestu leyti verið í vinnu í Ráðhúsinu en segir að sér finnist gott að vera heima. Hún er þessa dagana að vinna í því að koma sér upp betri vinnuaðstöðu. 

Hvernig bregstu við vegna samkomubannsins?

„Við fjölskyldan tökum lífinu með ró. Það er reyndar mikið að gera í vinnunni hjá mér enda stendur fjárhagsáætlunarvinna nú sem hæst og svo er mikilvægt að sinna viðbragðsstjórn vegna Covid-19. Fjölskyldulífið er heldur rólegt. Menntaskólaneminn er í fjarnámi og litla stelpan á leikskóla. Maðurinn minn er reyndar í burtu vegna vinnu og er búinn að vera í tæpan mánuð frá heimilinu, hefur þó komið heim í stutt stopp. Sem betur fer býr hjá okkur yndisleg stelpa frá Þýskalandi sem hjálpar mér með heimilið. Þannig látum við lífið ganga upp án mikilla vandkvæða,“ segir Ásthildur. 

Ertu í fjarvinnu núna?

„Ég er aðallega í ráðhúsinu en er kannski hluta úr degi heima ef ég þarf bara að vera á fundum. Það mun hins vegar breytast næstu daga. Þá verð ég heima 2-3 daga í viku.“

Hvernig gengur það?

„Ég vann nokkra daga heima í vor. Mér finnst það gott enda líður mér best heima. Það er næði yfir daginn og ég vinn vel þrátt fyrir að vera ekki endilega með góða aðstöðu. Það er næsta mál á dagskrá. Ég sit við eldhúsborðið með heyrnartól og það gengur meðan sú stutta er á leikskólanum. Eftir kl. 4 er friðurinn úti.“

Hvað gerir þú til að brjóta upp daginn?

„Fer í stuttan göngutúr eða drekk kaffi með starfsfélögum. Síðasta vor skipulögðum við stundum sameiginlegan kaffitíma í gegnum fjarfundakerfi sem var notalegt. Það er fastur liður að hringja í mömmu og pabba daglega og heyra í systkinum mínum og vinkonum. Ef ég er að vinna heima sting ég í vél og hengi upp. Það er ágætis uppbrot á deginum. Ég gæti hins vegar að því að fara alltaf á sama tíma að sofa, vakna kl. 7.15, sturta mig, fer í vinnufötin og hef mig til. Það er mikilvægt.“

Hvað ertu til dæmis að borða í hádegismat?

„Ef það eru til afgangar þá borðum við þá eða gerum samloku eða salat. Ég skelli líka stundum í súpu ef það er til nóg af grænmeti. Það er ægilega gott. Afganginn má jafnvel borða daginn eftir eða í kvöldmat. Ef ég er í ráðhúsinu fer ég í mötuneytið sem er frábært.“  

Hvað gerir þú til að halda geðheilsunni í lagi?

„Reyni að leika mér með dóttur minni, elda góðan mat á kvöldin, sinna handavinnu og lesa.  Svo er hópurinn „Geggjað veður á Akureyri!“ á Facebook mikil skemmtun! Þá erum við þrjár fjölskyldur með „sóttvarnabandalag“, þ.e. við reynum að hittast reglulega en hittum helst ekki aðra. Það er því lítið um samgang við aðra en okkar á milli.“  

Hreyfirðu þig eitthvað?

„Allt of lítið. Er þó með skíðavél úti í bílskúr sem er alveg að breytast í fatahengi! Það horfir hins vegar til betri vegar. Annars er ágætt að labba út á róló eða fara í lengri göngutúra.“

Hver er galdurinn við að missa ekki vitið á veirutímum?

„Vera jákvæð, þolinmóð og sýna þrautseigju. Reyna að sjá alltaf björtu hliðarnar í lífinu og það góða í fólki. Þakka fyrir góða heilsu og líf. Þessi tími reynir á alla og það þýðir ekkert að dvelja við einhverja smávægilega hluti. Lífið er of stutt og hverfult til þess.“

Hvernig hefur veiran haft áhrif á þig og fjölskylduna?

„Við erum mjög heppin og þökkum fyrir hvern smitfrían dag. Ég get ekki kvartað og enginn í mínum nánasta ranni.“

Á hvern skorar þú til að svara þessum spurningum?

„Ég skora á vinkonu mína, Mörtu Nordal leikhússtjóra á Akureyri, sem er með mér í sóttvarnabandalagi. Hún hefur heldur betur þurft að sýna útsjónarsemi við rekstur leikhússins á þessum tímum.“

Blómkálssúpa Ásthildar

Blómkálshaus

vatn

2 lárviðarlauf

salt

peli rjómi

1 laukur

smá smjör

2 dl hvítvín (má vera matarvín sem m.a. fæst í Nettó eða bara smá sletta af sítrónusafa)

2 msk rjómaostur

grænmetiskraftur (ca 2 msk)

Aðferð

Sjóðið blómkálið í vatni með u.þ.b. rúmri tsk af maldonsalti og lárviðarlaufunum. Sjóðið þar til blómkálið er orðið vel mjúkt (um 10 mín). Saxið laukinn smátt og steikið vel í smjöri. Laukurinn má endilega verða smá brúnn. Setjið blómkálið og laukinn í blandara með slatta af soðvatninu og látið ganga í nokkrar mínútur. Blandan á að verða silkimjúk og slétt. Setjið nú allt í pottinn með afgangssoðinu, takið lárviðarlaufin upp úr. Bætið krafti, rjómaosti, hvítvíni og rjóma út í og látið sjóða við vægan hita í smá stund  eða þar til osturinn er bráðnaður. Smakkið til með salti og pipar og berið fram með góðu brauði og smjöri. Allt er þetta gert eftir því sem til er skápunum og því skapi sem kokkurinn er í hverju sinni!

mbl.is