Les sömu bókina á hverju hausti

Katla Ársælsdóttir stýrir hlaðvarpsþáttunum Beðmál um bókmenntir.
Katla Ársælsdóttir stýrir hlaðvarpsþáttunum Beðmál um bókmenntir. Ljósmynd/Aðsend

Bókmenntafræðineminn Katla Ársælsdóttir byrjaði á dögunum með hlaðvarpsþættina Beðmál um bókmenntir. Þar fjallar hún, ásamt góðum gestum, um allskonar bókmenntir. Uppáhaldsbók Kötlu er bókin Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur og les hún hana á hverju hausti.

Katla leggur stund á bókmenntafræði við Háskóla Íslands og vinnur með skólanum í félagsmiðstöð. Þar að auki er hún blaðamaður á Stúdentablaðinu og tekur þátt í háskólapólitíkinni en hún er oddviti Hugvísindasviðs í Stúdentaráði Háskóla Íslands. 

Þættirnir Beðmál um bókmenntir koma út á hverjum sunnudegi og eru aðgengilegir á öllum helstu streymisveitum sem og hlaðvarpsvef mbl.is.

Hvernig kviknaði hugmyndin að Beðmáli um bókmenntir?

„Hugmyndin kviknaði í sumar en mig óraði í raun og veru aldrei fyrir því að ég myndi hrinda henni í framkvæmd. Ég hafði löngun til að grúska í einhverju sem tengdist bókmenntum og datt þá í hug að það gæti verið skemmtilegt að gera hlaðvarpsþætti tileinkaða bókmenntum. Mér finnst ekki leiðinlegt að tala eða koma eigin skoðunum á framfæri og taldi hlaðvarp því góðan kost. Hugmyndin sat í mér í smátíma áður en ég ræddi hana við tvær vinkonur mínar úr bókmenntafræðinni þegar við sátum á barnum eitt kvöldið (þegar það mátti).

Þær hvöttu mig áfram og önnur þeirra var svo góð að aðstoða mig við þetta verkefni. Ragnheiður og Vala Fanney eiga því sérstakar þakkir skilið fyrir að hlaðvarpið hafi orðið að veruleika. Ég viðurkenni það fúslega að ég var mjög stressuð til að byrja með og hugsaði alltof mikið um það hvort öðrum þætti þetta asnalegt eða þess háttar. En ég er ótrúlega ánægð að ég hafi gert það og mér finnst þetta mjög gaman. Það skiptir að sjálfsögðu miklu meira máli en það sem öðrum kann mögulega að finnast.“

Katla leggur stund á bókmenntafræði við Háskóla Íslands og er …
Katla leggur stund á bókmenntafræði við Háskóla Íslands og er oddviti Hugvísindasviðs í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig þættir eru Beðmál um bókmenntir?

„Beðmál um bókmenntir er hlaðvarpsþáttur sem fjallar um bókmenntir. Markmiðið er að hafa fjölbreyttar umfjallanir um mismunandi bækur og bókmenntagreinar og sýna fram á að bókmenntir eru allskonar og fyrir öll. Þá vil ég að umfjallanirnar séu aðgengilegar öllum, bæði fyrir þá sem eru miklir bókaunnendur sem lesa hábókmenntir og langa doðranta en einnig fyrir þá sem lesa tiltölulega lítið. Ég vil brúa bilið þar á milli.“

Hvað þarf, að þínu mati, til að gera góða hlaðvarpsþætti?

„Ég held að það sem sé fyrst og fremst mikilvægt sé að hafa áhuga á umfjöllunarefni þáttanna. Ef þú hefur áhuga á því sem þú ert að gera þá smitar áhuginn út frá sér. Svo held ég að metnaður sé lykilatriði og að reyna sitt allra besta.“

Hvað ert þú að lesa um þessar mundir?

„Ég var að klára að lesa Pride and Prejudice eftir Jane Austen og var síðan að byrja að lesa Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur en hún byrjar mjög vel.“

Hver er uppáhaldsbókin þín?

„Allra uppáhaldsbókin mín er Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ég get talað endalaust um hana og reyni að fá alla í kringum mig til að lesa hana í von um að fleiri verða jafn ástfangnir af henni og ég. Undanfarin ár hef ég verið með þá hefð að lesa hana á hverju hausti. Ég held ég hafi lesið hana samtals fimm sinnum.“

Hver er, að þínu mati, besta kvikmyndin sem hefur verið gerð eftir bók?

„Sú kvikmyndaaðlögun sem mér dettur helst í hug er aðlögunin á Perks of Being a Wallflower. Þessi bók hafði mikil áhrif á mig sem unglingur en ég hef ekki lesið hana síðan. Bókin er skrifuð í dagbókarfærslum sem er áhugaverð áskorun fyrir kvikmyndagerðarfólk en mér fannst það heppnast vel í þessu tilviki. Svo er Clueless byggð á Emmu eftir Jane Austen og sú mynd er alltaf skemmtileg.“

Hvaða bækur í jólabókaflóðinu ertu spenntust fyrir að lesa?

„Að mínu mati er jólabókaflóðið í ár mjög spennandi og margar bækur sem ég er spennt að lesa! Ég hef því miður ekki komist í það að lesa neina af þeim en það er vegna þess að ég reyni eftir fremsta megni að halda mig heima og hef því ekki komist í bókabúð. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af ljóðum og það eru þó nokkrar ljóðabækur sem ég er ólm í að lesa. En ef ég þyrfti að velja þá er ég sérstaklega spennt fyrir Havana eftir Maríu Ramos, Syni grafarans eftir Brynjólf Þorsteinsson og Aprílsólarkulda eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Mig langar líka að lesa nýjustu bækur Kristínar Marju Baldursdóttur og Jónasar Reynis Gunnarssonar og ég vona að þær muni leynast í einhverjum jólapakkanum í ár.“

Allra uppáhaldsbók Kötlu er Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur og les …
Allra uppáhaldsbók Kötlu er Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur og les hún hana á hverju hausti. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál