Opna bókabúð í miðjum heimsfaraldri

Dögg Hjaltalín og Anna Lea Friðriksdóttir opna bókabúð í miðjum …
Dögg Hjaltalín og Anna Lea Friðriksdóttir opna bókabúð í miðjum heimsfaraldri.

Anna Lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín, eigendur bókaútgáfunnar Sölku, ákváðu að opna pop-up verslun við Suðurlandsbraut 6. Báðar eru þær alvanar bóksölu enda báðar fyrrverandi verslunarstjórar í Bókabúð Máls og menningar og kunna því ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Ástæðan fyrir að þær ákváðu að opna búð er einföld.

„Skemmtilegasta starf í heimi er að vera bókaútgefandi. Fast á hælana fylgir svo að vera bóksali, sér í lagi þegar jólin nálgast,“ segir Dögg. 

„Á þessum árstíma erum við venjulega á kafi við að skipuleggja útgáfuhóf, höfundakvöld, upplestra og aðrar kynningar. Núna er ekkert svoleiðis í gangi og við vorum farnar að sakna þess að hitta viðskiptavini okkar og skrafa við þá um bækur. Við höfum fulla trú á að bókin verði jólagjöfin í ár og teljum það ekkert úr hófi bjartsýnt að opna bókabúð um þessar mundir,“ segja Anna Lea sem rekur Sölku ásamt Dögg Hjaltalín. 

Í nýju Sölkubúðinni er vítt til veggja, hátt til lofts og rúmt á milli borða þannig að auðvelt er að halda góðri fjarlægð og allra sóttvarna er gætt í hvívetna.

„Hingað getur fólk komið og sótt bækurnar sem pantaðar eru í vefverslun okkar eða keypt þær beint á staðnum. Aðgengi er gott og við erum sveigjanlegar og afgreiðum fólk úti í bíl ef þess er óskað,“ segir Dögg. 

Í búðinni má finna fjölbreytt úrval bóka sem Salka hefur gefið út á þeim 20 árum sem útgáfan hefur verið starfrækt.

„Við leggjum mikið upp úr að hafa notalegt andrúmsloft í búðinni enda eiga bókabúðir að vera skemmtilegur staður að heimsækja. Höfundar okkar afgreiða og árita og það er alltaf heitt á könnunni,“ segir Anna Lea og bætir við að fyrstu hundrað viðskiptavinir búðarinnar fái fallega bókagjöf.

Salka gefur út um 20 titla á ári; skáldsögur, barnabækur, matreiðslubækur, þýddar bækur og bækur almenns eðlis svo eitthvað sé nefnt. Stefna Sölku er ekki flókin. Hún felst í að vinna að skemmtilegum bókum með skemmtilegu fólki og hefur það gefist vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál