Sló í gegn á TikTok fyrir þrif

Auri Kananen
Auri Kananen Skjáskot/Instagram

Auri Kananen frá Finnlandi sló óvænt í gegn á TikTok fyrir myndbönd af sér að þrífa. 

Kananen elskar að þrífa og hefur starfað við það frá 14 ára aldri. Stundum rukkar hún ekki einu sinni fyrir þrifin.

„Ég geri þetta frítt fyrir þá sem þurfa mest á því að halda. Ég hef gaman af hvers konar sjálfboðaliðastörfum og þetta er liður í því. Ég er glöð að geta orðið að liði með hæfileikum mínum til þess að þrífa. Þá hef ég alltaf gefið ættingjum mínum gjafakort fyrir þrif í jólagjöf,“ segir Kananen en hún heldur því fram að hún sé heimsins besti hreingerningamaður.

„Ég elska að þrífa. Ánægjan kemur ekki eftir þrifin heldur meðan á þeim stendur. Ég elska erfiða bletti og margra ára drullu. Mér finnst ekkert of ógeðslegt. Eitt sinn hafði kúk verið klínt um allt klósettið. Það er bara sorglegt að einhver skuli gera svona. Margir hafa hlegið að mér og ættingjum mínum fannst þetta áhugamál skrítið en eftir að ég sló í gegn á TikTok hefur gagnrýninni linnt.“

„Nú bið ég fólk að senda mér myndir af heimilunum áður en ég tek að mér þrif og bið um leyfi til þess að fá að taka upp myndbönd þar.“mbl.is