Innblástur jafnmikilvægur og laun um hver mánaðamót

Þættirnir Sögur sem breyta heiminum komu út í dag.
Þættirnir Sögur sem breyta heiminum komu út í dag. Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. Vilhjálmsson hefur haft í nægu að snúast síðastliðna mánuði því hann gefur ekki bara bókina Ég skal vera ljósið út fyrir jólin heldur einnig viðtalsþættina Sögur sem breyta heiminum. 

Sögur sem breyta heiminum eru sýndar á Sjónvarpi Símans og er serían aðgengileg á Símanum Premium. Serían samanstendur af sex 12 mínútna löngum þáttum.

Þótt þættirnir séu knappir er kafað undir yfirborðið og rætt við fólk um ákvarðanir sem hafa breytt lífi þess á einhvern hátt. „Frásagnarhátturinn er spennandi finnst mér, ég spyr strax í upphafi: Hvað var það sem gerðist?, svo og frásögnin sem er borin uppi af lifandi myndum, efnið er skotið á ólíkar kamerur, ég nota gamalt myndefni í sumum tilvikum og svo ljósmyndir.

Mig langaði til að hver þáttur væri eins konar portrett af viðkomandi einstaklingi, við kynntumst honum í gegnum frásögnina og í lokin fyndist okkur eins og við þekktum viðkomandi betur. Það eru svo ekki síður sögurnar þeirra sem vísa út fyrir sig, eru hvatning til okkar hinna að skoða hvað við erum að gera og hvað okkur langar sjálf til að gera. Því ef maður breytir sínu eigin lífi, þá er maður eiginlega að breyta heiminum í leiðinni, í óeiginlegri merkingu,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn eyddi dágóðum tíma í að finna viðmælendur sína sem eru ekki þjóðþekkt fólk en Þorsteinn bendir þó á að ekki þurfi mikið til þess að verða þjóðþekktur á Íslandi þar sem við erum svo fá. „Ég þekkti sum þeirra, öðrum frétti ég af og ég tók einfaldlega upp símann, hringdi og bar upp erindið. Svo hitti ég þessa einstaklinga og fór yfir söguna, byrjaði svo að taka upp og skipuleggja frásögnina. Stór hluti er samsetningin, að raða sögunni upp, myndskreyta og setja viðeigandi tónlist undir. Frásagnarhátturinn er snarpur og hraður, vonandi ekki of hraður, en mér finnst allt þetta fólk hafa spennandi og áhugaverða hluti að segja. Ég vona að mér hafi tekist að koma því vel frá mér í þáttunum,“ segir Þorsteinn.

Í þáttunum ræðir þú við fólk um hvernig það tekur stórar ákvarðanir í lífi sínu. Hver er helsti lærdómurinn af því? Hefur sýn þín á að taka stórar ákvarðarnir í lífinu breyst?

„Þetta eru bæði stórar og litlar ákvarðanir sem fólk er að segja frá, eitthvað sem breytti lífi þeirra varanlega. Það merkilega er að maður veit aldrei held ég fyrr en löngu seinna hvort viðkomandi ákvörðun var stór eða lítil! Það virðist sem þeir sem hlýða köllun sinni, þessari rödd sem er innra með okkur, innsæinu, þeir stýri lífi sínu í þann farveg sem þeir eru sjálfir sáttir við. Það eru alls konar hlutir sem gera nært okkur og mín reynsla er sú að innblástur sé jafnnauðsynlegur og laun um hver mánaðamót. Allt í kringum okkur er fólk að gera ótrúlegustu hluti. Við þurfum ekki að gera eins, en við getum sótt okkur hvatningu í að gera það sem okkur langar, því ef maður er að sinna því sem innsæið segir manni, hvað svo sem það er, þá fær maður þessa djúpu tilfinningu fyrir að vera á lífi, lifa lífinu lifandi er stundum sagt. Nákvæmlega,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn J Vilhjálmsson
Þorsteinn J Vilhjálmsson mbl.is/Golli
mbl.is