Dóttir smyglara leysir frá skjóðunni

Rainbow Valentine opnar sig um smyglævintýri foreldra sinna.
Rainbow Valentine opnar sig um smyglævintýri foreldra sinna. Ljósmynd/Facebook

Í hlaðvarpsþáttunum Disorganized Crimes: Smuggler's Daugther opnar Rainbow Valentine sig um æsku sína og fortíð foreldra sinna. Valentine á algjörlega einstaka sögu en hún komst að því á unglingsárunum að foreldrar hennar voru umsvifamiklir fíkniefnasmyglarar þegar hún var yngri. 

Í þáttunum tekur hún viðtöl við foreldra sína sem opna sig undir leyninöfnum, en þau eru búsett í norðurhluta Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hún ræðir einnig við vini foreldra sinna sem tóku þátt í smyglinu með þeim. Í gegn um þættina kemst Valentine að því að stór hluti æsku hennar var litaður af leynilífi foreldra hennar og ýmislegt hefði mátt betur fara. 

Það er ástæða fyrir því að þættirnir bera titilinn Disorganized Crimes eða Óskipulagðir glæpir eins og hlustandi kemst að og smyglið var oft á tíðum mjög óreiðukennt. Pabbi Valentine segir frá því að hann hafi nokkrum sinnum reynt að hætta en tekist illa til og litlu mátt muna að lögreglan gómaði hann og vitorðsmenn hans. 

Þættirnir eru tíu talsins auk nokkurra aukaþátta og má finna þá á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Fyrsta þáttinn má finna hér fyrir neðan.

mbl.is