Reddaði hvítum jólum fyrir mömmu sína í æsku

Þórunn Antonía er mikið fyrir jólin.
Þórunn Antonía er mikið fyrir jólin. mbl.is/Árni Sæberg

Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er jákvæð, sjálfstæð tveggja barna móðir sem ætlar að leggja sig fram um að njóta sín um jólin.

Þórunn Antonía segir ástandið í dag tilvalið í allskonar spennandi verkefni.

„Ég er að vinna í því spennandi verkefni að tengjast innsæinu mínu betur. Að muna að þakka fyrir alla hlutina sem ganga vel í lífinu, stóra og smáa. Telja hversdagsævintýrin og dreyma stóru dagdraumana. Svo er ég bara að skoða heiminn út frá breyttu landslagi sem atvinnulaus tónlistarmaður og hef falið sjálfri mér það verkefni að halda í gleðina, húmorinn og vonina.“

Hvaða hug berðu til jólanna?

„Ég ber allskonar tilfinningar til jólanna. Ég á dásamlega fallegar minningar af jólunum sem barn hjá ömmu og afa í Tjarnarbólinu á Seltjarnarnesi þar sem móðir mín Sjöfn Pálsdóttir og hennar systkini mættu með börnin sín þegar ég var lítil. Það var dásamlegt að fá að vera með frændum og frænkum og þar upplifðum við mikla gleði. Við völdum Mackintosh af kostgæfni. Búrið var fullt af smákökum og það var kertaljós og gleði. Ég held að mín uppáhaldsjólaminning sé bara eitt augnablik er ég lagði höfuð mitt á mjúka öxlina á svarta pelsinum sem mamma mín átti og hann ilmaði af jólamat og ilmvatninu hennar og ég var með fullt af fallegum gjöfum í poka á leiðinni heim að sofa eftir jólaveislu hjá afa og ömmu. Södd og sæl og alveg áhyggjulaus í hlýja bílnum. Það var enginn á ferli og svo ótrúlega stjörnubjart. En svo eru minningar sem ég er minna hrifin af og eru meira kvíðavekjandi. Ég kann illa við spennuna sem magnast í þjóðfélaginu. Einhvers konar gleðiskipun í háum jólalagatónunum og einhver manía í gangi þar sem þrífa, kaupa, borða og njóta er í öndvegi.

Hatari ætti kannski að syngja um þessa tilfinningu. Þannig líður mér á Þorláksmessu ef ég hætti mér í Kringluna. Þveröfugt við nánd, kærleik og það verðmætasta af öllu, sem er tengsl og tími.“

Jólin breyttust með tilkomu barnanna

Þórunn segir jólin hafa breyst mikið frá því hún varð mamma og þá til hins betra.

„Jólin breyttust stórkostlega í mínum augum við að verða móðir og hafa þau aftur verið sveipuð ævintýralegum blæ á ný barna minna vegna. Ég átti erfitt með jólin áður fyrr og sérstaklega fyrstu jólin eftir að Freyja stúlkan mín kom í heiminn því ég fékk svo mikinn kvíða. Ég var ennþá að jafna mig á erfiðri fæðingu og áfallastreitu sem ég greindist með í kjölfarið og af þeim sökum frestaði ég öllu fram á seinasta dag eins og ég geri reyndar oft. Þarna var það miklu ýktara og ég stóð í mannmergðinni og grét inni í Eymundsson á Þorláksmessu yfir því að heimilið mitt væri ekki hreint. Ég hefði ekki keypt æðislegar gjafir handa öllum og pakkað þeim fagmannlega inn og að ég væri enn og aftur búin að klúðra jólunum með því að græja ekki allt fyrr. Nú er ég blessunarlega búin að tóna niður væntingar til sjálfs mín. Ég er komin á kvíðalyf og met jólin út frá allt öðru en hreinlæti og verðmæti gjafa. Fyrir mér snúast jólin um að heiðra fólkið sem maður elskar með tíma sínum, nærveru, hlýju og ást.“

Hvernig voru jólin áður?

„Jólin hafa verið alls konar en hin klassíska jóladagskrá hjá mér er önd hjá mömmu minni Sjöfn Pálsdóttur og Þórhalli Sigurðssyni stjúppabba mínum á aðfangadagskvöld. Það er allt svo fallegt hjá þeim og hátíðlegt, einnig alltaf tandurhreint og fínt og ég hef ekki húsmæðragen móður minnar, það get ég sagt þér. Ég fékk blessunarlega húmorinn frá henni, þannig að ég get allavega hlegið að því. Svo er jóladagsboð hjá þeim daginn eftir þar sem börn Þórhalls og þeirra börn mæta og allir borða saman hangikjöt sem er dýrmæt stund. Svo á öðrum í jólum fer ég til pabba míns Magnúsar Þórs og konu hans hennar Jennýjar þar sem við systkinin þeim megin, sex talsins, hittumst með börnin okkar og barnabörn. Þar er fiskur og mikið stuð. Þar erum við eins og ítölsk fjölskylda. Tölum hátt, hlæjum og spilum stundum langt fram eftir nóttu. Ég hef verið blessuð með risastórri fjölskyldu og fjölda af systkinum og systkinabörnum, þannig að þetta er virkilega skemmtilegt. Ég er líka fegin að fá nokkra daga milli jóla og nýárs til að hanga heima á náttfötunum og knúsa börnin mín. Þau fara reyndar líka bæði til pabba sinna og við reynum að skipta þessu eftir þeirra gleði og þörfum.“

Þórunn Antonía klæðist rauðu á jólunum.
Þórunn Antonía klæðist rauðu á jólunum. mbl.is/Árni Sæberg

Þórunn segir óljóst með jólin á þessu ári.

„Það á eiginlega svolítið eftir að koma í ljós vegna kórónuveirunnar. Við erum svo mörg og við erum afskaplega varkár með heilsu og hag hvert annars. Ég vona að við getum notið saman á fallegan hátt. Ég veit að við finnum leiðir til að blása lífi í ævintýraheim barnanna og það er það sem skiptir máli.“

Samvinna mikilvæg fyrir börnin

Er mikið sungið á jólunum?

„Ótrúlegt en satt þá syngjum við eiginlega ekki neitt á jólunum. Pabbi spilar alltaf Van Morrison og við hlustum alltaf á Ellen og KK og Elly Vilhjálms hjá mömmu. Þannig að tónlist skiptir að sjálfsögðu miklu máli. Svo er það á planinu að syngja mikið með börnum mínum.“

Áttu þér uppáhaldsjólalag?

„Nei, í rauninni ekki. KK og Ellen-platan er dásamleg og svo er önnur jólaplata sem heitir Christmas með hljómsveitinni Low. Svona melankólísk jólaplata.“

Nú veit ég að þú ert mikil fjölskyldukona. Hvernig deilið þið foreldrar á milli ykkar jólunum með börnin?

„Ég og pabbi Freyju minnar eigum mjög fallegt og skilningsríkt samband þar sem þarfir hennar eru ávallt í fyrsta sæti; við sem dæmi höldum alltaf saman upp á afmælin hennar og það er mikil vinátta fjölskyldna okkar á milli. Við höfum haft það þannig að hún eyðir deginum með mér og við borðum saman og opnum okkar pakka, svo fer hún til hans og þau opna pakka hjá þeim og þeirra fjölskyldu. Hún borðar á aðfangadagskvöldi hjá þeim sama og á áramótum. Svo höfum við líka bara farið saman á brennur og alls konar. Við vinnum þetta eftir kærleika og vináttu. En ég á strákinn minn með öðrum manni sem elskar strákinn sinn einnig heitt og við munum sníða einhverja dagskrá með þarfir Arnaldar í forgangi.“

Hvað er það flóknasta við að vera einstæð móðir þegar kemur að jólunum?

„Ég held að það flóknasta við að vera einstæð móðir eða bara móðir og manneskja séu væntingar. Væntingar sem við setjum á okkur sjálfar. Á aðra og oft einhverja fyrirfram ákveðna mynd af því hvernig hlutir eiga að vera. Fyrstu jólin mín sem einstæð tveggja barna móðir voru í fyrra. Þau voru svo falleg. Við þrjú að njóta saman og fara í veislur og krúttast. Ég var örmagna eftir þessi jól enda erfitt að vera með fjögurra mánaða barn á brjósti og fimm ára orkubolta innan um margt fólk og gista ekki heima hjá sér til að mæta í veislurnar og boðin sem voru í Reykjavík. Ég bý í Hveragerði og vildi ekki vera að keyra með þau fram og til baka. Þetta var kannski aðeins of mikið þegar ég lít til baka en engu að síður okkar jól. Það besta er bara að fá að vera til og að geta haldið upp á jólin og að sjá gleðina í gegnum þau.“

Hamingjan ekki bundin í hinum eina rétta

Þórunn er einstaklega sjálfstæð og óttast það ekki að vera ein með börnin sín í lífinu. Hún hefur ekki trú á hinum eina rétta og er með ráð fyrir konur sem eru áhyggjufullar í sambandi en þora ekki að stíga inn í að vera sjálfstæðar sjálfar.

„Já elsku þú. Þú ert sterk og falleg. Þú ert nóg. Þess virði að vera elskuð. Ekki vera í sambandi barnanna vegna. Þeirra hagur er að þú sért glöð og óhrædd. Finndu vonina.

Taktu ábyrgð á þér sama hversu erfitt það er. Taktu ábyrgð í aðstæðunum. Oft er skilnaður og áföll byrjunin á besta kaflanum. Við berum ábyrgð á okkar hamingju og tilfinningum. Það getur engin manneskja gert okkur hamingjusöm nema við sjálf. Það er erfitt að heyra. En það er byrjunin. Svo er hamingjan ekki bundin í hinum eina rétta eða fullkomna starfinu eða einhverjum mælieiningum þar sem við höldum að himnarnir opnist og það rigni yfir okkur glimmeri þegar við náum þeim. Að vera óhræddur við að finna allar tilfinningarnar er meira virði og ennþá meira virði fyrir mér er að sjá húmor og þakklæti í flestöllu. Ef einhver er að lesa þetta sem vill vita að það er betra að vera ein að sjá um lítil börn en með einstaklingi sem er ekki til staðar, sem ekki elskar þig eða þú elskar ekki, þá er til líf sem er fallegt og gott og alveg jafn dýrmætt og meðtekið. Það er svo gömul tugga að það sé sorglegt eða erfitt að vera einstæð móðir. Við getum allt.“

Hvað er það dýrmætasta í lífinu að þínu mati?

„Börnin mín, að eiga djúpa og fallega tengingu við þau. Fólkið mitt, fjölskyldan mín, vinir mínir. Í raun allt sem lætur mann brosa og hjartað slá hraðar. Ég er ótrúlega heppin með hvað ég á mikið af ótrúlega skemmtilegu og frábæru fólki sem veitir mér gleði og innblástur.“

Skemmtilega úrræðagóð sem barn á jólunum

Áttu skemmtilega minningu af þér sem barni á jólunum?

„Ég var alltaf að gera einhver prakkarastrik eða mjög misskilin góðverk. Eitt af þeim var þegar móðir mín sagðist bara vilja hvít jól er ég spurði hana þriggja ára hvað hún vildi í jólagjöf. Ég náði í hveitipoka og reddaði móður minni hvítum jólum innandyra. Ég hellti meira að segja hveiti yfir alla stofuna og öll húsgögnin. Þetta var ekki jafn vinsælt og ég hafði vonast eftir.“

Eru börnin þín mjög lík þér frá því þú varst lítil?

„Já mjög. Fyrir mig var það og er mjög heilandi ferli að sjá sjálfa mig sem barn bregða fyrir í þeim.“

Hvað gerir þú með þeim á aðventunni?

„Ég er mjög lítið fyrir að plana almennt en ætli ég byrji ekki á því að setja upp jólatré með þeim og vonandi búum við til fastar hefðir öll saman. Bakaofninn minn er reyndar bilaður og hefur verið í rúmt ár. Þetta er jafnvel tími til að græja það til að fara að baka smákökur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »