Allt breyttist nema reikningarnir

Margrét Erla Maack og Lalli töframaður hafa haldið uppi stuðinu …
Margrét Erla Maack og Lalli töframaður hafa haldið uppi stuðinu í gegn um netið síðustu mánuði. Ljósmynd/Aðsend

Burlesk-drottningin Margrét Erla Maack er búin að kaupa allar gjafirnar fyrir jólin og getur þá notið mánaðarins í friði frá öllu gjafastressi. Margrét, sem vinnur alla jafna við það að koma fram og kenna hóptíma í dansi, segir að það hafi verið erfitt að fá ekki að halda sýningar síðustu mánuði. 

Margrét er þó lausnamiðuð kona og hefur fundið leiðir til að halda skipinu siglandi síðustu mánuði. Á laugardaginn ætla Reykjavík Kabarett og Vínstúkan að halda fjar-jóla-burlesk-kabarett. Um er að ræða fullorðinssýningu og burlesk sem fer fram í gegnum netið. Vínstúkan sér um veitingarnar, sem er hægt að fá sent heim eða sækja, og Kabarettinn sér um skemmtunina. Einnig er hægt að kaupa miða bara á sýninguna.

Á sýningunni kemur fram okkar hæfileikaríkasta fólk á sviði burlesk en þar verða einnig Lalli töframaður, dragstjarnan Gógó Starr og húllamærin Bobbie Michelle.

Margrét og Lalli.
Margrét og Lalli. Ljósmynd/Mummi Lú

Margrét kveðst vera spennt fyrir sýningunni og að fá loksins að taka þátt í sýningu. 

„Stór hluti af þessu er ekki bara giggið sjálft  það sem gerist á sviðinu  heldur grínið utan þess og samfélagið sem myndast. Það verður alveg erfitt að halda fjarlægð hvert frá öðru og flaðra ekki hvert upp um annað eins og sveitahundar en að sjálfsögðu förum við varlega,“ segir Margrét. 

Hún bætir við að kabarettformið vinni með þeim því allir geti æft sig sjálfir heima hjá sér og svo sé hægt að púsla saman atriðunum fyrir sýningu. 

„Þetta er mjög sóttvarnavænt vinnuferli. Við Lalli töframaður höfum samt verið að fjargigga alls konar öðruvísi  stjórna bingóum, fjarbarsvörum og svoleiðis. Fimleikamennirnir Nonni og Sindri hafa haldið sér í formi með fimleikaæfingum heima við og við Nadia verið iðnar við að halda danstíma í gegnum fjarfundarbúnað. Bobbie Michelle hefur svo mundað húllahringinn á heimavelli. En þetta er öðruvísi, ég neita því ekki. Og útsendingin bætir við.“

Ljósmynd/Kaspar Bekeris

Hvað hefur þú verið að gera til að halda uppi stuðinu og borga reikningana undanfarið?

„Elskulegu reikningarnir, allt breytist nema þeir! Ég hef verið að stjórna fjarbarsvari fyrir alls konar fyrirtæki og kennt fjarkennslutíma í Kramhúsinu. En það er alveg samdráttur auðvitað, eins og alls staðar. Sem betur fer á ég mann í „venjulegri“ vinnu, og ég fékk hálft verkefnastjórastarf í mars og út október. Við höfum bara dregið seglin saman undanfarna mánuði eins og öll. Eftir að hafa verið búin að læra á þetta fjardót opnast líka möguleikar á hvað hægt er að gera í þessu umhverfi. En ég er úrræðagóð og hef hlaupið í alls kyns verkefni.

Í desember ætla ég að taka nokkra daga í að pakka inn jólagjöfum fyrir fólk með tíu þumalfingur og verð í Bravó-rýminu við Laugaveg, tek líka nokkrar vaktir í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar. Ég er vön sveiflum í innkomu, þessi lægð er sérstaklega djúp og löng. Þetta verður eitthvert púsl vel fram á næsta ár.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gengur jólaundirbúningurinn hjá þér?

„Ég er búin að kaupa allar jólagjafirnar! Það er hluti af þessu draga-saman-seglin-og-vera-skynsöm: Ég ákvað að deila þessum innkaupum á fleiri mánuði OG SVO ER ÞETTA BARA BÚIÐ OG KOMIÐ og ég get notið desembers, uppáhaldsmánaðarins míns.“

Hvernig verða jólin hjá þér og þinni fjölskyldu þetta árið?

„Við erum með svo furðulega jólahefð að ég bara get ekki svarað stærstu spurningunni. Við litla fjölskyldan verðum hjá foreldrum mínum, og systir mín og hennar litla fjölskylda líklega líka. Hefðin gengur út á það þeim megin að við borðum aldrei eins mat, og einn eða tveir elda, og hin mega ekkert vita. Mér finnst skemmtilegast að elda og geri það í ár ásamt systur minni, eins og í fyrra, – það er slegist um hver fær að elda á hverju ári. Svo núna ligg ég yfir matreiðslubókum og sperri eyrun þegar fólk ræðir meðlæti.

Ég held að það sem var best heppnað hafi verið indversku jólin  vindaloo-hreindýr og tandoori-humar. Svo var líka æðislegt þegar við vorum með djúpsteiktan humar og einhverjar fimm gerðir af sósum. Tengdamóðir mín er á kvöldvakt á aðfangadagskvöld svo við eigum jól með henni á jóladag. Dóttir mín 14 mánaða er í stífum æfingum núna fyrir pakkaupptekt og fínhreyfingar. Við erum líka að æfa okkur að skemma ekki jólaskraut, bara skoða og koma við blíðlega.“

Hand Solo.
Hand Solo. Ljósmynd/Mummi Lú
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál