Blússandi gangur í þrifabransanum í heimsfaraldri

Líney Sif Sandholt er þakklát fyrir að geta ráðið starfsfólk …
Líney Sif Sandholt er þakklát fyrir að geta ráðið starfsfólk á þessum skrítnu tímum. Ljósmynd/RÚN/list og ljósmyndir

Þrifadrottningin Líney Sif Sandholt segir að heimsfaraldurinn hafi haft mjög góð áhrif á þrifabransann. Hún finnur fyrir því að fyrirtækjum er meira umhugað um þrif og sóttvarnir og er þakklát fyrir að geta boðið fólki vinnu í stað þess að vera í sömu stöðu og margir atvinnurekendur sem þurfa að segja upp starfsfólki.  

Líney stofnaði fyrirtækið sitt, LS þrif, í byrjun apríl síðastliðins og kom það sér vel þar sem hún missti vinnuna hjá Icelandair stuttu seinna. 

„Ég er lánsöm að geta sagt að heimsfaraldurinn hefur haft góð áhrif á minn rekstur. Hann hefur gert það að verkum að fyrirtækin taka ræstingar og sóttvarnir á hærra plan og eru margir hverjir að endurskoða núverandi samninga og gera ráðstafanir ef þeir eru ekki sáttir við hvernig þrifið er og sóttvarnir. Ég hef því fengið tækifæri til þess að sýna og sanna það hvað við hjá LS þrifum höfum upp á að bjóða,“ segir Líney í samtali við Smartland. 

Nú í heimsfaraldrinum er fólki ekki bara umhugað um almennt hreinlæti heldur vill það líka láta sótthreinsa heima hjá sér og á vinnustaðnum. Til að koma til móts við þessar kröfur viðskiptavina sinna fór Líney að skoða hvað væri í boði til að auðvelda vinnuna og skila betri árangri. 

Líney með græjurnar.
Líney með græjurnar. Ljósmynd/RÚN/list og ljósmyndir

Þá datt hún niður á snilldargræjuna Vectorfog og ákvað að setja sig í samband við framleiðandann. Hún var hikandi í fyrstu hvort þetta væri eitthvað sem myndi raunverulega virka og henta fyrir ólíka aðila. 

„Ég lá í rannsóknarvinnu í margar vikur og var í stöðugum samskiptum við framleiðandann og var í hreinskilni alltaf að reyna að finna eitthvað neikvætt við búnaðinn eða finna ástæður af hverju þetta myndi henta íslenskum markaði og komst að þeirri niðurstöðu að þetta tæki er bráðnauðsynlegt fyrir öll fyrirtæki, stofnanir, veitingastaði, skóla, leikskóla og svo lengi mætti telja. Búnaðurinn hentar einnig vel fyrir matvælaframleiðendur og landbúnaðinn því hann er skaðlaus til dæmis dýrum og geta því búfjárbændur úðað yfir dýrabúin án þess að þurfa að fjarlægja dýrin og geta þannig komið í veg fyrir alvarlegar salmonellu- og e.coli-sýkingar, til dæmis. Einnig er þetta mikið notað til þess að ráðast á myglusveppi og vonda lykt og má því segja að notagildið sé margvíslegt,“ segir Líney. 

Hún segir Vectorfog henta til dæmis mjög vel í leikskólum og skólum þar sem erfitt er að passa upp á sóttvarnir. Vectorfog er þurr-sótthreinsibúnaður og sótthreinsar herbergi eða svæði á nokkrum mínútum. Það hefur þann eiginleika að hægt er að úða yfir allan tækjabúnað, pappír og yfirborðsfleti án þess að það skemmi eða skilji eftir sig ummerki. 

Þeir sem vilja kynna sér Vectorfog nánar geta gert það inni á vef Vectorfog.

Líney stofnaði LS þrif í apríl síðastliðinn og hefur gengið …
Líney stofnaði LS þrif í apríl síðastliðinn og hefur gengið mjög vel hjá henni síðustu mánuði. Ljósmynd/RÚN/list og ljósmyndir
mbl.is