Brynhildur ætlar að skipta á jóla- og skógjöfum

Brynhildur Björnsdóttir ætlar að gera hvað hún getur til að …
Brynhildur Björnsdóttir ætlar að gera hvað hún getur til að huga að umhverfinu um jólin. mbl.is/Saga Sig

Brynhildur S. Björnsdóttir meðeigandi og Viðskipta- og þróunarstjóri Iðu ehf. er fjögurra barna hamingjusamlega gift móðir úr Breiðholtinu. Hún hætti á árinu sem framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins GG Verk og sem stjórnarformaður Sjúkratrygginga Íslands en stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Iðu með vinkonu sinni Björt Ólafsdóttur fyrrum umhverfisráðherra. 

Brynhildur gerir hlutina sem hún ætlar sér og hóf meðal annars nám fyrir tveimur árum í Harvard fyrir eigendur og stjórnendur meðal- og stórra fyrirtækja. Það er alltaf nóg að gera hjá henni svo ekki sé minnst á hugmyndir hennar í þágu umhverfisins. 

„Ég er á kafi í því að þróa vef- og íbúðarlausnir ásamt Björt Ólafsdóttur, sem stuðla að því að lágmarka umhverfisáhrif og efla um leið félagslega blöndun íbúa. Það er ótrúlega gefandi og skemmtilegt að vera aftur komin í „start-up“ stellingarnar með tilheyrandi hindrunum, smásigrum, svefnlausum nóttum, hugarflugi og fundarmaraþoni.

Það er allt svo skemmtilegt þegar tilgangurinn er skýr. Loftslagsmálin eru auðvitað stærsta ógn samtímans og framtíðarinnar og við verðum að finna betri lausnir sem eru aðlaðandi fyrir íbúa og notendur. Svo er fólk, samskipti og tengsl þeirra sérlegt áhugamál mitt og það er frábært að vera að vinna að lausnum til að takast á við vaxandi einmanaleika og einangrun fólks, sem er jú stærsta heilbrigðisógn samtímans samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO.“

Ég sá að þú varst að stofna áhugaverðan hóp á Facebook nýverið. Hvað getur þú sagt um það?

„Ég vakna og sofna við að reyna að finna lausnir til að lágmarka loftslagsáhrif og efla félagleg tengsl. Og stundum finnur maður fyrir svo miklum vanmætti gagnvart þessari ógnvænlegu þróun. En svo fattar maður að allt skiptir máli og allir geta gert eitthvað. Vinkona mín hafði sagt mér frá því að nágrannar hennar í Vesturbænum væru að tala sig saman og skiptast á heillegum skógjöfum og mér fannst það svo geggjað og fannst það bara eiga erindi við fleiri. Ég vaknaði svo með hugmyndina daginn eftir að því að stofna opinn Facebook hóp þar sem fólk gæti skipst á skó- og jólagjöfum fyrir þau minnstu. Ég heyrði í Björt vinkonu og samstarfskonu og einum klukkutíma síðar var hópurinn Gefins jóla- og skógjafir kominn í loftið. Flóknara var það ekki.“

Hvernig er að ganga á síðunni?

„Við höfðum ekki hugmynd um hvort fólk myndi endilega taka þátt og vorum alveg búnar undir þau vandræðalegheit. En núna einum degi seinna eru komnir um 450 meðlimir sem eru í stuði og að skiptast á gjöfum. Sem er svo ótrúlega gefandi og skemmtilegt. Fólk vill sjálft lágmarka sóun alveg óháð efnahag. Það vantar bara oft vettvanginn til þess. Deili- og hringrásarhagkerfið er framtíðin og fyrir utan að vera umhverfisvænt þá er það líka bara hagkvæmt.“

Hvernig ertu að upplifa kórónuveirutímabilið og hverjar eru björtu hliðarnar við ástandið?

„Ég þori nú varla að tala vel um þetta tímabil þar sem ég veit að margir eiga um sárt að binda en ég er alveg að upplifa jákvæðar hliðar á þessu ástandi. Ég held að ég sé ekki ein um að hafa farið í talsverða innri skoðun við þessar hamfarir. Spurt mig hvort ég væri sannanlega að lifa mín gildi og hvort ég væri að upplifa tilgang með því sem ég var að gera. Ég hef staldrað aðeins við, andað og styrkt nánustu tengslin mín. Ég er líka búin að vera á einhverju námskeiðamaraþoni og nýta tímann vel í að þróa og byggja upp nýtt fyrirtæki en ég held að kreppur losi oft einhvern magnaðan mátt úr læðingi í samfélögum. Ég stofnaði til dæmis mitt fyrsta fyrirtæki í síðustu kreppu og fjölmargir gerðu það sama. Bestu lausnirnar fæðast í mótlæti og hindrunum. Svo ég sletti aðeins þá hafði sá sem sagði „Money kills creativity“ hárrétt fyrir sér.“

Hvað með það erfiða?

„Mér finnst ég alls ekki getað kvartað en úr því að ég þarf að nefna eitthvað þá er það erfiða fyrir mig persónulega bara röð lúxusvandamála. Ég sakna matarboða, vina hittinga og ferðalaga mest. Ég er til dæmis forfallinn ferðafíkill sem er ekki mjög umhverfisvænt, ég veit, en ég sakna þess mikið að ferðast ekki. Svo átti ég að vera að klára síðustu staðarlotuna mína núna í nóvember í Harvard en það er búið að fresta henni fram í ágúst á næsta ári. En ég get alveg beðið og haldið áfram að gera eitthvað geggjað gefandi á meðan. 

Ég hugsa aftur á móti mikið til þeirra sem glíma við fatlanir og langvinn veikindi í þessu ástandi. Það eru hópar sem voru einangraðir fyrir og það er dauðans alvara. Þá skammast ég mín fyrir mín „vandamál“ og harðneita mér um allt tuð og leiðindi.“

Er eitthvað sem þú ætlar að gera á jólunum sem þú hefur ekki gert áður?

„Ég ætla að skiptast á skó- og jólagjöfum!“

mbl.is