Svona töfrar þú fram heillandi aðventugjafir

Ólöf Birna Garðarsdóttir eigandi Reykjavík Letterpress útbýr fallegar aðventugjafir.
Ólöf Birna Garðarsdóttir eigandi Reykjavík Letterpress útbýr fallegar aðventugjafir. mbl.is/Árni Sæberg

Ólöf Birna Garðarsdóttir, eigandi Reykjavík Letterpress, er stemningskona mikil sem leggur upp úr því að pakka fallega inn. Hér sýnir hún okkur hvernig útbúa má einstakar tækifærisgjafir sem mætti jafnvel færa fólki á aðventunni enda passar súrdeig í bökunarpappír kannski ekki undir jólatréð. 

Mig grunar nú að þessi jól verði dálítið í stíl við þetta stórfurðulega ár sem senn er á enda! Það er eitthvað svo margt sem hefur þurft að hugsa upp á nýtt og takturinn í öllu annar og hægari, sérstaklega hugsa ég að aðventan verði ekki eins yfirhlaðin af því sem alls ekki hefur mátt missa af undanfarin ár. Mögulega hægist aðeins á manni sem verður til þess að hægt verður að njóta betur samveru og líðandi stundar. Jólin verða líka öðruvísi hjá okkur í fjölskyldunni í ár, með nýja litla hvolpinn okkar hann Bósa og svo er barnabarn á leiðinni í byrjun nýs árs. Sem sagt mikil gleði og tilhlökkun í bland,“ segir Ólöf aðspurð hvernig þessi jól verði frábrugðin fyrri jólum.
Hér er fallega innpakkað brauð sem er sniðug tækifærisgjöf.
Hér er fallega innpakkað brauð sem er sniðug tækifærisgjöf. mbl.is/Árni Sæberg

Ólöf er ekki bara stemningskona, hún er líka jólabarn.

„Ég hef reynt að njóta aðdraganda hátíðarinnar meira og meira síðustu árin. Finn samt alveg að ég þarf að gæta þess að láta stress og stuð ekki ná tökum á mér. Það er oft mikið annríki í vinnunni og síðan er svo endalaust margt í boði og ég reyni að velja það sem skiptir virkilega máli. Það er ekki alltaf auðvelt, en til þess að upplifa frið og ró í hjartanu er mikilvægt að reyna ekki að gleypa allt. Þarf sko að passa að njóta en ekki þjóta.“

Hvað gerirðu til þess að koma þér í jólastemningu?

„Það þarf nú ekki mikið til að ég finni fyrir jólastemningu, ef ég hef bara nóg af ilmandi kertum og notaleg jólalög í spilaranum er ég góð. Ein mikilvægasta hefðin er þegar fjölskyldan kemur saman og sker út laufabrauð og skreytir piparkökur. Uppáhaldið mitt í gegnum tíðina hafa þó verið jólakortin en því miður hef ég verið alveg ferlega léleg undanfarin ár vegna annríkis og kortunum fækkar ört bæði sem ég sendi og fæ. Krumpast smá í hjartanu við tilhugsunina en svona þróast hlutirnir bara stundum,“ segir hún.

Ólöf útbjó sjarmerandi tækifærisgjafir og segir að það sé gaman að færa fólki óvæntar gjafir á aðventunni. Aðspurð hver galdurinn á bak við svona gjafir sé segir hún að hafa þær einfaldar.

„Eitt er víst að það er sáraeinfalt að gera þetta allt of flókið! Gjafirnar sem ég er kannski að hugsa um í þessu samhengi mætti frekar kalla aðventugjafir. Eitthvað matarkyns, einfalt og nett sem hægt er að njóta á næðisstundum og færi kannski ekki of vel undir jólatrénu,“ segir Ólöf og bætir við:

„Ég ákvað að taka tvenns konar nálgun á þetta verkefni. Annars vegar með því að taka eitthvað tilbúið í matvörubúðinni eins og grissini-brauðstangir, nýbakað súrdeigsbrauð, kaktus í potti og kertabúnt. Mér fannst tilvalið að sýna hvað auðvelt er að taka tilbúna hluti, skreyta þá aðeins og setja í nýjan búning og þá er komin þessi fína huggulega gjöf! Eins og að kaupa nýbakað súrdeigsbrauð, setja renning af bökunarpappír utan um ásamt fallegum borða og merkimiða – hversu fallegt og einfalt!

Hins vegar er það heimalagaða gúmmelaðið eins og pestóið, limoncello-líkjörinn ómótstæðilegi, karamellusósan og súkkulaðigottið. Þá er ég oft búin að halda til haga alls konar krukkum og flöskum undan einhverju öðru – og já ég kaupi oft matvæli eftir umbúðunum! Það tekur mislangan tíma að útbúa þetta gotterí en vanalega gúgla ég mig bara í gegnum nokkrar uppskriftir og mixa því sem mér þykir líklegast til að bragðast almennilega.“

Heimatilbúin karamellusósa er góð gjöf.
Heimatilbúin karamellusósa er góð gjöf. mbl.is/Árni Sæberg

Ólöf segir að karamellusósa sé tilvalin tækifærisgjöf því hún passar með svo mörgu.

„Þetta er nú bara einfaldlega karamellusósa sem er skemmtilega einföld gjöf og geggjuð út á jólaísinn og svo notum við líka alltaf karamellusósuna á ris a la mande.“

Þú ert sérfræðingur í að pakka fallega inn. Segðu mér betur frá því.

„Sérfræðingur er nú dálítið stórt orð en ég hef bara svo gaman af því að pakka inn og í mínum huga er lykilatriði að eiga nóg af pappírspokum, gjafapappír, fallegum borðum og böndum heima fyrir og alls konar merkimiða eins og þessir frá okkur hjá Reykjavík Letterpress, sem eru sérstaklega hugsaðir svo passi við sem flest tilefni. Oft smelli ég miðunum líka á án þess að skrifa nokkuð á þá og þá er tilvalið að þeir nýtist síðar. Ég elska að nýta áfram poka, fallegar krukkur, merkimiða og borða og hendi helst engu!“

Hvers vegna skiptir máli að pakka fallega inn?

„Ef ég á smá lager af svona innpökkunardóti eins og ég tel upp hér að ofan þá er svo lítið mál að gera einföldustu gjöf fallega og það er eins og með að laga góðan mat – ef hann er ekki borinn fallega fram á borðið nær hann ekki eins til hjartans. Það á að gefa með hjartanu.“

Hver er galdurinn á bak við súkkulaðið sem þú útbýrð á þinn einstaka hátt?

„Þetta er gott dæmi um einfalda en svo gómsæta lausn á gjöf eða bara til að bera fram með kaffinu fyrir gesti. Þarna bræddi ég yfir vatnsbaði venjulegt suðusúkkulaði, setti smjörpappír á form og smurði súkkulaðinu þar á. Gott að vera tilbúinn með það sem á að dreifa yfir svo það festist ofan í súkkulaðinu og í þetta skiptið notaði ég trönuber og pistasíukjarna, gróft saxað, og að síðustu stráði ég saltflögum yfir. Svo jólalegt og nammigott! Ég hef líka notað brjóstykur, þennan hvíta og rauða, og mulið gróft og dreift yfir. Þetta er alveg hrikalega gott!“

Finnst þér fólk leggja meira í það að búa til stemningu með gjöfum núna en áður?

„Já, mér finnst það, sérstaklega þegar við erum að gefa þeim sem eiga allt og vantar alls ekki fleiri hluti á heimilið, þá er gaman að gleðja með einhverju matarkyns sem nýtist strax. Eða jafnvel útbúa heimalagað gjafabréf með loforði um samveru eða eitthvað skemmtilegt. Bara muna að hafa það fallega skreytt – frá hjartanu.“

Hvað langar þig sjálfa í í jólagjöf?

„Ég er hrikalega erfið þegar kemur að jólagjöfum handa sjálfri mér! Er svo léleg að muna hvað mig vantar þegar ég er spurð og mætti alveg vera aðeins praktískari. Kannski verður auðveldara að setja upp óskalista núna þar sem nýtilkomna áhugamálið er fluguveiði og hún kallar á alls konar búnað. Svo elska ég auðvitað að fá eitthvað matarkyns. Æi, maður á eiginlega allt og langar bara mest að allir nái að njóta sín og vera saman.“

Hvað ætlar þú að elda um jólin?

„Síðan við fórum að halda okkar eigin jól ákváðum við að skapa okkar eigin hefðir í mat og fyrir valinu varð hreindýr. Ég ólst upp við strangheiðarlegan lambahrygg og maðurinn minn hamborgarhrygg. Ég geri allt sem ég get til að laga rauðkálið heima þó ég sé jafnvel að láta það malla meðfram öðru á aðfangadag! Svo er það waldorfsalatið og villibráðarsósan sem er dekrað við í marga klukkutíma. Trönuberjasultan er líka ómissandi á borðið. Ris a la mande er svo lagað í stóra skál og borðað á öllum tímum þar til klárast – með karamellusósunni góðu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál