Annþór: Handrukkanir fyrir allt að 40 milljónir króna

Annþór var gestur Sölva Tryggva.
Annþór var gestur Sölva Tryggva. Skjáskot/YouTube

Annþór Kristján Karlsson er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Annþór, sem var í áraraðir þekktur fyrir að vera einn alræmdasti glæpamaður Íslands, lýsir því meðal annars í þættinum hvernig afbrotahegðun hans byrjaði í raun strax í barnæsku.

„Ég endaði á unglingageðdeild 11 ára og eflaust hefði ég fengið allar greiningarnar í bókinni, en það var ekki þekkt þá eins og í dag. En ég var sendur þangað eftir að hafa verið rekinn úr Vesturbæjarskóla fyrir að kýla skólastjórann þegar ég var ellefu ára. Þegar maður horfir til baka er náttúrulega augljóst að hegðun mín var gífurlega óeðlileg strax í barnæsku,“ segir Annþór, sem segist aldrei hafa fengið neinar afleiðingar.

„Ég er sá eini sem heiti þessu nafni á Íslandi og nafnið mitt vekur því strax hugrenningartengsl hjá fólki. Ég man eiginlega ekki eftir mér öðruvísi en að vera byrjaður að brjóta af mér. Mamma mín vildi allt fyrir mig gera og ég fékk aldrei neinar afleiðingar fyrir gjörðir mínar. Ég var strax í barnæsku orðinn rosalega frekur og það var alveg sama hvað frekjudósin vildi, hún fékk það. Ég var byrjaður að berja hina krakkana í sandkassanum á róló af því að ég vildi allar skóflurnar og svo hélt þetta bara áfram þegar ég byrjaði í skóla. Ég var alltaf fljótur til að kýla og lemja krakka af því að ég fékk ekki það sem ég vildi eða eitthvað var ekki eins og ég vildi. Ég man eftir fyrstu skiptunum þegar mamma var kölluð niður í skóla af því að ég hafði lent í slagsmálum og hún sagði bara: „Nei, hann Annþór Kristján gerir ekki svoleiðis,“….og í fyrsta skipti sem löggan kom með mig blindfullan heim á barnsaldri rak mamma lögreglumennina bara í burtu og sagði þeim að vera ekki að angra son sinn og pantaði svo pizzu fyrir mig. Það hefði verið gott fyrir mig að fá einhverjar afleiðingar af gjörðum mínum eftir á að hyggja, en ég veit náttúrulega ekki hvort það hefði komið í veg fyrir að ég hefði orðið glæpamaður. Það hefðu vel getað komið til aðrar ástæður fyrir því að ég hefði farið þessa braut, en þetta hjálpaði í það minnsta klárlega ekki til. En auðvitað get ég engum kennt um það öðrum en sjálfum mér hvernig ég hef lifað lífi mínu.“

Annþór var á tímabili þekktasti handrukkari Íslands. Hann segir að það hafi komið fyrir oftar en einu sinni að lögreglan hafi bent fólki á að leita til hans vegna skulda, þegar úrræði fólks til að innheimta peningana voru ekki til staðar í kerfinu:

„Það hefur alveg gerst já. Algengustu skuldirnar og hæstu fjárhæðirnar í handrukkunum á Íslandi eru tilvik þar sem fólk situr eftir með sárt ennið eftir kennitöluflakk eða annað slíkt í verktakabransanum. Stundum er fólk kannski að fara að missa íbúðina sína eða er með veð hjá foreldrum eftir að hafa verið svikið um háar upphæðir og svo er einhver bara að eyða þeim peningum. Það er auðvitað ekki rétt að handrukka, en kerfið okkar er oft gallað og fólk situr eftir og á bara rétt í eitthvert þrotabú eftir að hafa verið svikið.”

Annþór segist hafa fengið inn á borð til sín gífurlegt magn af beiðnum eftir að hann varð þekktur og oft hafi upphæðirnar verið gríðarlega háar.

„Yfirleitt nennti maður ekki að hreyfa sig mikið fyrir minna en milljón, en þetta gat alveg farið upp í 30-40 milljónir. Það hefur tíðkast hér á landi að handrukkarinn tekur 50% af því sem hann nær í, enda lítur fólk oft á þetta sem tapað fé. Það er ekkert mafíukerfi í þessu á Íslandi eins og fólk virðist oft halda og ekki einhver sérstök stéttaskipting í glæpaheiminum. En eftir að DV fór að fjalla svona mikið um mig í kringum 2005 rigndi inn verkefnum hjá mér.“

Í þættinum gefur Annþór innsýn inn í hugarheim einstaklings sem leiðist á þessa braut í lífinu. Hann segir margt við glæpaheiminn á Íslandi öðruvísi en fólk heldur.

Þáttinn má finna á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál