Eignaðist kærasta og lærði að borða fetaost

Helena Margrét myndlistarkona hefur fengið alþjóðlega athygli á árinu.
Helena Margrét myndlistarkona hefur fengið alþjóðlega athygli á árinu.

Helena Margrét Jónsdóttir myndlistarkona útskrifaðist í fyrra úr Listaháskóla Íslands. Hún málar með olíu á striga þar sem hún blandar saman raunsæi og stafrænum teikningum. Nú vinnur hún að sinni fyrstu einkasýningu sem verður í Hverfisgalleríi.

Hún er með smávegis samviskubit yfir því hversu vel hefur gengið hjá henni á árinu sem hefur kennt henni ýmislegt. 

„Ég er á fullu þessa dagana að mála seinustu verkin fyrir fyrstu einkasýninguna mína sem verður opnuð í Hverfisgallerí 30. janúar 2021. Þess á milli reyni ég að sofa eins mikið og ég get og fá mér stöku jólabjór og mandarínur.“   

Hvernig hefur árið verið?

„Ég er búin að vera með hálfgert samviskubit yfir því en þvert á ástand umheimsins var 2020 mjög gott ár fyrir mig persónulega, mér bárust ótal tækifæri og ég sýndi málverk meðal annars á Kjarvalsstöðum, Mílanó og á Miami. Kórónuveiran hafði lítil áhrif á mig þar sem vinnuaðstaðan mín er lítið stúdíó á fjórðu hæð á Seljaveginum þar sem ég er ein í margar klukkustundir að mála. Þannig gat ég haldið mínu striki að flestu leyti óbreyttu. Ég var í rauninni að „social distance-a“ áður en ég þekkti hugtakið. Svo kynntist ég kærastanum mínum og lærði að borða fetaost og spila borðspil.“

Áttirðu skemmtileg jól?

„Ég er hálfgerður skröggur en þrátt fyrir það fór ég í pils og gerði lakkrístoppa og það var gott og blessað og svo bíður maður bara eftir að það fari að birta.“ 

Hvað vonarðu að árið 2021 beri í skauti sér?

„Ég vona að það verði hægt að skoða meiri myndlist í eigin persónu og mæta á viðburði, jafnvel í útlöndum ef það leyfist, og að geta faðmað suma aftur en haldið fjarlægðartakmörkununum við aðra.“

Hvað ertu að mála?

„Verkin sem ég er að vinna að núna eru að miklu leyti um að líða eins og maður sé skugginn af sjálfum sér þannig að mörg verkanna innihalda hálfgagnsæjar hendur og útlimi sem reyna að gera vel við sig með því að teygja sig í lakkrís, vín eða annað góðgæti en renna í gegn um það. Það verður mikið um drauga.“

Verk eftir Helenu Margréti Jónsdóttur myndlistarkonu.
Verk eftir Helenu Margréti Jónsdóttur myndlistarkonu.

Hvert stefnir þú með verkin?

„Eftir sýninguna í Hverfisgalleríi fer ég að undirbúa aðra sýningu sem verður opnuð í byrjun apríl í Mílanó. Vonandi verður hægt að ferðast af viti og ég get þá verið viðstödd opnunina.“  

Hvað ætlarðu að gera um áramótin?

„Ég verð hjá ömmu og afa eins og öll áramót og tek á móti nýja árinu við Hallgrímskirkju. Svo ætla ég að gera bingóspjald fyrir Skaupið þar sem ég set inn í hvern reit möguleg atriði sem verða tekin fyrir eða hver leikur hvern og reyni svo að fá bingó.“

Strengirðu áramótaheit?

„Mér finnst áramótaheit alltaf sæt tilhugsun óháð því hvort maður nær að standa við þau eða ekki. Þetta árið ætla ég að heita því að prófa fleiri osta, spila fleiri borðspil og hætta að gera ráð fyrir að allir séu dánir ef þeir svara ekki í símann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál