Listin getur haft jákvæð áhrif á lífið

Þórunn Bára Björnsdóttir myndlistarkona segir margt hafa komið upp á …
Þórunn Bára Björnsdóttir myndlistarkona segir margt hafa komið upp á yfirborðið á árinu.

Þórunn Bára Björnsdóttir myndlistamaður segir margt hafa komið upp á yfirborðið í kjölfar kórónuveirunnar. Hún er bjarstýn á nýtt ár, en finnst taka á að lesa fréttir um slæman aðbúnað kvenna og barna sem virðast vera að upplifa mikinn sársauka vegna ofbeldis og innilokunar á tímum kórónuveirunnar. Hún segir listina nálgast fólk á annan hátt en vísindin og oft minna okkur á það sem máli skiptir. 

„Fyrir mér er list skynjun, sem við höfum öll. Líkaminn er eitt stórt skynfæri, nokkuð sem gleymist oft að mínu mati. Mér er hugleikið að færa náttúruna til okkar, vekja athygli á gildi hennar og fegurð. Ég vil lyfta náttúrunni upp og stuðla að því að hún verði okkur í blóð borin og að við hlúum að lífinu í kringum okkur, hvert á sinn hátt. Jörðin er heimili okkar og eina heimilið. Við verðum að varðveita hana með því að stemma stigu við vistkreppunni. Það ættum við að geta með samtakamætti vísinda og lista. Hegðun fólks er þrándur í götu. Þar koma tilfinningar og langanir inn sem listin getur ef til vill haft áhrif á til betri vegar í gegnum skynþjálfun og með því að nálgast manneskjuna á annan veg en vísindin.“

Börnin skipta máli á jólunum

Þórunn er á því að um hátíðirnar eigum við að vera skynsöm og hafa hægt um okkur. 

„Sem móðir og amma er jólahald tengt þakklæti fyrir kynslóðirnar sem gengnar eru og ruddu brautina fyrir velmegun minnar kynslóðar. Stóra jólagjöfin er ævinlega að upplifa gleði og tilhlökkun barnanna í fjölskyldunni, ekki síst á aðventunni við undirbúning jólanna við notalegt föndur og kertaljós sem lýsir upp myrkrið þegar snjólaust er.“

Þórunn er myndlistarkona sem málar blóm og góður sem hún …
Þórunn er myndlistarkona sem málar blóm og góður sem hún sér í náttúrunni.

Þórunn kann að meta frið og ró og að grípa augnablikin sem koma til hennar. Ekki síst þau sem hún skapar sjálf. 

„Ég er þakklát fyrir að vera Íslendingur. Að vera alin upp í góðri fjölskyldu og hafa fengið tækifæri til að mennta mig eins og ég vildi og gat og þannig uppfyllt vonir mínar og óskir. Ég er þakklátust fyrir fjölskyldu mína, uppkomin börnin mín sem ég fékk að láni og nú barnabörnin. Hvert þeirra um sig gefa mér nú tækifæri til að upplifa aftur samveru með börnum, þar sem ég get nú gefið tíma, umhyggju og visku, sem ég gaf mér ekki tíma til með eigin börnum eða hafði þroska til. Það flýgur hver eins og hann er fiðraður og reynir sitt besta á hverjum stað og tíma.“

Maðurinn með völd sem hann þarf að fara vel með

Hvernig hefur árið 2020 verið og hvað hefur reynsla umliðinna mánaða kennt þér?

„Kórónuveiran hefur litað tilveru fólks og reynt á samfélög um allan heim á árinu sem er að líða. Einnig skilið ótölulegan fjölda fólks eftir í sárum. Veiran hefur afhjúpað með afgerandi hætti margvíslegar brotalamir í samfélagsbyggingu þjóða um víða veröld, svo sem félagslegt óréttlæti, margvíslega kúgun, fjárhagslega misskiptingu og misgóða heilbrigðisþjónustu. Það er erfitt að leiða hugann frá þeirri hugsun að á bak við heimsfaraldurinn sé framkoma mannsins. Maðurinn hefur haft afgerandi áhrif á loftslag, gert hlýnun jarðar verri en ella, sem hefur leitt af sér váleg veður, hækkað sjávarmál, fækkað plöntum og dýrategundum. Þá hefur maðurinn einnig víða búið illa að smádýrum og stuðlað að misskiptingu og fátækt margra. Veirufaraldrinum hefur fylgt annar faraldur, sem er fólginn í slæmum aðbúnaði barna og kvenna sem lifa sársauka ofbeldisfullra sambanda og eru oft tengt fíkn.

Ég vona því ekki aðeins að við kveðum veiruna niður, heldur einnig að lífsreynsla ársins sem er að líða leiði af sér breytt gildismat sem bæti heiminn. Velferð barna verði í forgrunni með áherslu á kærleika og hvetjandi umönnun þeirra. Traust barna í æsku skiptir sköpum fyrir manneskjuna alla ævi. Félagslegt jafnræði og möguleikar til menntunar og starfs sporna við ofbeldi, fíkn og hörmungum hryðjuverka. Alþjóðleg lágmarkslaun gerðu mannkyni gott og myndu leiða til jöfnunar á heimsvísu.“

Ætlar að deila hamingjunni með öðrum á nýju ári

Þórunn hlakkar til ársins 2021.

„Ég fagna tilhugsuninni um nýtt ár og vil trúa því að lærdómur líðandi árs fylgi okkur og leiði til uppgjörs og breytinga til góðs. Sagt er að einvera næri sálina og hamingju eigi að deila með fólki. Áramótin mín nú verða lágstemmd þakkargjörð til lífsins. Á nýju ári mun ég leitast við að deila hamingju minni í listinni og lífinu.“

Verkið Surtsey eftir Þórunni.
Verkið Surtsey eftir Þórunni.
mbl.is