Vonar að árið 2020 gleymist sem fyrst

Bryndís Bjarnadóttir vonar að á nýju ári fái hún hugrekki …
Bryndís Bjarnadóttir vonar að á nýju ári fái hún hugrekki til að halda áfram að elta draumana sína.

Bryndís Bjarnadóttir, hefðarstjóri Íslandsdeildar Amnesty International, segir það fulla vinnu að slaka á þessa dagana. Hún ætlar að skrifa sér bréf um áramótin svo veröldin grípi örugglega óskir hennar og væntingar til framtíðarinnar. 

„Ég er að leggja mig fram um að njóta fremur en að vera að hamast í einu og öllu, eins og mér hættir til. Kórónuveiran hefur neytt mig eins og aðra til að hægja á ferðinni og stokka upp í ýmsu sem var löngu tímabært. Annars hafa síðustu vikur og mánuðir kennt mér að þola við í endurtekningunni og fábreytninni, eins og svo mörgum öðrum á tímum veirunnar. Við erum öll orðin að hversdagshetjum!“

Hvernig voru jólin?

„Jólin voru yndisleg með mínum allra nánustu, manninum mínum og dóttur, tengdamóður, stjúpdætrum og tengdasonum og afa- og ömmugullinu okkar, Eldi. Ég hef notið þess að slaka á og lesa bókina Blóðberg, eftir Þóru Karítas, fara í göngutúra í Öskjuhlíðinni með góðri vinkonu, hendast í neslaugina í köldu böðin og hlýða á jólatónleika í sjónvarpinu. Allt er næstum því eins og það á að vera.“

Hvað ætlarðu að gera á áramótunum?

„Áramótunum ætla ég að verja með eldri systur minni, dóttur og manninum mínum í rólegheitum í Drápuhlíðinni þar sem við keyptum dásamlega íbúð fyrir tæpu ári, borða góðan mat, horfa á skaupið og kveðja með blendnum tilfinningum þetta undarlega ár sem er senn að líða. Megi það gleymast sem fyrst!“

Hvað vonarðu að nýtt ár færi þér?

„Ég vona að nýja árið færi mér og öðrum fljótlega veirulaus tíðindi, hestaheilsu, slatta af hamingju, eins og segir í laginu, kjark til að breyta því sem ég get breytt og æðruleysi gagnvart hinu, hugrekki til að elta draumana mína og kraft til að láta gott af mér leiða í mannréttindabaráttunni.“

Hvaða málefni eru þér hugleikin á þessari stundu?

„Geðheilbrigðismálin á Íslandi standa mér mjög nærri en þau eru í miklum lamasessi að mínu viti. Biðlistar eru allt of langir, þjónusta er ekki miðuð að þörfum notenda heldur þurfa notendur að passa í kerfið, samfella í þjónustu er ekki tryggð og ólík kerfi eins og félagsþjónusta og geðheilbrigðiskerfið tala ekki saman. Örfáir einstaklingar fá ágæta þjónustu innan geðheilbrigðiskerfisins þar eð ef þeir hafa unnið í „geðhappdrættinu“ en aðrir mega eiga sig. Þá stendur fólk með þroskahamlarnir eða aðra fötlun sem einnig glímir við geðraskanir algerlega út í kuldanum því geðheilbrigðiskerfið neitar í raun að taka við þessum einstaklingum eða hefur ekki getu til þess.

Við eigum öll, óháð fötlun eða öðrum þáttum, rétt á heilbrigðisþjónustu, rétturinn til heilsu eru skýlaus mannréttindi sem eru varin í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Við höfum líka samþykkt og fullgilt alþjóðlegan samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar með talið fólks með geðfatlanir. Við hljótum að geta girt okkur í brók og tryggt almennilegt geðheilbrigðiskerfi. Annað er hneisa.“

Er eitthvað sem þú gerir alltaf í upphafi árs sem þú ert til í að deila með lesendum?

„Ég hef svo sem ekki átt neinar fastar hefðir í upphafi nýs árs en ætla að bregða út af vananum á nýju ári og skrifa bréf til sjálfrar mín þar sem ég fer yfir allt það sem ég vil að gerist á árinu í þeirri von að þannig standi ég frekar við það sem ég set niður á blað og kasti því sem ég brenn fyrir að verði að veruleika, einnig út í „kosmósið“ í þeirri von að það rati aftur til mín.“

mbl.is