Heitasta óskin að spilakössum verði lokað

Alma Hafsteinsdóttir er viðskiptafræðingur og fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með sérhæfingu …
Alma Hafsteinsdóttir er viðskiptafræðingur og fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með sérhæfingu í spilafíkn. mbl.is/Árni Sæberg

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi leggur sig fram um að gera Ísland að vænlegum stað að búa á fyrir alla þá sem hafa meiðst vegna spilafíknar. Hún segir ótrúlegt að sjá réttlætingu þeirra sem standa í vegi fyrir framþróuninni sem hún segir mikilvægt að verði í samfélaginu til að þessi mál verði tekin föstum tökum. Á miðnætti um áramótin ætlar hún að loka augunum og sjá fyrir sér þegar tilkynnt verður um lokun spilakassa til frambúðar. Sem hún telur einu skrefi nær fallegra samfélagi fyrir okkur öll. 

„Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur í Samtökum áhugafólks um spilafíkn. Þar starfa ég sem formaður ásamt ótrúlega góðum hópi fólks sem leggur hjarta sitt og sál í þau verkefni sem samtökin vinna að. Tilgangur samtakanna er að fræða, upplýsa fólk um málefni spilafíkla og tala fyrir breytingum á spilakassamarkaði. Ég er einnig að búa mig undir lokapróf sem alþjóðlega vottaður spilafíklaráðgjafi. Ég hefði átt að klára í haust en það hefur tafist vegna kórónuveirunnar. Núna í haust byrjaði ég svo í sálfræði við HR og var að klára jólaprófin, sem er hressandi. Auk þessa er ég með stofuna mína, Spilavandi.is, þar sem ég aðstoða spilafíkla við að taka á vanda sínum.“

Þakkát fyrir þá vitundarvakningu sem hefur orðið

Alma segir árið að mörgu leyti hafa verið frábært, þrátt fyrir ástandið.

„Það hefur mikil vitundarvakning átt sér stað í málefnum spilafíkla. Við erum farin að ræða spilakassa málefnalega og kalla samtök, stofnanir og rekstraraðila til ábyrgðar. Svo hef ég verið í námi til að dýpka og auka við þekkingu mína á spilafíkn og það er ótrúlega spennandi og gaman. Ég hef líka, eins og margir, fengið meiri tíma með mínum nánustu og það hefur svo sannarlega hægst á mörgu í okkar samfélagi, sem mér líkar ágætlega.“

Hún segir að vegna veirunnar hafi eðli reksturs spilakassa opinberast. 

„Það þrengdi að í þjóðfélaginu og þá kemur ýmislegt í ljós og það hefur gert það varðandi rekstur spilakassa. Við hjá Samtökum áhugafólks um spilafíkn finnum fyrir því að spilafíklar, ástvinir þeirra og almenningur styður það sem við tölum fyrir. Það er gott að finna það og það hvetur okkur til að halda áfram, að gera meira og betur. Við höfum alltaf lagt upp með að vera heiðarleg og sönn í okkar málflutningi og það er að skila sér. Fólk hefur ekki verið viljugt til að koma fram undir nafni og í mynd, en það er að breytast. Með því að fólk stígi fram og segi sína sögu getum við farið að tala um spilakassa eins og þeir eru í alvöru, en ekki bara sem eitthvert fjáröflunarverkefni sem stjórnir góðgerðarsamtaka geta fært í bókhald, nú eða byggt rosa flottar byggingar og allir kátir.“

Fjölskyldan og ástvinir skipta miklu máli

Það er ýmislegt sem hefur komið Ölmu á óvart á árinu. Þá sér í lagi fólki í ábyrgðarstöðum og réttlætingin sem það notar þegar kemur að fjáröflun og peningum. 

„Það sem kemur mér mest á óvart og mér finnst átakanlegast við málflutning rekstraraðila spilakassa er að formenn góðgerðarsamtaka, rektor Háskóla Íslands og dómsmálaráðherra skuli koma opinberlega fram og réttlæta þessa starfsemi. Því miður held ég að eftir nokkur ár verði þau ummæli svartur blettur á starfsemi þeirra og ráðherratíð, þegar fólk áttar sig í raun á hvaða skaða og hörmungum spilakassar hafa valdið í samfélagi okkar í næstum 30 ár.“

Hvernig réttlætir fólk spilakassana í landinu? Erum við gamaldags í hugsun?

„Ég hef ekki hitt neinn á þessu ári sem réttlætir rekstur spilakassa, aðra en formenn og forstjóra rekstraraðila, já og dómsmálaráðherra, sem er gott. Almenningur virðist vera búinn að átta sig á hversu mikil tímaskekkja þessir spilakassar eru og spilakassar bæta ekki við neinum lífsgæðum; hvorki fyrir notendur spilakassa né samfélagið.“

Hverjir styðja þig í baráttumálum ykkar?

„Fjölskyldan mín og ástvinir styðja mig persónulega en málstað spilafíkla og þeirra sem orðið hafa fyrir áhrifum spilakassa ótrúlega margir og eftir að umræðan jókst og fólk varð upplýstara hefur fjölgað í hópi þeirra sem finnst þetta ósiðlegt og óviðunandi. Fólk er líka meira farið að taka undir málstað spilafíkla og það er ótrúlegt að upplifa það. Spilafíklar hafa hingað til ekki haft neina rödd eða neinn til að tala fyrir því hve skaðlegir og ávanabindandi spilakassar eru, en það hefur orðið breyting á því. Hér áður sögðu rekstraraðilar bara að þetta væri nú allt í góðu og þetta væri aldeilis fín fjáröflun en það er lítill meðbyr með slíkum málflutningi núna.“

Trúir á betri leiðir til fjármögnunar

Hverjir standa fast á móti breytingum?

„Stjórn Rauða krossins, stjórn Landsbjargar, rektor Háskóla Íslands og dómsmálaráðherra. Þó svo löggjafinn veiti leyfið þá er öllum rekstraraðilum spilakassa í sjálfsvald sett hvort þeir nýta leyfið. Þessir aðilar geta alltaf neitað að taka við peningum í gegnum þessa starfsemi. Háskóli Íslands er með flokkahappdrættið og gæti látið það duga og neitað að standa í rekstri spilakassa. Stjórnir Rauða krossins og Landsbjargar gætu neitað að stunda þessa starfsemi og fundið aðrar leiðir og treyst almenningi og þá væru þessi samtök að fá raunverulega frjáls framlög og væru ekki að taka við blóðpeningum. En stjórnir þessara samtaka kjósa þessa leið og hafa gengið mjög harkalega fram í að réttlæta sig.“

Hvað óskarðu þess að gerist á árinu 2021?

„Að spilakössum verði lokað og við förum að takast á við vandann sem bíður okkar í fjárhættuspilum á netinu, ásamt innlendum fjárhættuspilum. Svo þarf að koma á meðferð við spilafíkn þar sem starfsfólk hefur sérþekkingu á spilafíkn og meðhöndlun hennar, bæði fyrir spilafíklana og fjölskyldur þeirra. Þetta þurfa að vera frí úrræði og hluti af heilbrigðisþjónustu!

Einn af mínum draumum, sem stefnir í að muni rætast árið 2021, er að sitja með hópi fagaðila og ræða meðferðarúrræði og hvað sé best að gera til að hjálpa fólki sem misst hefur tökin á fjárhættuspilum. Okkar bíður stórt verkefni í þeim málum, þar sem algjör þöggun hefur ríkt um fjárhættuspil og þeir aðilar sem við helst hefðum talið að ættu að leiða umræðuna hafa hagnast á henni og talað fyrir því að víkka út starfsemi sína með því að koma henni einnig á netið. Það á eftir að koma í ljós á næstu misserum hve mikill fjöldi fólks er að takast á við spilafíkn. Auk þess á sá vandi bara eftir að aukast og við verðum að vera búin undir að hjálpa þeim einstaklingum sem vilja hjálp, sameina fjölskyldur og aðstoða fólk í átt að bata og aftur til baka í samfélagið okkar.“

mbl.is