„Háskólanám ekki eina leiðin“

Hlynur Hallgrímsson.
Hlynur Hallgrímsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlynur Hallgrímsson starfar sem „Senior Data Scientist“ hjá Reykjavíkurborg og leiðbeinandi í gagnavísindum hjá Skýinu – skapandi skóla. Hann er sérfræðingur í gagnaforritun og spálíkanagerð í forritunarmálinu R, en er með heldur óvenjulegan bakgrunn.

Hvaða menntun ertu með og hvert sóttir þú hana?

„Mín formlega menntun er meistaragráða í stjórnmálahagfræði og BA-gráða í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Svo er stór hluti af því sem ég notast við dagsdaglega í vinnunni minni eitthvað sem ég hef lært á netinu í ýmsu netkúrsum og námskeiðum. Ég byrjaði að taka netkúrsa samhliða meistaranáminu og hef ekki hætt síðan. Það eru þá síður eins og Dataquest, Coursera og EdX þar sem ég hef tekið rétt um 50 netkúrsa í tölfræði, R-forritun og gagnavísindum, frá skólum á borð við Harvard, Stanford og Johns Hopkins.“

Kolféll fyrir hagfræðinni

Hvað starfarðu við í dag?

„Það kallast á góðri íslensku gagnavísindi og vélnám, en dagsdaglega eru ensku heitin notuð; „data science“ og „machine learning“. Í grunninn snýst þetta um úrvinnslu gagna, stórra gagnasafna sem og smárra, og hvernig megi hagnýta þau gögn til að bæta þjónustu, taka betri ákvarðanir og almennt auðvelda fólki lífið.“

Hvernig kviknaði áhugi þinn á viðfangsefninu sem þú vinnur við í dag?

„Ég hef alltaf verið óttalegur vandræðagripur í þessu tilliti. Ég hef alltaf sveiflast milli stærðfræðinnar og skapandi greina svo sem myndlistar og tónlistar og langaði einhvern veginn bæði að vinna sem gervigreindarverkfræðingur og listmálari alveg frá því ég var krakki. Ég fór þess vegna í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði á Bifröst eftir að hafa bæði prófað myndlistarnám og svo tekið ár í verkfræði í Háskóla Íslands, án þess að hafa fundið mig. Hugmyndin var að þetta væri svo breitt svið að ég hlyti að finna eitthvað spennandi innan námslínunnar. Það reyndist blessunarlega rétt og ég kolféll alveg fyrir hagfræðinni. Hagfræðin er svo skemmtileg því þar ertu að nota tól raunvísindanna á heimavelli félagsvísindanna. Ég byrjaði að nota tölfræðiforritunarmálið R til að vinna með gögn fyrir verkefni í skólanum og það vatt svo upp á sig að ég færðist alltaf meira og meira í gagna- og tölfræðihlutann. Myndræn framsetning gagna er líka hluti af vinnunni þannig að ég fæ í ofanálag smá útrás fyrir listahliðina.“

Gaman að taka þátt í að gera eitthvað nýtt

Er gaman í vinnunni?

„Alveg fáránlega gaman. Ég er heppinn að vinna í ótrúlega góðu teymi sem vinnur að skemmtilegum verkefnum sem skipta máli. Teymið er tiltölulega nýtt af nálinni þannig að það er fátt sem er skrifað í stein um það hvernig við tæklum verkefni sem stendur. Það er þess vegna sérstaklega gaman, því maður fær að taka þátt í því að móta hvernig starf okkar þróast og bara hvernig svona gagnateymi á að vera.“

Hvaða þýðingu hafa gögn í þínum huga?

„Í rekstri fyrirtækja og stofnana skipta gögn höfuðmáli, því án þeirra erum við bara að giska. Í stærra samhengi finnst mér alltaf mikilvægt að nefna að gögn eru bara tilraunir okkar til að festa niður raunveruleikann í kringum okkur. Það er alveg ótrúlega gaman að gera alls kyns sniðuga hluti með gagnasett, en maður þarf bara alltaf að muna að gögn ein og sér eru aldrei sjálfur raunveruleikinn, heldur kortlagning mannfólksins á honum, með ýmsum tólum. Það að skrásetja hlutina rétt og meðhöndla þær skrásettu upplýsingar rétt er undirstaða gagnsemi upplýsinganna sem felast í gagnasetti.“

Nú varstu hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins og fjármálaráðuneytinu um tíma, hvað kenndu þessi störf þér?

„Fyrst og fremst kenndu þau mér að vera alltaf tilbúinn að kafa djúpt ofan í eitthvað nýtt. Maður veit nefnilega aldrei hvað ólíklegustu viðfangsefni geta verið skemmtileg þegar maður er kominn með góðan skilning á þeim. Sem dæmi get ég nefnt að ég hefði aldrei haldið að ég myndi ala með mér ástríðu fyrir skattahermunum, en síðan er það bara ótrúlega áhugaverður heimur þegar maður er kominn djúpt í hann. Það eru ekki alltaf þessir augljósu hlutir sem reynast vera skemmtilegustu þættir starfsins.“

Háskólanám ekki eina leiðin

Er nám mikilvægt að þínu mati?

„Já það er alveg fáránlega mikilvægt. En mér finnst við oft tala um nám í of þröngum skilningi. Það að fara í háskóla er ekki eina leiðin til að læra eitthvað. Námskeið og sjálfsnám skipta líka ótrúlega miklu máli. Vissulega getur verið erfiðara að miðla því til mögulegra vinnuveitenda að þú sért geggjaður forritari ef þú ert ekki menntaður í tölvunarfræði, en samt er það nú bara þannig að sumir af bestu forriturum sem ég þekki lærðu aldrei forritun í háskóla. Jeremy Howard er til að mynda eitt þekktasta nafnið í heimi gagnavísindanna og frumkvöðull á sviði djúpnáms (e. deep learning). Hann lærði aldrei forritun eða tölfræði í háskóla. Eina formlega menntun hans á háskólastigi er BA-gráða í heimspeki.“

Hvernig heldur þú að framtíðin verði?

„Hvað varðar menntun þá tel ég í það minnsta að mikilvægi fjarnáms, netkúrsa og minni námskeiða verði æ meira eftir því sem fram líða stundir.“

Hvernig hefur árið þitt verið?

„Ég segi nú bara eins og Joe Walsh söng forðum: Ég get ekki kvartað, en samt geri ég það stundum.“

Settir þú þér markmið á nýju ári?

„Já, ég gerði það. Í fyrra keypti ég róðrarvél í Costco. Aðallega af því að hún var á svo frábæru verði og það var bara eitt eintak eftir. Markmiðið árið 2021 er að nota róðrarvélina oftar en ég gerði á síðasta ári.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »