„Ég hef lært mest af því að gera mistök“

Nökkvi Fjalar ætlar að fá það besta út úr árinu …
Nökkvi Fjalar ætlar að fá það besta út úr árinu 2021. Ljósmynd/Aðsend

Nökkvi Fjalar Orrason frumkvöðull setti sér markmið í byrjun árs að klára 52 hluti á árinu og deilir hann árangrinum á instagramsíðu sinni. Nökkvi Fjalar segir ekki um eiginleg áramótaheit að ræða enda trúir hann ekki á hugtök eins og að taka sig á eða að fara í átak. 

„Þetta er ekki áramótaheit og þetta er ekki átak. Þetta er skemmtileg hugmynd sem kunningi minn kom með upp á borð til mín fyrir áramót. Hann heitir Jakob og gerir 52 hluti á hverju ári og er búinn að gera síðastliðin ár. Ég er mikið í markmiðapælingum og set mér markmið fyrir árið. Hann skoraði á mig að gera það sama og hann er búinn að gera síðastliðin ár og velja mér 52 hluti sem ég ætla að gera á árinu,“ segir Nökkvi Fjalar um uppátækið. 

Ætlar að flytja til útlanda

Markmiðin eru mismunandi og miserfið í framkvæmd. Sum eru af persónulegum toga en önnur snúa að starfsferlinum. Nökkvi Fjalar setti setti sér markmiðin sjálfur, fékk hjálp hjá vinum og ætlar að fá fylgjendur sína til aðstoða sig. 

„Ég hef lengi ætlað mér að læra að gera aftur-á-bak-heljarstökk. Ég æfði fótbolta þegar ég var yngri en er ekki með neinn fimleikabakgrunn. Ekki einu sinni stigið fæti inn í fimleikasal en aftur-á-bak-heljarstökk hefur blundað lengi í mér,“ sagði Nökkvi Fjalar um eitt af markmiðum sínum. Hann stefnir á að vera búinn að æfa fimleikatrixið í febrúar með aðstoð fagmanns.

Eitt ansi stórt markmið á listanum er að flytja til útlanda. Nökkvi Fjalar segir það hafa verið lengi í bígerð og er markmiðið að gera þennan draum að veruleika í ár.

„Ég er búinn að vinna í því allt 2020. Þá var ég að vinna í því að koma mér þannig fyrir að ég gæti farið út. Það mun koma í ljós hvort ástandið í heiminum leyfir það að ég geti farið út og hvernig það verður. Það er markmiðið að fara utan með starfsemina,“ segir Nökkvi Fjalar, sem rekur fyrirtækið Swipe. Undir hatti Swipe er Swipe Media sem snýst um framleiðslu á samfélagsmiðlum. Fyrirtækið aðstoðar meðal annars áhrifavalda til að komast á markað erlendis.

Nökkvi Fjalar.
Nökkvi Fjalar. Ljósmynd/Aðsend

Markmiðasetning verður auðveldari

Öll 52 skrefin á listanum eru lítil skref í átt að stærra markmiði. Í hans tilviki snýst þetta um að fá sem mest út úr árinu 2021 og hjálpa honum að gera árið 2021 að besta ári lífsins. Listinn er líka gerður til þess að hvetja aðra til þess að láta vaða eins og hann gerði fyrir nokkrum árum.

„Ef einhver hefði komið upp að mér fyrir fjórum árum og sagt mér að ég væri að fara að gera það sem ég er að gera núna hefði ég ekki trúað því. Að ég væri setja mér 52 markmið, að fasta í heila viku og flytja til útlanda. Já gamli, hvert ertu kominn? Hvað ertu að gera núna?“ segir Nökkvi Fjalar og hlær. „Það eru fjögur og hálft ár síðan það byrjaði að ganga vel í mínu fyrsta fyrirtæki. Þá fer ég að setjast niður og hugsa hvert mig langar að fara með þetta.“

Nökkvi Fjalar segir að eitt af því sem hann geri til að ná markmiðum sínum sé að skrifa þau niður. Markmið verða þó ekki markmið að hans mati fyrr en það er komið ákveðið plan. „Markmið er bara ósk ef það er bara skrifað einu sinni á blað og aldrei pælt í aftur. Ég set mér markmið og geri plan og vinn í þeim á hverjum einasta degi.“

Í dag líður ekki sá dagur sem Nökkvi Fjalar hugsar ekki um markmiðin sín en það var erfiðara þegar hann var að temja sér breyttan hugsunarhátt.

„Fyrst var þetta rosa mikil vinna fyrir mig að pæla í þessu, koma þessu í rútínu, en svo verður þetta bara að venju. Það tekur 80 prósent af orku geimflaugar að koma sér upp frá jörðinni, bara fara af stað. Restin er kannski ekki auðveld en þægilegri, þetta er komið í venju.“

Mistök eru lærdómsrík

Nökkvi Fjalar hefur ekki komist á þann stað þar sem hann er í dag án þess að gera mistök. Eitt af því sem hann ætlar að framkvæma í ár er einmitt að deila mistökum.

„Ég hef lært mest á því að gera mistök. Ég er bara hér í dag út frá því sem ég hef gert áður og stór hluti af því er mistök. Mín stærstu mistök voru hræðslan við að missa af (e. fear of missing out), þar sem maður er að grípa öll tækifæri sem manni gefst. Maður er allt í einu sokkinn inn í endalaust af verkefnum. Ég er framkvæmdaglaður en mín helstu mistök voru að taka allt of mikið að mér þannig að ég réð ekki við allt sem ég ætlaði mér að gera. Á sama tíma er það ótrúlega lærdómsríkt og gott ferli af því nú veit ég hvar mörkin eru. Hvað ég get tekið að mér og hvað ekki,“ segir Nökkvi Fjalar. Hann tekur nú að sér færri verkefni en áður en hann elskar virkilega að fást við öll þau verkefni sem hann fæst við í dag. Hann segir ekki gott að taka ákvarðanir út frá ótta við að missa af einhverju eins og hann gerði áður.

Ef Nökkvi Fjalar nær ekki að framkvæma öll 52 atriðin er það allt í lagi, listinn getur breyst. Hann segir eðlilegt að markmið og langanir breytist svo lengi sem við lifum og lærum. Nökkvi Fjalar tekur nám sem dæmi. Hann er talsmaður þess að hætta í námi í stað þess að gera eitthvað án ástríðu. Eitt er víst; listi Nökkva Fjalars mun ekki breytast vegna hræðslu eða leti, rökin verða að fylgja. 

mbl.is