Missti stjórn á neyslunni og sneri við blaðinu

Dagbjört Rúriksdóttir er búin að vera edrú í tæpa 14 …
Dagbjört Rúriksdóttir er búin að vera edrú í tæpa 14 mánuði. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarkonan Dagbjört Rúriksdóttir hefur hvorki snert áfengi né fíkniefni síðan 2. desember 2019 og segir lífið hafa aldrei verið eins gott. Í dag er hún á fullu í tónlistinni og hefur gefið út sex lög. Hún er með fjögur lög í vinnslu og þrjú tónlistarmyndbönd sem hún stefnir á að gefa út á næstu mánuðum. 

Dagbjörtu, sem gefur út tónlist sína undir listamannsnafninu DIA, finnst hún tjá sig best í gegnum lögin sín og notar hún reynslu sína til að semja lögin.

„Ég gafst upp eftir að ég hafði misst stjórn á neyslunni um helgar og lífið snerist bara um að vinna fyrir helginni, klára mig þá og bíða svo eftir næsta „viðeigandi“ tækifæri til að gleyma aftur.

Þetta hefur verið alls konar og ég hef klárlega ekki hætt að gera mistök eða sýnt fram á mikinn breyskleika en í fyrsta sinn á ævi minni er ég meðvituð um það og hef þar af leiðandi tækifæri til að gera betur og betur á hverjum degi. Fyrir mér er það gjörsamlega ómetanlegt og ég þakka kærkomnum samtökum fyrir það sem leiddu mig að sponsor sem leiddi mig að sporavinnu, fundum á hverjum degi með fólki sem skilur mig því jú, andstæðan við fíkn er tenging,“ segir Dagbjört. 

Dagbjört öðlaðist trú á Guð þegar hún varð edrú.
Dagbjört öðlaðist trú á Guð þegar hún varð edrú. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir það besta við nýja lífið að hún hafi orku til að framkvæma hlutina og láta drauma sína rætast. 

„Að geta unnið markvisst að draumum mínum og skilað því sem mig langar að skila frá mér á meðan ég er hérna og þá sérstaklega tónlistarlega og viskulega séð. Að vilja líka bara vera til. Það er mér allt, að þurfa ekki að flýja sársaukann lengur og deyfa mig frá honum. Nýta hann frekar í tónlistina mína og hafa frekari samkennd í tengslum við aðra. Að sársaukinn sé ekki lengur til einskis,“ segir Dagbjört.

Dagbjört fann líka trúna á Guð þegar hún varð edrú og trúir á mátt sem er ofar henni. 

„Það sem stendur upp úr á þessum tíma er andlega vakningin sem fékk mig til að öðlast trú á Guð. Það hefur bjargað lífi mínu allra mest. Að trúa á mátt ofar öllu sem er á hæstu tíðninni. Þessi fullkomni kærleikur, ást, friður, fyrirgefning og náð sem kemur til mín svo lengi sem ég er opin fyrir Honum,“ segir Dagbjört. 

Dagbjört tók þátt í Miss Earth á síðasta ári.
Dagbjört tók þátt í Miss Earth á síðasta ári. Ljósmynd/Aðsend

Á síðasta ári tók Dagbjört einnig þátt í fegurðarsamkeppninni Miss Earth fyrir hönd Íslands. Þetta var ekki fyrsta fegurðarsamkeppnin sem hún tók þátt í en hún var í Ungfrú Ísland árið 2016. 

„Miss Earth var skemmtileg reynsla og áminning um að huga betur að umhverfinu. Það var æði að fá tækifæri til að tala um það opinberlega. Svo hef ég alltaf gaman af því að módelast og skína. Það fór bara vel í mig og ég ákvað að vera með þegar ég var spurð og hugsaði: „af hverju ekki?“ Ég hugsa að ég einbeiti mér aðeins að tónlistinni héðan í frá samt og mögulega leiklist líka,“ segir Dagbjört.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál