Þetta gerði Þórdís þegar hún missti vinnuna

Þórdís Jóna Jakobsdóttir missti vinnuna í Covid og ákvað að …
Þórdís Jóna Jakobsdóttir missti vinnuna í Covid og ákvað að læra að verða markþjálfi. Ljósmynd/Fanney Dóra Veigarsdóttir

Þórdís Jóna Jakobsdóttir, markþjálfi, missti vinnuna eins og svo margir í Covid. Hún ákváð þá að nú væri tækifæri til að gera eitthvað fyrir sjálfa sig og stað þess að sökkva sér í eymd og volæði ákvað hún að læra að verða markþjálfi.

„Það að vera 48 ára atvinnulaus kona er ekki draumastaða, þar sem æskudýrkun er mikil á vinnumarkaðinum og virðist að mörgu leiti eins og maður sé runninn út, þegar við erum akkúrat á hátindi starfsaldursins segi ég,“ segir Þórdís Jóna í viðtali við Smartland. 

Þórdís hefur brennandi áhuga á fólki og öllu því sem snýr að persónulegum vexti mannsins. Hún telur að nú séum við að fara inn í tíma þar sem þörfin fyrir fólk til að skoða sig og vinna í sér hafi aldrei verið meiri. 

„Ég hef sterkar skoðanir á að það þurfi að koma markþjálfun meira inn í áfengis- og vímuefna meðferðum landsins, þar sem ég þekki til af eigin reynslu þá vantar að mínu mati að gefa fólki sem er að vinna í sínum málum meiri trú á framhaldið, það er til lítils að verða edrú t.d ef þú átt enga framtíðarsýn enga von. Ég trúi á að koma markþjálfun meira inn í skólakerfið styðja við unglingana okkar kenna þeim að skapa sína eigin mynd, samanber bara umfjöllun í vetur um af hverju krakkar fari ekki í iðnnám þá kom svo skýrt fram að krakkar heyra ekki í sjálfum sér bara fjöldanum og við þurfum að kenna þetta,“ segir Þórdís.

Þórdís byrjaði á dögunum með hlaðvarpsþáttinn Æðruleysið sem er framleitt af forvarnarhópnum Þú skiptir máli. Þar kemur hún til með að ræða sjálfsvirðingu, markþjálfun, frelsi frá fíkn, trú, kærleika og von. „Ég ætla að tala um allt sem snýr að mannlegum vexti, forvörnum, styrk og reyna eftir fremsta megni að gera það skemmtilega.“ Þórdís mun ekki vera ein í þáttunum en hún mun fá fólk til sín til að spjalla um þessi málefni.

Sem fyrr segir hefur Þórdís mikinn áhuga á að koma markþjálfun betur inn í skólastarfið til að skapa heilsteyptari einstaklinga sem vita hvað þeir vilja fá út úr lífinu. 

„Það er munur að vinna með kynjunum sem er líka eðlilegt við erum ekki eins. Ég er mikið að skoða konur sem eru að hefja seinni hálfleik, ef svo má segja, og þar eru við oft mjög týndar svo það er mjög spennandi. Ég hef líka verið að skoða strákana okkar sem mér finnst gríðarlega áhugavert. Við erum með vanda gagnvart strákum í samfélaginu sem við verðum að gefa athygli. Við verðum sem samfélag að hætta að reyna að troða öllum í einhverja kassa og fara að hugsa um einstaklinga hvort kyn sem það er. Ég geri mér grein fyrir að þetta er ekkert auðvelt mál við erum að tala um fjöld og allt það en við verðum að fara að finna leiðir til að styrkja einstaklinga ekki rífa niður,“ segir Þórdís. 

Hægt er að nálgast þættina á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is