Óvenjulegar aðferðir Jobs skiluðu árangri

Steve Jobs fór nýjar leiðir í leik og starfi.
Steve Jobs fór nýjar leiðir í leik og starfi. REUTERS

Steve Jobs stofnandi Apple hugsaði afar vel um heilsuna og borðaði hollan mat. Naz Beheshti var aðstoðarkona hans í eitt ár eftir háskóla og ljóstraði upp venjum hans í viðtali við New York Post en hún er að gefa út bók um heilsu sem byggist meðal annars á venjum Jobs. 

Jobs borðaði mikið af ávöxtum og grænmeti. „Hann elskaði lárperur og epli,“ sagði Naz Beheshiti. Hann borðaði líka mikið af einföldu sushi en sleppti sojasósu, súrsuðu engiferi og wasabi. „Ég færði honum avakadórúllur næstum því á hverjum degi. Hann valdi grænmeti og mjög léttan mat.“

Beheshti minnist þess að hafa einu sinni fært Jobs hafraklatta með rúsínum úr sælkerabúðinni Whole Foods í hádeginu. Að hennar mati var um að ræða hollan bita en hún fann hafraklattann seinna í ruslinu. „Mín hollusta var rusl Steves.“

Það eru tæp tíu ár síðan Jobs lést af völdum krabbameins. Beheshti trúir enn á lífsstíl fyrrverandi yfirmanns síns. Í bókinni Pause. Breathe. Choose: Become the CEO of Your Well-Being má finna ýmislegt sem Jobs vandi sig á. Nú er heilsa á allra vörum en þegar Jobs byrjaði á því að hámarka orku sína þótti það undarlegt. Beheshti segir að Jobs sé enn álitiinn gúrú í þessum heimi. 

Steve Jobs.
Steve Jobs. AFP

Jobs lærði af búddamunkum og fastaði í nokkra daga í röð áður en það komst í tísku. „Steve vissi að hann þyrfti að hugsa um sjálfan sig til þess að viðhalda orkunni og einbeitingunni sem hann þurfti fyrir Apple til þess að ná þeim hæðum sem það gerði,“ sagði Beheshiti. 

Venjuleg manneskja fer kannski ekki í eins vegferð en það er þó eitt og annað sem hún getur lært af Jobs fyrir utan holla mataræðið. Hann var til dæmis með einkaþjálfara þrisvar í viku. Hann hljóp og þá daga sem hann var ekki með þjálfara teygði hann á vinnutíma. 

Jobs var að þróa ipodinn þegar Beheshti vann fyrir hann. Hann forðaðist skrifstofuna og vinnuherbergi eins og hann gat. Hann kaus frekar að fara í göngutúra, gekk og talaði á fundum eða fór út í náttúruna í lautarferð. Beheshti mælir með að leika þetta eftir. Aðferðin leysir sköpunargáfuna úr læðingi. Það hjálpar einnig að taka upp hugmyndir á símann til þess að gleyma þeim ekki.

mbl.is