Láttu þig langa í það sem þú hefur

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Fólk upplifði mikil vonbrigði í liðinni viku þegar í ljós kom að Íslendingar yrðu ekki notaðir sem tilraunadýr í bóluefnaheiminum. Forréttindafólk var farið að sjá sæng sína upp reidda eða réttara sagt sjá sjálft sig fyrir sér sólbakað og sællegt í suðurhöfum (með risakampavínsflösku). Hinir, venjulega fólkið í landinu sem hefur kannski misst vinnuna, vonuðu að með bóluefnabingóinu myndu lífsgæði aukast.

Ég skil alveg þessi vonbrigði en minni á að lífið er ekkert búið þótt þetta hafi farið svona. Fólk getur eflst í mótlæti og hefur oft og tíðum gott af því að endurhugsa hlutina til þess að ná fram einhvers konar bestun á eigin tilveru.

Ég veit hvernig er að missa vinnuna en það gerðist tvisvar fyrir meira en áratug. Í fyrra skiptið var ég í fæðingarorlofi þegar tímaritið sem ég ritstýrði var selt til samkeppnisaðilans. Fyrirtækið sem ég vann hjá bauð mér reyndar starf sem mér fannst ekki sambærilegt fyrra starfi og þess vegna hafnaði ég því. Stuttu seinna fékk ég reyndar starf en játa alveg að það var ekki draumastarfið. Rúmu ári seinna var ég aftur rekin þegar efnahagslífið fór á hliðina vegna bankahrunsins.

Þá var staðan aðeins snúnari vegna þess að það var ekki eins og það væri eitthvað hægt að velja úr draumastörfum. Á þessum tíma stóð fólk í röð fyrir utan Vinnumálastofnun til að sækja um atvinnuleysisbætur. Það er áfall fyrir fólk sem hefur alla sína ævi unnið mikið og verið jafnvel í aukavinnu og aukaaukavinnu að standa uppi atvinnulaust. Það er ekki hægt að segja við fólk í þessari stöðu að það eigi bara að standa í lappirnar og láta drauma sína rætast. Það lætur enginn drauma sína rætast þegar hann á ekki fyrir mat.

Það sem ég lærði hins vegar af því að vera rekin tvisvar er að ég komst að því hvað ég vildi nákvæmlega gera við líf mitt. Ég vildi koma með birtu og yl inn í líf fólks með skemmtilegum fréttum af fólki. Mig langaði að taka viðtöl við fólk með sögu og geta skrifað linnulaust um mín helstu áhugamál. Þannig varð Smartland til og hefur síðan þá bara vaxið og dafnað.

Frá því Smartland fór í loftið hef ég staðið og fallið með því sem ég geri á hverjum degi. Það er mjög langt frá því að hafa alltaf verið auðvelt en ég hef gert það því ég hef ástríðu fyrir vinnunni. Ef mér væri sama um vinnuna þá væri Smartland ekki að halda upp á 10 ára afmæli sitt í maí. Á þessum tíu árum hef ég oft verið spurð að því hvert sé mitt plan B. Ég hef aldrei getað svarað þeirri spurningu því ég hef aldrei verið með plan B. Ég trúi því að fólk sem er alltaf með plan B sé ekki að vinna af fullri ákefð. Ef við erum alltaf að hugsa um að við gætum verið að sigra heiminn annars staðar þá náum við ekki hámarksárangri í því sem við gerum. Þú þarft að vera ánægð/ur með hlutskipti þitt því þannig getur þú gert betur og vaxið. Svo er ágætt að minna sig á að þakka fyrir það sem við höfum og klappa sér á bakið. Eða eins og Héðinn Unnsteinsson, kaffivinur minn og höfundur bókarinnar Vertu úlfur, segir í Lífsorðunum 14: „Láttu þig langa í það sem þú hefur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »