Kófið breytti öllu en opnaði nýjar dyr

Kata Vignis er menntaður dansari en byrjaði nýlega með hlaðvarp.
Kata Vignis er menntaður dansari en byrjaði nýlega með hlaðvarp. Ljósmynd/Anna Margrét

Katrín Birna Vignisdóttir eða Kata Vignis eins og hún er kölluð er 23 ára hlaðvarpsstjórnandi á Akureyri. Kata kláraði BA-gráðu í dansi í fyrra í Barcelona en heimsfaraldurinn breytti áætlunum hennar um flekari landvinninga. Í nóvember flutti hún til Akureyrar þar sem hún stjórnar hlaðvarpsþættinum Farðu úr bænum.

Kata er uppalin í Hörgársveit en flutti 15 ára á heimavistina á Akureyri til þess að stunda nám við Menntaskólann. Þegar Kata var 17 ára fór dansinn að toga svo sterkt í hana að hún flutti ein til Reykjavíkur og hóf nám við Listdansskóla Íslands auk þess að klára stúdentspróf frá MH. 

„Þaðan flutti ég svo út til Barcelona til að taka BA-gráðu í dansi sem ég útskrifaðist með í júní 2020. Í framhaldi af því flutti ég til Brussel og svo er maður mættur heim á eyrina núna. Ég myndi kannski ekki segja að ég væri komin til að vera á Akureyri. Planið er að flytja til Reykjavíkur vegna þess að flest tækifærin í tengslum við það sem mig langar að gera eru þar.“

Kórónuveiran setti strik í reikninginn

„Það var kannski ekki beint planið að flytja heim eftir að ég útskrifaðist enda reyndi ég að fylgja upphaflega planinu og flutti til Brussel síðastliðið haust. Ég átti tvo mjög góða mánuði þar en svo kom útgöngubann í byrjun nóvember og þá ákvað ég að fara heim. Reyndar kom ég bara heim með eina ferðatösku svo að klæðaburður minn hefur kannski verið frekar frumlegur síðustu mánuði en það er bara ágætt, það verður eflaust gaman að fá að sjá allt dótið sitt aftur því maður er svo fljótur að gleyma öllu sem maður á. Þetta verður eins og að fá marga pakka alla í einu.

Ég er ánægð að vera komin heim til Íslands og líður rosalega vel hérna. Það er til dæmis óvíst að ég hefði byrjað með þetta hlaðvarp ef ég hefði ekki flutt heim og svo hafa líka komið upp mörg óvænt en skemmtileg tækifæri í kringum dansinn sem ég er mjög þakklát fyrir. Til dæmis er ég að dansa og semja fyrir sýningu sem verður opnuð í Kringlunni núna í lok mars sem ég er mjög spennt fyrir.“

Kötu er margt til lista lagt.
Kötu er margt til lista lagt. Ljósmynd/Aðsend

Kata segist vera tilbúin að takast á við það hark sem fylgir draumnum um dansinn. Hún vakni á hverjum degi með það í huga að komast einu skrefi lengra en í gær.

„Ég bjóst aldrei við því að útskrifast og fá einhvern svaka samning upp í hendurnar. Þá hefði ég nú valið mér annað starfssvið. Ég held nefnilega að sumt fólk vanmeti stundum dansara, eins og við vitum ekki hvað við erum að fara út í og sumir detta í það að vorkenna manni af því að þetta er svo óöruggur starfsvettvangur. Ég held nú að það sé algjör óþarfi að vorkenna nokkrum sem valdi það að starfa við það sem hann elskar mest. Ég vissi upp á hár að þetta yrði ekki auðvelt en ég reyni eftir bestu getu að fara eftir ráði sem ég heyrði um daginn; að stefnufesta sé lykillinn að árangri, og það hefur hjálpað mér að halda áfram þegar það koma erfiðir dagar.

Ég stend hvorki né fell með dansinum. Þó svo að hann sé vissulega upphafið að þessu öllu saman hjá mér hef ég líka gríðarlegan áhuga á mörgu öðru. Til dæmis elska ég að vera með hlaðvarp núna og síðan langar mig að læra meira um þáttagerð fyrir sjónvarp. Ég held að það sem hjálpar mér hvað mest sé að ég trúi því svo innilega að ef ég held áfram að vinna, harka og gera alltaf mitt besta þá bara hljóti þetta að reddast.“

Hvernig er að vera ung kona á Akureyri?

„Það er bara ljómandi. Akureyrarbær hefur gefið mér mörg tækifæri í gegnum tíðina sem ég er mjög þakklát fyrir. Það er ekki sjálfsagt að vera með svona bæ á bak við sig sem er til í að styðja við allar hugmyndir sem maður fær og treystir manni fyrir ýmsum verkefnum. Lífið á Akureyri er mjög gott en ég hugsa að ég muni flytja til Reykjavíkur til að vera nær öllu sem er að gerast og ferðast þá frekar norður í einhver verkefni.“

Hlaðvarp góð afsökun til að kynnast fólki

Upphaflega ákvað Kata að búa til hlaðvarpsþætti af því hana langaði að læra að taka viðtöl en fann ekki námskeið á Íslandi.

„Ég bjóst kannski ekki endilega við því að gefa út alla fyrstu þættina vegna þess að ég vissi að ég þyrfti eflaust hellings æfingu en síðan ákvað ég bara að láta vaða. Ég æfist með hverjum þættinum og mér finnst það ekkert smá gaman. Síðan er þetta hlaðvarp líka bara góð afsökun til að kynnast áhugaverðum einstaklingum, ég hefði aldrei fengið að kynnast þessu frábæra fólki ef ég hefði ekki bara hringt í það og spurt hvort það vildi spjalla.“

Kata Vignis er með hlaðvarpið Farðu úr bænum.
Kata Vignis er með hlaðvarpið Farðu úr bænum. Ljósmynd/Unnur Anna Árnadóttir

Kata segir að það hafi verið mikill höfuðverkur að finna gott nafn á þáttinn. Eftir miklar vangaveltur stakk félagi hennar upp á nafninu Farðu úr bænum.

„Það er nú ekkert svakalegt á bak við þetta nafn annað en bara að vitna í það að ég er að ræða við fólk utan höfuðborgarsvæðisins. Það eru nú þegar til svo mörg snilldarviðtalshlaðvörp sem eru tekin upp á höfuðborgarsvæðinu svo mér fannst skemmtilegt að bæta við einu sem væri tekið upp á Akureyri.“

Gestir Kötu hafa verið allt frá listamönnum yfir í fyrirlesara á borð við Öldu Karen. Í næstu viku mætir Ari Ólafsson, söngvari og fyrrverandi eurovisionfari, til Kötu. Það sem hefur komið henni einna mest á óvart er hversu þægilegt henni finnst að spjalla við viðmælendur og hvað allir eru til í að koma í viðtöl þótt þeir hafi ekki hugmynd um hver hún er.

„Svo fannst mér reyndar eitt sérstaklega áhugavert sem Alda Karen nefndi. Hún sagði að í mörgum gagnkynhneigðum samböndum í kringum sig ynnu konurnar flestöll heimilisstörfin og sæju að mestu leyti um börnin. Ég vissi auðvitað að það var yfirleitt þannig hjá kynslóðinni á undan okkur en ég hélt að þetta væri öðruvísi hjá okkar kynslóð vegna þess að af persónulegri reynslu þá tengi ég ekkert við þetta. Mér þætti gaman að gera einhvers konar könnun eins og við töluðum um í lok þáttar til að komast að því af hverju þetta sé og athuga hvort fleiri tengja við þetta.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþættina Farðu úr bænum á hlaðvarpsvef mbl.is.

View this post on Instagram

A post shared by Kata Vignis (@katavignis)

mbl.is