Hefði Júdasi verið boðið?

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Það runnu á fólk tvær grímur á dögunum þegar í ljós kom að fólk gæti ekki sleikt hurðarhúna í partíum um páskana. Ekki heldur haldið risastór matarboð og ekki boðið Adda, Palla og Bergþóru í bröns. Við þyrftum að læra að haga okkur í eitt skipti fyrir öll og dusta rykið af hegðunarreglum í samkomubanni. Við ættum að vera heima hjá okkur, láta lítið fyrir okkur fara og vera til friðs. Hversu ömurlega glatað er það?

Eitt er að það megi bara tíu manneskjur koma saman, en líklega var mesta sjokkið að við værum að ganga í gegnum páska númer tvö þar sem ekki yrði hægt að leika síðustu kvöldmáltíðina eftir í heimahúsi. Við það borð voru nefnilega ellefu lærisveinar plús Jesús.

Þegar ég var stelpa var ég sorgmædd yfir örlögum Jesú og skildi eiginlega ekki hvers vegna við værum að fagna páskunum með veislumat og súkkulaði. Hver neglir í gegnum lófann á annarri manneskju og hengir hana upp á kross? Um 2.000 árum síðar eru allir búnir að gleyma þessu og líta á páskana sem besta frí ársins. Miklu betra en jólafrí og kannski jafnvel betra en sumarfrí. Í jólafríinu nýtur sín enginn því það kallar á svo mörg boð, svo mikla eldamennsku og stúss að enginn hefur tíma til að vera hann sjálfur. Sumarfrí er náttúrlega snilld en fólk sem á mikið af börnum kemur oft þreyttara úr sumarfríi því það er svo krefjandi að vera með sínum nánustu allan sólarhringinn. Ætli páskarnir séu ekki besta fríið því þá leyfist okkur að vera bolirnir, sem við erum, í friði. Getum legið fyrir framan sjónvarpið í marga klukkutíma og borðað súkkulaði í rúminu án þess að einhver geri athugasemd og bendi okkur á að við séum að skrapa botn mannlegrar tilveru.

Sagt er að maðurinn finni sér alltaf eitthvað til að líða illa yfir. Ef það væri ekki kórónuveira þá væri bara eitthvað annað sem við værum brjáluð yfir. Við döfnum ekki og vöxum nema við förum í gegnum áföll og krísur. Fólk eflist við hverja raun og eftir þetta leiðindaveirutímabil munum við líklega kunna að meta lífið betur.

Ef þú veist ekkert hvað þú átt að gera um páskana mæli ég með því að þú dveljir innra með þér. Gerðu lista yfir það sem lyftir tilveru þinni á hærra plan. Svo skaltu gera lista yfir allt sem dregur þig niður og gerir líf þitt leiðinlegra. Svo skaltu flokka fólkið í kringum þig frá innsta hring til ysta hrings. Áttaðu þig á því hver myndi raunverulega standa með þér á ögurstundu og hver myndi hugsanlega svíkja þig við fyrsta tækifæri.

Ef Jesús hefði verið búinn að greina lærisveinana og flokka þá niður í innsta hring og ysta hring er ekki víst að Júdas hefði brugðist honum. Honum hefði líklega ekki verið boðið til síðustu kvöldmáltíðarinnar því hann hefði verið kominn í ysta hring. Spáið í það!

Gleðilega páska!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál