Davíð Helgason með Björgólfi á lista Forbes

Davíð Helgason og Björgólfur Thor Björgólfsson eru einu Íslendingarnir á …
Davíð Helgason og Björgólfur Thor Björgólfsson eru einu Íslendingarnir á lista Forbes. Samsett mynd

Bandaríska tímaritið Forbes metur nú auðæfi fjárfestisins Davíðs Helgasonar á einn milljarð bandaríkjadala. Davíð er því kominn inn á lista tímaritsins yfir milljarðamæringa þessa heims. Davíð er ekki eini Íslendingurinn á listanum því viðskiptamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið á honum um árabil.

Davíð er í sæti 2.674 á listanum. Davíð er meðstofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software en það var stofnað árið 2004 í Danmörku. Margir stærstu tölvuleikjaframleiðenda heims reiða sig á hugbúnað Unity.

Unity Software var skráð á hlutabréfamarkað í september á síðasta ári en Davíð á tæp 4% í fyrirtækinu. Á þeim tíma sem liðinn er frá því fyrirtækið var skráð á hlutabréfamarkað hafa auðæfi Davíðs aukist umtalsvert. Davíð starfaði sem framkvæmdastjóri á árunum 2003 til 2014 en í dag er hann fjárfestir og situr í stjórn Unity. 

Á síðasta ári keypti Davíð eitt glæsilegasta hús landsins, Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi. Húsið var áður í eigu Skúla Mogensen. 

Björgólfur er í 1.444. sæti á lista Forbes og eru auðæfi hans metin á 2,2 milljarða bandaríkjadala. Fyrir efnahagshrunið 2008 voru auðæfi hans metin á 3,5 milljarða dala.

mbl.is