Klara hefur grætt 15 milljónir á nektarmyndum

Klara Sif Magnúsdóttir hefur þénað um 15 milljónir á Onlyfans …
Klara Sif Magnúsdóttir hefur þénað um 15 milljónir á Onlyfans síðan í ágúst 2020. Skjáskot/Instagram

Klara Sif Magnúsdóttir hefur grætt 15 milljónir frá því hún hóf að selja djarfar myndir af sér á miðlinum Onlyfans. Klara var gestur Eddu Falak og Fjólu Sigurðardóttur í hlaðvarpsþáttunum Eigin konur. Í þættinum ræðir Klara um hvernig hún byrjaði að skapa efni fyrir samfélagsmiðilinn TikTok og af hverju hún fór að selja myndir af sér í gegnum OnlyFans. 

„Ég bjóst ekki við því að græða svona mikið á neinu. Ég bjó til Onlyfans-aðgang í fyrra í ágúst. Ég er þannig týpa að ég nenni aldrei að vera í neinum feluleik svo ég póstaði þessu á Instagram,“ sagði Klara. Daginn eftir var hún kom með 150 áskrifendur að rásinni sinni. Flestir fylgjendur hennar eru íslenskir karlmenn. Henni fylgja líka erlendir karlmenn og konur.

Onlyfans er í grunninn vettvangur þar sem hver sem er getur selt myndir, myndbönd, tónlist eða list á öruggan hátt. Undanfarin ár hefur það þróast svo að fólk selur nektarmyndir og myndbönd af sér þar í gegn. Þar getur fólk keypt sér áskrift að rás hjá fólki. 

Áskriftin að rásinni hennar Klöru kostar 20 bandaríkjadali eða um 2.500 íslenskar krónur. Síðan getur hún selt einstaka notendum sérstakar myndir eða myndbönd sem þeir greiða aukalega fyrir.

Klara greiðir skatt af þeim tekjum sem hún hefur af Onlyfans og vinnur nú með endurskoðenda að því að stofna fyrirtæki.

Áður en Klara ákvað að stofna Onlyfans-reikninginn sinn ræddi hún það við strákinn sem hún var að hitta og móður sína. Mamma hennar hvatti hana áfram og kærastinn hennar ákvað að styðja hana í því líka. 

„Ég sagði bara við hann: Fyrir mér er þetta bara „bissness“, þetta er ekki neitt annað. Ég ber ekki neinar tilfinningar fyrir þessu,“ sagði Klara. 

Þáttinn má finna í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina