Fólk þarf að fara varlega í klámi

Stefan Octavian Gheorgh hefur prófað ýmislegt í klámiðnaðinum en hefur …
Stefan Octavian Gheorgh hefur prófað ýmislegt í klámiðnaðinum en hefur tekið sér hvíld frá því eins og er. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Athafnamaðurinn Stefan Octavian Gheorghe er einn af þeim Íslendingum sem hafa verið með aðgang á samfélagsmiðlinum Onlyfans og birt þar efni. Stefan segist hafa grætt peninga á síðunni en fólk ætti að hugsa sig tvisvar um áður en það tekur ákvörðun um að bera sig fyrir framan heiminn.

Fólk birtir ekki bara erótískt myndefni á OnlyFans. Hann segir margar af stærstu samfélagsmiðlastjörnum í heimi vera með aðgang að síðunni og birta venjulegar myndir af sér. Hitt er hins vegar líka leyfilegt. „Þú ert þinn eigin framleiðandi. Þetta geta verið myndir af þér í snjógalla eða myndband af þér „full on“ í rúminu eða sturtunni,“ segir Stefan um fjölbreytni myndefnisins. 

Stefan var einn af fyrstu Íslendingunum til þess að stofna aðgang á Onlyfans. Hann var einnig með aðgang á Justforfans þar sem Onlyfans var í fyrstu bara aðgengilegt í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann hefur hins vegar ekki verið með aðgang í nokkur ár. Síðastlið ár hefur hann dregið sig í hlé frá sviðsljósinu og unnið í sjálfum sér.

Onlyfans hefur verið áberandi í umræðunni að undanförnu og dæmi um að ungir Íslendingar afli hárra tekna í gegnum samfélagsmiðilinn. Stefan leggur áherslu á að fólk lesi alla skilmála áður en það fer út í þetta enda fer þarna lögleg sala myndefnis fram og mikilvægt að fólk sé meðvitað um að borga skatta. Hann þekkir meðal annars fólk í Bandaríkjunum sem hefur fengið 20 til 30 milljónir á ári en síðan ekki áttað sig á því það þarf að borga skatta. Hann segir marga brenna sig á þessu.

Stefan leggur einnig áherslu á að fólk sé meðvitað um afleiðingar þess að birta myndir af sér. Þrátt fyrir að fólk kjósi að birta ekki andlitsmyndir eða komi fram undir dulnefni er síðan með upplýsingar um íslenska bankareikninga fólks. Allt sem fer út á netið í dag er á einhvern hátt rekjanlegt. Ekki má heldur treysta áhorfendum og aðdáendum í blindni. „Það er alls konar klikkað fólk úti í heimi og það þarf að fara varlega.“

Stefan kemur fram undir nafninu Charlie Keller Grande og segir persónuna ekki hætta í kláminu þótt hún sé í ákveðnum dvala. Honum finnst gott að aðskilja sjálfan sig og manninn í sviðsljósinu og segist hafa brennt sig á ýmsu. Innst inni sé hann rólegur og feiminn en margir haldi að hann sé mjög opinn og út á við. 

Þegar hann prófaði sig áfram í klámi á sínum tíma var það forvitni sem leiddi hann áfram. „Ekki halda þetta sé eitthvað slæmt. Mér finnst leiðinlegt að fólk haldi að þetta sé bara dóp og rugl. Við erum með Óskarsverðlaun í þessu og ég hef farið á rauða dregilinn,“ segir Stefan. „Fólk þarf að fara varlega. Ég mæli ekki endilega með að fólk fari út í klám en ef þetta er það sem fólk vill gera þá bara endilega. Vertu viss um að þú vitir hvað þú ert að gera.“

„Ekki hræða heldur fræða“ segir Stefan að lokum vera orðtak sem eigi vel við klám. Hann leggur til dæmis mikla áherslu á að fullorðið fólk ræði við börnin sín í stað þess að loka á umræðuna.

Stefan Octavian Gheorgh.
Stefan Octavian Gheorgh. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina