Hætti í vinnunni, seldi allar eigurnar og fór ein í ferðalag

Kaja Balejko hefur fundið sig hér á landi þar sem …
Kaja Balejko hefur fundið sig hér á landi þar sem hún býr með unnusta sínum og barni. mbl.is/Marciej Suwalowski

Það sést að ljósmyndarinn Kaja Balejko er í góðum tengslum við öll litlu augnablikin í lífinu. Hún segir að fallegustu ljósmyndirnar verði í brúðkaupum þegar fólk fylgir hjarta sínu í stað þess að elta hugmyndina um fullkomnun.

Ljósmyndarinn Kaja Balejko býr á Íslandi en tekur myndir af fólki um víða veröld. Hún sérhæfir sig í meðal annars brúðkaupsljósmyndun, bæði hefðbundnum, klassískum ljósmyndum en einnig í að ljósmynda brúðhjón sem ákveða að stinga af og gifta sig. Kaja þekkir það af eigin raun að fara burt frá öllu sem henni er kært, til að finna sig í nýju landi og með nýju fólki.

„Ég upplifði ákveðin tímamót í mínu lífi þegar ég hætti í vinnunni, seldi allar eignir mínar og fór ein í burtu og endaði á strönd í Albaníu með myndavélina. Ég fann mig á þessu ferðalagi og áhuga minn á fólki og að ná þeim augnablikum í gegnum linsuna.“

Hún ákvað að fara frá Albaníu norðar á bóginn og endaði svo hér á Íslandi.
„Ég er ánægð með að geta kallað Ísland heimaland mitt í dag. Í upphafi ætlaði ég einungis að staldra hér við en nú hef ég eignast unnusta og litla dóttur sem heitir Mía Brá og svo á ég sætan, aðeins of feitan, hund.“

Vann með munaðarlausum börnum

Kaja er fædd og uppalin í Póllandi.
„Þegar ég var barn ferðaðist ég tvo mánuði á ári innanlands þar sem ég naut þess að vera í náttúrunni og kynnast hægari lífsstíl, eignast nýja vini og að safna minningum. Ég lærði áfallameðferð og vann með börnum á stofnunum fyrir munaðarlaus börn og eins mikið og ég
elskaði vinnuna mína þá fann ég þörfina fyrir að ferðast og kynnast veröldinni aukast innra með mér.

Ég hafði unnið með börnum í tíu ár áður en ég hóf ferðalag mitt. Á Íslandi fann ég þetta frelsi sem ég hef svo lengi leitað að. Bæði andlega og líkamlega.“

Áhuga hennar á ljósmyndun má rekja til barnæskunnar.

Kaja hefur gaman að því að mynda brúðhjón út í …
Kaja hefur gaman að því að mynda brúðhjón út í náttúrunni. mbl.is/Kaja Balejko

„Ilmurinn úr æsku minni er tóbaksilmur úr pípunni hans afa. Ég man eftir mér sitjandi í stórum hægindastól úr flaueli. Vafin í teppi með hnött af veröldinni. Þetta gerði ég hvern sunnudag. Á borðinu okkar var glerskál þar sem afi minn hafði safnað saman
filmum frá ferðalögum okkar, en þá hafði ég, sex ára, verið að taka ljósmyndir þegar við fórum í stutt ferðalög á bílnum hans.

Við framkölluðum eina filmu á mánuði og þannig fengu minningar okkar líf. Í hvert skipti sem ég tek ljósmyndir reyni ég að endurskapa augnablikið fyrir fleiri að sjá. Þannig að þegar fólk skoðar ljósmyndina þá fái það sömu tilfinningu og við höfum í augnablikinu.“

Hvað leiddi þig að brúðkaupsljósmyndum?

„Ég elska fólk og sögurnar á bak við einstaklinga og andlit þeirra. Ég vel að mynda raunveruleg augnablik sem byggjast á nánd, og oft heilla mig augnablik sem eru ekki almennt gripin í lífinu. Svo sem þegar hjón gifta sig, stinga af út í náttúruna til að bindast, þegar fæðing á sér stað eða jafnvel dauði. Hversdagsleg augnablik eiga það til að gleymast og í fjölskyldum er mikilvægt að muna þessi augnablik langt inn í framtíðina.

Sumar ljósmyndirnar verða að sögum sem foreldrar og afar og ömmur segja á kvöldin.“

Kaja sérhæfir sig í að ljósmynda brúðhjón á brúðkaupsdaginn.
Kaja sérhæfir sig í að ljósmynda brúðhjón á brúðkaupsdaginn. mbl.is/Kaja Balejko

Að fylgja hjartanu í stað hugmyndar um fullkomnun

Ef Kaja væri Gollum í Lord Of The Rings hefði hún gripið alla litlu hlutina í lífinu í stað hringsins.

„Ég trúi því að fallegt brúðkaup þurfi ekki að kosta of mikið. Ef fólk er það sjálft og trúir að það sé verðmætt og fylgir innsæinu, þá fær það fallegt brúðkaup. Það er brúðkaup sem er ekki byggt á fullkomnun heldur upplifun. Fallegt brúðkaup verður til ef þú fylgir hjartanu.“

Kaja segir mikilvægt að finna ljósmyndara sem fólk nær tengingu við.
„Skoðun mín gæti verið óhefðbundin. En að mínu mati þá fær fólk fallegar ljósmyndir úr brúðkaupinu þegar það finnur ljósmyndara sem það nær tengingu við. Það er ekkert verra en að upplifa mikilvæg augnablik, full af alls konar tilfinningum, með einhverjum sem manni líður
ekki vel með. Treystu tilfinningu þinni og treystu ljósmyndaranum sem þú velur.“

Nú oftar en áður er mikilvægt að eiga fallegar ljósmyndir …
Nú oftar en áður er mikilvægt að eiga fallegar ljósmyndir frá brúðkaupinu. Sér í lagi þar sem fjöldatakmarkanir eru miklar og hefðbundin brúðkaup því ekki möguleg. mbl.is/Kaja Balejko

Hver er fallegasta ljósmyndin sem þú hefur tekið?

„Fyrsta ljósmyndin sem ég tók er mín uppáhalds. Ég man varla eftir henni en ég man að ég tók hana með afa mínum og ég fékk að framkalla hana og halda á henni. Ég veit að ef ég hefði ekki tekið þessa mynd hefði ég aldrei orðið ljósmyndari.“

Vegna kórónuveirunnar eru pör víða um heiminn í erfiðleikum með að gera brúðkaupsplön.

Það getur verið mikið stuð og stemning þegar brúðhjón stinga …
Það getur verið mikið stuð og stemning þegar brúðhjón stinga af og gifta sig úti í náttúrunni. mbl.is/Kaja Balejko

„Staðan í heiminum gerir það að verkum að pör eru að drukkna í óvissu, en það eru nokkur atriði sem geta létt fólki lífið. Ég hef skrifað um þetta á heimasíðunni minni og þangað langar mig að bjóða öllum. En inntakið er að þið eruð ekki ein. Svo haldið áfram með plönin ykkar og gerið það besta úr hlutunum. „Turn lemons into lemonade!“

Góðar stundir festar á filmu á brúðkaupsdaginn.
Góðar stundir festar á filmu á brúðkaupsdaginn. mbl.is/Kaja Balejko
mbl.is