„Nú líður mér betur andlega“

Linda Pétursdóttir er lífsþjálfi og aðstoðar konur við að komast …
Linda Pétursdóttir er lífsþjálfi og aðstoðar konur við að komast í þá þyngd sem þær dreyma um. mbl.isl/Ásta Kristjánsdóttir

Hlaðvarp Lindu Pét­urs­dótt­ur er að slá í gegn um þess­ar mund­ir og fór sextándi þátturinn í loftið í dag. Þátt­ur­inn fjall­ar um árangurssögu Söndru og hvernig það að vinna með þyngd sína hjálpaði henni að ná sér eftir áfall sem hún varð fyrir þegar hún missti bestu vinkonu sína. Sandra hélt að hún væri kannski ekki nógu þung til að taka þátt í námskeiðinu hjá Lindu en segir að vinnan hafi veitt sér lausn frá mörgu.

„Ég kynnti mér þetta og ákvað að slá til og ég er sko ekkert á leiðinni að hætta. Þetta er orðið partur af mínum lífsstíl og gefur mér virkilega mikið að vinna svona í mér andlega.

Hér áður fyrr fór ég í alls kyns lífsstílsbreytingar en þegar mikið er um boð og bönn hef ég á endanum gefist upp. Ég hef náð árangri áður en ekki náð að halda honum í lengri tíma. Því hvað á maður að gera þegar maður nær árangri? Hvað svo? Hvernig á maður að viðhalda honum?

Mér fannst eins og eitthvað hefði alltaf vantað þar til nú. Nú hef ég fundið lausn og trúi því að ég geti haldið þessu áfram. Það hefur vantað eftirfylgni og að hvetja mann áfram en nú er ég loksins komin með stuðninginn sem mér fannst vanta. Ég er búin að læra hvernig ég held mig við efnið og er laus við þessi endalausu boð og bönn þegar kemur að mataræði. Þetta þarf ekki að vera flókið,“ segir Sandra.

Í hlaðvarpi Lindu kemur fram að Sandra hafði oft upplifað höfuðverk hér áður en sé nú laus við hann.

„Ég var svo oft með hausverk en eftir að ég bætti grunnreglunum fjórum inn í líf mitt og jók vatnsdrykkjuna hef ég losnað við hausverkinn. Í dag borða ég aldrei það mikið að mér líði illa og er hætt millibitum. Ég tók það föstum tökum strax og náði að standa með sjálfri mér og árangurinn er eftir því,“ segir hún.  

Sandra missti bestu vinkonu sína og frænku fyrir einu og hálfu ári og gat ekki leitað sér aðstoðar með það. 

„Það eru engir sálfræðingar hér þar sem ég bý á Vopnafirði og þetta prógramm hefur hjálpað mér að vinna úr því áfalli. Það er svo gott að við erum ekki bara að léttast líkamlega í þessari vinnu heldur líka andlega. Þessi vinna hefur hjálpað mér með svo margt og mér líður strax miklu betur, bæði andlega og líkamlega.“

Sandra er að verða fjörutíu og fimm ára og tók þá ákvörðun að gera eitthvað í sínum málum því hún ætlar ekki að þyngjast með árunum. 

„Ég veit að ég vil ekki þyngjast með hverju ári sem líður en þetta hefur samt mest hjálpað mér að huga að eigin hugsunum og tilfinningum og hvernig ég ætla að takast á við hugann. Nú líður mér betur andlega. Er meðvitaðri um sjálfa mig og áhrif hugsana minna á líf mitt. Það hefur aldrei gengið jafn vel að losa sig við aukakílóin og það hefur ekki verið erfitt. Með því að standa svona með sjálfri mér veit ég að nú eru mér allir vegir færir.“

Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is