Engin skömm að falla á prófi

Lína Birgitta féll og skammast sín ekki fyrir það.
Lína Birgitta féll og skammast sín ekki fyrir það. Ljósmynd/Aðsend

Athafnakonan Lína Birgitta Sig­urðardótt­ir greinir frá því á Instagram að hún hafi fallið á prófi í háskóla. Í stað þess að fara í felur með hvernig gekk ákvað Lína Birgitta að segja sannleikann. Hún fékk mikið hrós fyrir að segja frá enda margir sem rífa sig niður eða skammast sín fyrir að falla.

„Skál fyrir því að ég skítféll í einu prófi,“ skrifaði Lína Birgitta sem fannst henni þó ekki ganga illa í prófinu. „Þið sem voruð að falla í prófi, ekki taka það inn á ykkur! Þið gerið betur næst og græðið ekkert á því að tala ykkur niður! Ég er peppuð að taka endurtekningapróf og rústa því.“

Lína Birgitta birti nokkur skilaboð sem hún fékk. Þar var henni hrósað fyrir að vera mannleg og segja frá þegar illa gengur. Einn fylgjandi hennar sagðist þekkja það að ganga ekki alltaf vel í prófum og það væri mikið tabú að segja frá því. Einnig fékk hún skilaboð þar sem bent var á að heimurinn færist ekki við það að falla og þetta væri alltof mikill feluleikur. 

„Það er enginn skömm í því að falla á prófi. Það er gott að tala um það upphátt og pegga sig að gera betur næst,“ skrifaði Lína Birgitta að lokum. 

mbl.is